SunnudagsMogginn - 06.06.2010, Blaðsíða 50
50 6. júní 2010
E
f áhugamenn um framúrskarandi ljósmyndun
hafa einhverntímann átt erindi til New York
borgar, þá er það líklega núna þessa dagana. Út
júnímánuð stendur nefnilega yfir í Museum of
Modern Art, MoMA, sýningin Henri Cartier-Bresson –
The Modern Century. Þetta er afar yfirgripsmikil sýning
þar sem er farið yfir ólíka þætti í ferli franska ljósmynd-
arans sem auðnaðist að bylta miðlinum á óviðjafn-
anlegan hátt og notaði ljósmyndina til að sýna heiminn
eins og enginn annar hefur gert. Þessa sýningu má eng-
inn unnandi merkrar ljósmyndalistar, sem hefur tæki-
færi til að sækja borgina heim, láta framhjá sér fara.
Súrrealistinn og frásagnarljósmyndarinn
Þegar Henri Cartier-Bresson lést árið 2004, á 96. ald-
urári, var hann hylltur sem risi í heimi ljósmyndunar,
einn áhrifamesti ljósmyndari sögunnar, og jafnframt
einn mesti listamaður 20. aldar. Eins og felst í titli þess-
arar stóru yfirlitssýningar í MoMA, fyrstu stóru og
fræðilega saman settu sýningunni sem fer upp með
verkum ljósmyndarans eftir andlát hans, þá var hann
sannkallaður skrásetjari 20. aldarinnar; hinnar módern-
ísku aldar. Myndarleg bók kom út samhliða sýningunni.
Fyrir framan sýningarsalina hefur verið komið fyrir
flennistóru heimskorti, þar sem ferðalög Cartier-
Bressons eru dregin upp, svo minnir helst á lýsingar af
flakki ævintýramanna á borð við Indiana Jones. Sú sam-
líking er heldur ekki fjarri lagi, enda var nær allur heim-
urinn undir í þá fjóra áratugi sem Cartier-Bresson var
sérstaklega virkur sem ljósmyndari, 1931 til 1973 (þá
sneri hann sér að æskuástinni, teikningunni!)
Ferlinum má skipta í tvennt. Annarsvegar er tími hins
súrrealíska götuljósmyndara, sem hafði aðeins áhuga á
að fanga mannlífið sem hann upplifði, í sögulausum en
formhreinum myndum. Á nokkrum árum umbylti hann
þá því fagi sem kallað hefur verið götuljósmyndun. Eftir
heimsstyrjöldina síðari varaði Robert Capa vinur hans,
hinn kunni stríðsljósmyndari, Cartier-Bresson hins-
vegar við því að láta ekki stimpil „litla súrrealistans“
festast við sig. Eftir að hafa verið stríðsfangi nasista og
upplifað hörmungar styrjaldarinnar var engin hætta á
því; þeir Capa og nokkrir félagar til stofnuðu Magnum,
hinn kunna ljósmyndarahóp, og við tók tímabil þar sem
Cartier-Bresson var leiðandi í hópi fótó-journalista.
Hann skráði þá í frásagnarlegum og iðulega félagslega
meðvituðum ljósmyndum samfélagslegar hræringar, án
þess þó að fórna nokkru sinni formrænum kröfum eða
glata áhuganum á áhugaverðu umhverfi og skapandi
fólki. Þriðja sviðið sem ég tel Cartier-Bresson nefnilega
hafa umbylt, auk götu- og fréttaljósmyndunar, er um-
hverfisportrettið, myndir af misfrægu fólki í sínu per-
sónulega umhverfi.
Frumprent og frumbirtingar
Á sýningunni eru um 300 ljósmyndir. Um 200 koma frá
Cartier-Bresson stofnuninni í París en talsverður fjöldi
er í eigu MoMA. Forvitnilegt er að sjá mörg frumprent
þarna og bera þau saman við seinni tíma prent, sem eru
iðulega stærri og vandaðri tæknilega séð. Ljósmynd-
arinn hafði lítinn áhuga á myrkraherbergisvinnu, eins
og sjá má, og fól sérfræðingum fljótlega að sjá um prent-
un myndanna. Frumprent eru þær myndir kallaðar sem
eru gerðar eftir filmunum innan fimm ára frá þær eru
teknar og þótt þau séu lakari að gæðum, þá eru frum-
prentin ætíð verðmætari á markaðinum. Þá er einnig af-
ar forvitnilegt að skoða í gömlum dagblöðum og tíma-
ritum í sýningarkössum hvernig stakar myndir og
myndafrásagnir voru upphaflega birtar; iðulega hefur
ljósmyndarinn valið aðra ramma til að birta í bókum
sínum en ritstjórar blaðanna kusu. Þá er ekki síður for-
vitnilegt að sjá hvernig blöð á vesturlöndum birtu ein-
stakar myndaraðir Cartier-Bressons frá Sovétríkjunum
og Kína, meðan það voru enn nær lokaðir heimar.
Sýningunni er annars skipt í 13 hluta. Í fyrsta hlut-
anum eru kunn verk frá fyrsta skeiðinu, súrrealíska
götuljósmyndaranum, og í öðrum eru lykilverk frá
skeiði frásagnarljósmyndarans eins og myndin hér til
hægri, af fólki sem treðst í röð fyrir utan banka í
Shanghai, í von um að ná einhverju af gulli sínu þegar
kommúnistar eru í þá mund að ráðast inn í borgina.
Hinum köflunum er skipt upp í þemu á nokkuð
óvæntan en athyglisverðan hátt. Í nokkrum birtist skrá-
setning Cartier-Bressons á daglegu lífi, í heimalandinu,
annarsstaðar í Evrópu, Bandaríkjunum og í Asíu. Þá er
horft á breytingar, meðal annars í félagslegu samhengi,
eins og í Sovétríkjunum, og á framleiðsluháttum. Kaflar
eru helgaðir stórum ljósmyndafrásögnum, eins og
skráningu á „stóra stökkinu“ í Kína árið 1958, og önnur,
sem er nær óþekkt, sýnir lífið innan bandarískra banka-
stofnana. Þá eru hlutar sýningarinnar helgaðir portertt-
um og túlkun ljósmyndarans á fegurð heimsins.
Hugsunin og augað skipta öllu máli
Við að fara gegnum einstakan myndheim Cartier-
Bressons í MoMA gat ég ekki annað en hugleitt hvað við-
fangsefni sýningarinnar var í raun fjarri því sem hæst
ber í umræðu um ljósmyndun um þessar stundir. Bless-
unarlega koma megapixlar, súmm og myndavélaheiti
þessum heimi á sýningunni ekkert við, enda viðfangs-
efnið það sem í raun skiptir máli þegar fólk beitir þess-
um skráningarkassa sem myndavélin er: umheimurinn
og fólkið sem hann byggir. Þeir sem hafa áhuga á að taka
myndir og skoða mikilvæga ljósmyndun þurfa að gera
sér grein fyrir því að gæði mynda fara ekki eftir því
hvort tækið sem beitt er kostar milljón krónur eða tutt-
ugu þúsund; það er hægt að taka góða ljósmynd á hvaða
myndavél sem er. Cartier-Bresson notaði samskonar vél
alla tíð, Leica með 35mm filmu, nær alltaf með 50mm
linsu, og notaði hvorki flass né ljósmæli. Það er hugs-
unin að baki, og þjálfun augans, sem skiptir máli. Car-
tier-Bresson auðnaðist að skapa fleiri meistaraverk en
nokkur annar ljósmyndari á tuttugustu öld; þar sem
hann, í eigin orðum, nam á sekúndubroti „tilfinning-
arnar í myndefninu og fegurð formsins.“
Ljósmyndun
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Afgerandi
augnablik
Þessa mánuðina býður MoMA, Samtímalistasafnið í New
York, upp á veislu fyrir áhugafólk um ljósmyndun þar sem
sýnt er hvernig miðillinn var mótaður og notaður um leið til
að skrá hræringar tuttugustu aldar. Veisluföngin eru öll frá
Henri Cartier-Bresson, mesta ljósmyndara aldarinnar.
’
Blessunarlega koma megapixl-
ar, súmm og myndavélaheiti
þessum heimi á sýningunni
ekkert við, enda viðfangsefnið það
sem í raun skiptir máli þegar fólk
beitir þessum skráningarkassa sem
myndavélin er: umheimurinn og fólk-
ið sem hann byggir.
Lesbók