SunnudagsMogginn - 29.05.2011, Side 16

SunnudagsMogginn - 29.05.2011, Side 16
16 29. maí 2011 Þ að er ekki amalegt útsýnið af svölunum fyrir framan vinnustofu Braga Ásgeirssonar á 13. hæð við Austurbrún 4 í Reykjavík. Við horfum út á sundin blá. „Ekki er skipulagið síðra,“ segir Bragi og glottir. „Það er eins og þessi hús hafi fallið af himnum.“ Það er aldrei langt í húmorinn á þessum bæn- um. Við höldum sem leið liggur inn á vinnustofuna, þar sem Bragi hefur stundað list sína í 45 ár. Hingað kemur hann helst á hverjum degi, nema á sunnudögum, þökk sé stopulum strætóferðum. „Dagurinn er yfirleitt í föstum skorðum hjá mér. Ég vinn heima á morgnana, skrifa og les bækur og góð blöð. Það er mín aðferð til að sanka að mér orðaforða vegna þess að ég heyri ekki orðin. Síðan kem ég hingað á vinnustofuna eftir hádegi og mála.“ Talið berst að merkum áfanga sem er handan við horn- ið, áttræðisafmælinu. „Það er mikið stökk frá því að vera sjötugur, nánast 25 ár,“ svarar Bragi brosandi. „Ég er ekki eins þrekmikill og áður en að öðru leyti er heilsan mjög góð. Ég lenti í hremmingum um tíma en komst í gegnum þær.“ „Auðvitað,“ svarar Bragi og fórnar höndum, þegar spurt er hvort það séu ekki forréttindi að geta ennþá unn- ið og málað. „Og ekki síður að halda jafnaðargeðinu og lífsgleðinni. Picasso málaði til hinstu stundar en var ósátt- ur við að klára bara þrjár myndir á dag en ekki tíu eins og áður. Sama má segja um Renoir, hann lét gigtina ekki aftra sér. Málarar hafa mikla þörf fyrir að tjá sig.“ Festist í tilraunum – Liggur frelsið í málverkinu? „Málverk, riss og grafík eru í eðli sínu mjög auðgandi athafnir. Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt. Ég festist snemma í því að gera tilraunir – sem þykir ekki alltaf fínt. Galleristarnir vilja að maður festist í einhverju söluvænlegu. Á Íslandi eru listamenn lítið á framfæri gall- erista sem veitir þeim ákveðið frelsi. Á móti kemur að tækifærin til að sýna eru mun færri. Annars er stór- hættulegt að komast í tísku á Íslandi, þá getur farið fyrir manni eins og fótanuddtækinu forðum!“ – Erum við að einangrast sem þjóð? „Já. Það er nóg að fletta íþróttasíðum blaðanna til að átta sig á því. Þar er lítið um fréttir frá útlöndum. Það er eins með listina, við fylgjumst ekki nægilega vel með. Hvernig er líka hægt að ætlast til þess þegar straumurinn liggur á sólarstrandir, þegar landinn fer utan? Þar sjá menn enga list. Sjónvarpið er svo kapítuli út af fyrir sig, þar er alltof mikið af byssuþáttum.“ – Hvers vegna er þetta svona? „Stjórnmálamenn eiga stóra sök á þessu. Mjúku hlið- arnar á lífinu hafa með sanni ekki haft forgang á Íslandi í tímans rás.“ Hvað má og hvað má ekki? – Í kjölfar Koddu-sýningarinnar í Nýlistasafninu, þar sem umdeilt verk, Fallegasta bók í heimi, var til sýnis hefur spunnist nokkur umræða um það hvað má og hvað má ekki í listum. Fróðlegt væri að heyra þitt sjónarmið í þeim efnum. „Hér á það rækilega við, að fæst orð beri minnsta ábyrgð, hef ekki séð bókina, ei heldur sýninguna, tel þó að farið hafi verið út fyrir siðræn mörk. Hvað má og hvað ekki í listum er hins vegar mikið álitamál.“ – Þú hefur lifað langan dag í listinni. Þykir þér þróun- in í íslenskri myndlist undanfarna áratugi hafa verið til heilla? „Þessu tel ég mig hafa svarað í þó nokkrum pistlum mínum, en þó rétt að endurtaka nokkur meginatriði: Hið fyrsta skortir hér tilfinnanlega rými hvar almenn- ingur getur virt fyrir sér þróun íslenskra sjónlista augliti til auglitis, ekki einungis frá aldamótunum 1900, heldur allt frá þverskurði þess er hinar myndskreyttu öndveg- issúlur rak á land og fram til þess tíma þá Sæmundur Magnússon Hólm frá Hólmaseli í Meðallandi hóf fyrstur Íslendinga nám við Listakademíuna í Kaupmannahöfn 1776, og rakaði að sér verðlaunum, loks þaðan til seinni hluta nítjándu aldar og okkar tíma. Þá fyrst verður mögu- legt að gera sér fulla og skilvirka grein fyrir þróuninni, einnig síðustu áratugi. Samtíma Sæmundi við Akadem- íuna um skeið munu einnig hafa verið Bertel Thorvaldsen, og hinn hámenntaði Ólafur Ólafsson frá Frostastöðum í Blönduhlíð, seinna búsettur í Noregi, og kenndur við Kóngsberg, sem víðfrægur varð fyrir útbreiðslu nýklass- ískra hugmynda í arkitektúr. Einnig má nefna hinn minna þekkta Rafn Þorgrímsson Svarfdalín frá Þverá í Öxnadal. Metnaður og hæfileikar til skapandi athafna virðast þann- ig vel að merkja óneitanlega hafa verið fyrir hendi meðal þjóðarinnar, en blundað um aldir. Ofurseldir mati örfárra Eins og stendur eru Íslendingar ofurseldir mati örfárra sem ákveða hvað skuli kynnt almenningi, hvað ekki og hvernig, nokkurs konar gæslumenn réttrúnaðar í listum. Innbyrðis samþykktir þessara sjálfskipuðu postula og bet- urvitandi, skulu sömuleiðis hafa ígildi þjóðarsáttar. Giska skondið í lýðræðisríki og eru Íslendingar hér í sérflokki á Norðurlöndum, sem og víðast annars staðar í heiminum. Höfuðmáli skiptir að almenningi gefist kostur að þroska myndskyn sitt, þróa einnegin með sér persónulegar skoð- anir án beinnar íhlutunar utanaðkomandi, einkum hinna svonefndu hlutdrægu og pólitísku bendiprika sem yfrið nóg er af í heimi hér. Vísa til þess, að myndlistarmenn sem skarað hafa, og skara framúr, hafa yfirleitt verið sammála um að þeir hafi lært mest af skoðun safna og sýninga ásamt rannsóknum upp á eigin spýtur. Annað sem telst staðbundið varðandi útkjálkabúa, staðreynd sem við verðum því miður að kyngja, er þessi ofur- hræðsla við að viðurkenna áhrif frá öðrum, hér virðast flestir vilja teljast eingetnir eins og frelsarinn, um leið og þeir ótvírætt fylgja höfuðstraumunum, margir í blindni. Neikvætt að ungir virðast ekki lengur þurfa að leita til safna né visku til fortíðar, helst skal hún þurrkuð upp eins og íslenskt vot- lendi. Minnumst hér hinnar skorinorðu myndlíkingar í framslætti Oscars Wilde: „Viðvaningurinn segist vera undir vissum áhrifum, en snillingurinn einfaldlega að hann steli frá öðrum!“ Menn athugi um leið, að það er auðvitað ekki sama frá hverjum menn stela, því síður hvernig. Hér skiptir til- finning og yfirsýn meginmáli, að viðkomandi nái að brjóta áhrifin undir persónuleika sinn. Nú síðast var vitnað í myndhöggvarann Auguste Rodin, sem bætti við; að allt sem hann sjálfur gerði væri fengið að láni úr hinni og þess- ari áttinni! Summan og niðurstaðan er auðvitað, að menn eigi ekki að óttast að skaða ímyndaðan persónuleika sinn við að nema af fortíðinni og hinum þroskaðri og reynslu- meiri, að endingu skal svo heldur ekki yfirsjást að hinn fá- vísi veit yfirleitt alltaf betur.“ Klaustur og ógeð – Þú hefur hafnað þeirri staðhæfingu að málverkið sé dautt. Hvernig metur þú stöðu þess í dag? „Þessari spurningu hef ég einnig margoft svarað í pistl- um mínum. Og ef í hnotskurn er litið allt frá stríðslokum 1945, hélt málverkið sínu allar götur fram að því er hug- myndafræðilega tímabilið varð að heimsfári sem stóð í áratug og meir, og olli er fram liðu stundir mikilli kreppu hjá listhúsum austan hafs sem vestan. En er botninum var náð í upphafi níunda áratugarins og nýbylgjumálverkið, eða kannski heldur nýja málverkið ruddi sér rúms, varð gríðarleg sprenging. Markaðurinn andaði léttar, vegur málverksins náði fljótlega áður óþekktum hæðum og verk óhlutlægra málara Parísarskólans, einkum frá fimmta og sjötta áratugnum konmust sem endurnýjuð á stall og margfölduðust í verði. En stöðluð hugmyndafræðin lét af- ter á sér kræla, naumhyggjan og afbygging viðurkenndra vinnubragða, jafnvel í átt til hreins klasturs og ógeðs, eins og menn virðast geta séð í meðhöndlun bókverksins á Koddu-sýningunni. Naumhyggjan hafði viðtæk áhrif og þá einnig í húsagerðarlist og innanhússarkitektúr eins og sjá má allt um kring, ekki síst hér á landi. En í raun og veru gaf málverkið aldrei upp öndina, frekar en að tekist hafi að aflífa Picasso, en við það remdust vísir eins og rjúpan við staurinn, og enn eru gerð málverk í anda Cobratímabils- ins, abstrakt expressjónismans, óformlega málverksins, geometríunnar, nýja málverksins, hjástefnunnar [súr- realismans] og ofurraunsæisins. Þá heldur Picasso velli með braki að segja má, og ekki er sett upp sýning á verk- um hans án þess að múgurinn stími að, jafnvel með nesti og nýja skó í biðröðina. Og verk hans, eitt og fleiri, skipa ár hvert sess meðal tíu efstu á virtustu uppboðum heims- byggðarinnar. Af þessu má ráða að grunnur málverksins er öllum tískubylgjum markaðarins og hjarðarhugsun listaskólakerfisins æðri, enda er málverkið nú talið örugg- asta og arðbærasta verðbréfið vestan hafs, en vel að merkja þurfa menn að hafa nef fyrir hlutunum …“ Hræðsla við listamenn – Þú hefur lengi gagnrýnt skort á listfræðslu í skólum landsins. Sagt að íslensk ungmenni viti allt um popp- stjörnur samtímans en minna um djúpvitra listamenn sem hafa umbylt ríkjandi hugsunarhætti . Hvers vegna er menntakerfið svona tregt að breyta þessu? „Ég held að það sé ekki fyrst og fremst sök mennta- kerfisins, þótt íhaldssemi, samlegðarárátta og tregða spili þar óvefjanlega inni. Heldur sé erfiðasti hjallinn hræðsla við listamenn, einarðlega skoðanamyndun og gagnsæi, að viðbættri fáfræði ráðamanna. Þetta sýna fjárveitingar til íþrótta og lista betur en nokkuð annað, til að mynda fær golfsambandið yfir 300 milljónir fyrir starfsemi sína og er vafalaust vel að þeim krónum komið. Hins vegar fær Listasafn Íslands einungis 12 milljónir til endurnýjunar listaverkaeignar sinnar og þjóðarinnar um leið! Þetta er einungis gott dæmi þess að ráðamönnum er stórum ann- ara um efnið en andann, vöðvana en vitið, og má hér vísa til frægrar skopteikningar um draumahermann prúss- neskra herforingja á árum áður, þá af var höfuðið!“ – Undanfarin misseri hafa verið ís- lensku þjóðinni erfið. Hvaða áhrif sýnist þér efnahagskreppan hafa á listsköpun í landinu? Stundum er sagt að listin þrífist aldrei betur en í kreppu. „Það verður ekki ennþá séð hverjar af- leiðingar kreppunnar verða, en sagan seg- ir að listamenn gefist ekki svo auðveldlega upp þótt á móti blási. Andstreymið hefur verið þeim ögrun og áskorun til athafna frekar en hitt, óvíða hefur það verið jafn altækt og gegnsætt og hér á landi, hvorki Sigurður Guðmundsson málari né nafni hans Breiðfjörð létu til að mynda hugfallast þótt hlutskipti þeirra væri hungur, hor og volæði. Og það var ekki tiltak- anlega mikið af klinki í vösum framúrstefnumanna eftir 1945, hins vegar fleiri göt. Til að mynda myndlistarmanna sem kenndu sig við september og síðan fyrstu kynslóða sporgöngumanna þeirra. Þeir stóðu einir. Allt aðrir tímar í þessum tækniheimi síðustu áratuga, heilaþvotti og hjarð- armennsku. Erfitt fyrir aldna skrögga að gera sér grein fyrir því hvernig mál munu þróast, aðalatriðið hlýtur að vera að þeir standi vaktina og hviki ekki af markaðri leið. Nei, þessi þjóð hélt aldrei vel utan um sína sjónlist- armenn og gerir naumast enn og er hér mjög aftarlega á merinni meðal bræðraþjóða sinna.“ Aldur skiptir engu máli – Margir eru sestir í helgan stein á þínum aldri, jafnvel fyrir löngu. Hefur þú alltaf jafnmikla þrá og döngun til að mála? „Engum metnaðarfullum listamanni sem hefur eitthvað að segja er kyrrstaðan kær, aldur skiptir þar engu máli. Kyrrstaða og hreyfingarleysi er ávísun á stöðnun og dauða, hvort heldur að um efni eða anda er að ræða. Eftir að ég hætti kennslu, listrýni og greinaskrifum er ég í fyrsta skipti í þeirri stöðu frá því 1960, þ.e. rúma hálfa öld, að geta einbeitt mér algjörlega að málverki og leitast við að nýta mér það eftir fremstu getu. Nei, nei, við myndlistarlistmenn þekkjum ekkert sem heitir að setjast í helgan stein, aðrir mega eiga það grjót.“ – Þú hefur alla tíð verið atorkusamur, í lífi og starfi. Hvaðan kemur þessi ólgandi kraftur? „Frá lífsþorstanum.“ Aðrir mega eiga það grjót Bragi Ásgeirsson listmálari, gagnrýnandi og kennari er áttræður í dag, laugardag. Hann er enn að og getur raunar ekki hugsað sér að rifa seglin. „Kyrrstaða og hreyfingarleysi er ávísun á stöðnun og dauða, hvort heldur að um efni eða anda er að ræða.“ Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Myndir: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is ’ Af þessu má ráða að grunn- ur málverksins er öllum tískubylgjum markaðarins og hjarðarhugsun lista- skólakerfisins æðri.

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.