Morgunblaðið - 24.12.2010, Qupperneq 11
24. desember 2010 11
E
ftirvæntingin er óttablandin þegar hún er
óvænt beðin um að syngja fyrir sjálfan
Jósef Stalín – í einrúmi – enda leiðtoginn
frægur fyrir vandlæti og allt eins líklegur
til að leiða listamenn til slátrunar mislíki honum
flutningur þeirra. Hún veðjar á óperu, enda fast-
ráðin við Bolshoj, en allt kemur fyrir ekki. Stalín
vill bara heyra þjóðlög og hetjusöngva um sjálfan
sig. Hann bregst því ókvæða við og henni verður
ekki bjargað.
Hryggileg saga en til allrar hamingju ósönn. Hér
er nefnilega um leikrit að ræða, Kvöldverð með
Stalín, eftir moldavíska leikskáldið Ion Droutse,
sem sjá má á fjölum Árstíða-leikhússins í Aþenu
um þessar mundir. Hvað kemur það okkur Íslend-
ingum svo sem við, gætu menn spurt. Jú, til að
fullkomna fjölþjóðlegt yfirbragð sýningarinnar fer
25 ára íslensk leikkona, Anna Birta Tryggvadóttir,
með hlutverk söngkonunnar seinheppnu. Um er
að ræða frumraun hennar á atvinnuleiksviði en
Anna Birta lýkur þriggja ára námi við leiklist-
arskólann Traga í Aþenu næsta vor.
Eiginlega súrrealískt
„Kennari minn, Iannis Mortzos, sem er marg-
reyndur leikhúsmaður hér í Grikklandi og lék með
Melinu Mercouri í gamla daga, prufaði okkur
nokkur í hlutverk söngkonunnar í sýningunni og
ég hreppti hnossið,“ segir Anna Birta í símasamtali
frá Aþenu. Hún þurfti ekki að hugsa sig um tvisv-
ar. „Það var eiginlega súrrealískt að vera boðið
þetta hlutverk en frábært tækifæri til að leika í
grísku atvinnuleikhúsi áður en ég klára námið.“
Þrjú hlutverk eru í sýningunni, Stalín, einka-
þjónn hans og söngkonan ógæfusama. „Þeg-
ar allt er komið í óefni grípur hún til
þess ráðs að sjá sýnir og verður öll á
trúarlegum nótum. Það er auðvitað eit-
ur í beinum Stalíns sem hendir aum-
ingja söngkonunni út og lætur drepa
hana. Þetta er pólitísk grínádeila með
dramatísku ívafi og fólk hefur skemmt
sér mjög vel,“ útskýrir Anna Birta sem
syngur hástöfum á rússnesku í sýningunni.
Spurð hvort hún hafi kunnað eitthvað fyrir sér í
því ágæta tungumáli skellir hún upp úr. „Nei, nei,
ég kunni ekki orð.“
Í Grikklandi er til siðs að áhorfendur heilsi upp á
leikendur að sýningu lokinni og kann Anna Birta
því vel. „Það er alltaf gaman að fá hrós en mér
finnst alltaf jafnfyndið þegar ég er beðin um að
gefa eiginhandaráritun!“
Fer vonandi til Rússlands
Leikritið verður sýnt fram á vor í Aþenu, fimm
sinnum í viku, en þá verður lagt upp í leikferð um
landið, auk þess sem farið verður í viku til Kýpur.
„Það kemur líka til greina að fara með sýninguna
til Rússlands, þar sem leikritið hefur vakið athygli,
og vonandi verður af því,“ segir Anna Birta en lík-
legt þykir að sýningin verði tekin aftur upp í
Aþenu næsta haust.
Spurð um framhaldið staðfestir Anna Birta að hún
verði áfram í Grikklandi – alltént um sinn. „Ég er búin
að fá nokkur tilboð í kjölfar sýningarinnar og er að
skoða þau þessa dagana. Mér stendur til dæmis til boða
að leika í sjónvarpi hér í Grikklandi eftir áramótin. Ég á
ekki von á að fara héðan á næstunni, alla vega ekki
næstu tvö árin.“
Þess má geta að Anna Birta lék í sinni fyrstu kvik-
mynd ytra í sumar, In the Outbreak of the Moon, og var
hún frumsýnd á dögunum. „Þetta er frekar lítið hlut-
verk en skrifað sérstaklega fyrir mig eftir áheyrn-
arprufurnar. Þetta var mjög skemmtileg reynsla en svo-
lítið furðulegt að sjá sjálfa sig á hvíta tjaldinu,“ segir
hún hlæjandi.
Spurð hvort hún hafi ekki áhuga á að spreyta sig á ís-
lensku leiksviði í framtíðinni svarar Anna Birta afdrátt-
arlaust játandi. Upplýsir raunar að ákveðið verkefni sé í
farvatninu. „Lísbet Harðar Ólafardóttir vinkona mín er
að skrifa fyrir mig einleik og stefnum að því að sækja
um á Act Alone-hátíðinni sem haldin er á Vestfjörðum.
Við sjáum hvað setur.“
Nytsamur túlkur þriggja ára
Þetta er ekki fyrsta dvöl Önnu Birtu í Grikklandi, hún
flutti þangað ung með móður sinni, Ingibjörgu Inga-
dóttur, og ólst þar upp til átta ára aldurs. „Anna Birta
drakk í sig tungumál þjóðarinnar, tónlist, dans og öll
samskipti, auk þess að tileinka sér svipbrigði og lát-
bragð á örskömmum tíma. Strax þriggja ára var hún
ákaflega nytsamur túlkur fyrir mig,“ segir móðir henn-
ar.
Faðir Önnu Birtu, Tryggvi Ingason, lést áður en hún
fæddist en Ingibjörg var um tíma gift grískum manni,
Antonis Lionarakis og á með honum tvö börn. Anna
Birta er í góðu sambandi við Antonis og lítur á hann
sem fósturföður sinn. Notar raunar ættarnafn
hans enda þykir Tryggvadóttir hinn mesti
tungubrjótur þar syðra. „Ég var fljót að kom-
ast aftur inn í samfélagið þegar ég kom hing-
að aftur. Ég var svolítið ryðguð í málinu til að
byrja með og fann verulega fyrir því þegar ég
sat með tragedíurnar á fornmáli í fanginu í
skólanum,“ segir hún og hlær. „Ég var þó fljót
að ná mér á strik og tala grískuna núna eins og
innfædd. Ég kann ofsalega vel við Grikki en í hjarta mér
verð ég alltaf Íslendingur.“
Anna Birta er raunar réttnefndur heimsborgari. Sem
barn bjó hún um fimm ára skeið í Bretlandi en ung-
lingsárin átti hún heima á Íslandi og lauk stúdentsprófi
frá Menntaskólanum á Ísafirði, þar sem hún tók virkan
þátt í leiklistar- og sönglífinu. Eitt ár var Anna Birta
skiptinemi í Brasilíu. Hún verður seint skömmuð fyrir
að fara troðnar slóðir, stúlkan.
Með námi í Aþenu hefur Anna Birta unnið á sumrin
sem leiðsögumaður um grísku eyjarnar og líkar það
stórvel. Hóparnir sem hún sér um eru frá Bretlandi,
Bandaríkjunum og Ástralíu og er farið í vikuferðir í
senn. „Þetta er æðislega skemmtileg vinna og ég reikna
fastlega með að halda henni áfram næsta sumar,“ segir
hún.
Það er að segja ef Talía bankar ekki þeim mun fastar
upp á …
Í gini
Stalíns
Anna Birta Tryggvadóttir ólst að hluta
til upp í Grikklandi. Nú er hún snúin
þangað aftur sem leiklistarnemi og
hlaut á dögunum eldskírn sína á at-
vinnuleiksviði sem söngkona sem
leidd er fyrir sjálfan Stalín.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Anna Birta Tryggvadóttir, Petros Xekoukis og Iannis Mortzos í hlutverkum sínum í Kvöldverði með Stalín.
Anna Birta
Tryggvadóttir lýk-
ur leiklistarprófi
frá Traga-
skólanum í Aþenu
í vor.