Morgunblaðið - 26.07.2011, Blaðsíða 32
Pabbar Bræðslustjórar mættu með afkvæmi sín upp á svið.
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Í lok júlí breytist Bakkagerði í Borgarfirði eystri úr einu af-
skekktasta byggðarlagi landsins í ævintýrareit tónlistarvin-
arins, í afdrep þar sem hægt er að njóta ægifagurrar náttúru við
undirleik forvitnilegra og framúrskarandi tónlistarmanna. Þeir
kalla það Bræðsluna og nefna tónlistarhátíð, en hún er miklu
meira en það, því í umgjörð fjallanna verður þetta litla sam-
félag, sem reyndar margfaldast að fjölda rétt á meðan Bræðslan
stendur yfir, að einni stórri fjölskyldu, samankominni á árlegt
ættarmót þar sem allir ætla að fagna, allir ætla að skemmta sér
og engin leiðindi, enginn mórall.
Tónlistarval á Bræðslunni er jafnan óvenjulegt, innfæddir
listamenn láta gjarnan til sín heyra, eða úr nærsveitum, að
þessu sinni fengum við Vax frá Egilsstöðum, svo er einhver sem
maður hefur lítið eða ekkert heyrt til, til að mynda stöllurnar
Ylja frá Neskaupstað, svo útlend stórstjarna, má kynna Írann
Glen Hansard, og svo eitt íslenskt stuðband til að kynda upp í
bragganum, sem Hjálmar gerðu af yfirvegaðri snilld. Sirka
svona er uppskriftin að frábæru Bræðslukvöldi og þegar við
bættust Svavar Knútur, sem sveiflaðist úr groddalegum galsa í
sáran trega á augabragði, og Jónas og Ritvélarnar, sem skrúf-
uðu upp í sælunni í lokin og fylltu viðstadda trú á það að líklega
myndi allt blessast að lokum, leyfi ég mér að slá því fram hér að
Bræðslan sé ekki bara besta útihátíðin, heldur sú langbesta.
Útihátíð segi ég, þó reyndar hafi skemmtunin farið fram inni í
Bræðslubragganum eins og endranær. Svo háttar þó til í Borg-
arfirði eystri að þegar spilað er í Bræðslunni sér fjallahring-
urinn svo um hljóðmögnun að allir geta notið og fátt skemmti-
legra en að sitja í góðra vina hópi á tjaldstæðinu og njóta
tónlistarinnar i fjallaremixi.
Hvað varðar frammistöðu einstakra listamanna langar mig til
að nefna Yljustúlkur sem eru hæfileikamiklar og stórefnilegar,
Svavar Knútur er frábærlega óútreiknanlegur og alltaf
skemmtilegur, Glen Hansard er traustur en ekki ýkja frum-
legur og Hjálmar voru hreint út sagt frábærir.
Ljósmyndir/Aldís Fjóla B. Ásgeirsdóttir
Reggae Strákarnir í Hjálmum klikka seint en þeir voru í svaka stuði á Bræðslunni. Segir í umsögn um tónleikana að þeir hafi verið hreint út sagt frábærir.
Fjör Það sést á þessari mynd að ungir sem aldnir skemmtu sér vel á tónleikunum í gömlu síldarbræðslunni.
Sá frægi Glen skemmti gestum með gítarspili.
Sól Veðrið lék við Bræðslugesti.
Flottar Stúlkurnar tvær sem mynda hljómsveitina Ylja vöktu mikla lukku.
Sólarupprás Gestir spiluðu tónlist fram undir morgun.
Langbesta
(inni)-
útihátíðin
32 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. JÚLÍ 2011