Ljósmæðrablaðið - 15.04.2002, Blaðsíða 23
Sykursýki á
meðgöngu
Hildur Harbardóttir yfirlæknir
Inngangur
Undanfarinn áratug hefur algengi sykursýki
aukist, einkum svonefndrarfullorðins-
sykursýki eða tegundar 2. Þó svo þessi tegund
sykursýki hafi verið kennd við elli þá þarf
viðkomandi ekki að vera aldraður til að fá
sjúkdóminn, heldur er í raun átt við sykursýki
sem oftast kemur fram eftir að einstaklingurinn
er orðinn fullorðinn. Á íslandi hefur algengi
sykursýki verið lægra en á hinum Norður-
löndunum. Algengi sykursýki af tegund 1
var 0,14% og tegund 2 0,536%, árið 1989
(áætlað út frá sölutölum sykursýkilyfja) (1).
Á árinu 1999 var algengi sykursýki af tegund
1 0,19%, tegund 2 0,9% og ef taldir eru með
allir þeir sem hafa dulinn sjúkdóm þá er tíðnin
1,5% (2,3). Aukninguna má merkja á aukinni
notkun sykursýkilyfja en á árunum 1989-1999
jókst notkun insúlíns og insúlínvirkra lyfja
um 50% og notkun sykursýkilyfja í töfluformi
um 119% (4). Þessi þróun er talin tengjast
hækkandi þyngdarstuðli (body mass index;
BMI; kg/m2) þjóðarinnar. Eftir því sem
þyngdarstuðullinn hækkar þá aukast líkur á
sykursýki af tegund 2. Á sama hátt tengist
sykursýki á meðgöngu ofþyngd. Sykursýki
af tegund 1 fylgja margvísleg vandamál á
meðgöngu, með hærri burðarmálsdauða og
margvíslegum nýburavandamálum (5).
Sykursýki af tegund 2 og meðgöngusykursýki
eru vægari sjúkdómar og þar er algengasta
nýburavandamálið ofvöxtur fósturs
(macrosomia) og afleiðingar þess.
Mismunandi form sykursýki
Þegar fjallað er um sykursýki á meðgöngu er
gerður skýr greinarmunur á þeim hópi kvenna
sem hefur sykursýki fyrir meðgöngu, oftast
tegund 1, og þeirra sem fá sykursýki á
meðgöngu, oftast á seinni hluta
meðgöngunnar.
Sykursýki tegund 1, insúlínháð. Þetta er
sykursýki sem kemur oftast fram á yngri árum,
er insúlínháð, og þarf einstaklingurinn að
sprauta sig oft á dag til að ná viðunandi
sykurstjórnun. Beta-frumur briskirtilsins,
sem undir eðlilegum kringumstæðum
framleiða insúlín, eru orðnar óvirkar og lítið
sem ekkert insúlín er til staðar. Helsta
kenningin um orsakir skemmd beta-frumanna
er að unt sjálfsofnæmissjúkdóm sé að ræða
(autoimmune) og að til dæmis veirusýking
eða efni í matvælum setji af stað ferli sem
eyðileggur beta-frumurnar. Mótefni gegn
eigin frumum leiða smám saman til
frumuskemmda. Hver svo sem orsökin er,
þá er lítið sem ekkert insúlín til staðar í
líkamanum og nauðsynlegt er að sprauta sig
reglulega með insúlíni til að halda blóðsykri
í skefjum.
Sykursýki tegund 2, insúlínóháð. Hér er
einstaklingurinn með beta-frumur í briskirtli
sem framleiða insúlín í mismiklum mæli, en
vegna álags anna þær ekki framleiðslu. Álagið
getur verið meðganga eða ofþyngd
einstaklingsins, svo dæmi séu tekin. Hér spila
líka inn erfðaþættir sem hafa áhrif á hve vel
einstaklingurinn þolir álag. Einnig er næmi
vefja fyrir insúlíni minnkað þannig að insúlínið
sem er til staðar nýtist illa. Hér eru gjarnan
notuð sykursýkilyf í töfluformi sem ýmist
hvetja briskirtilinn til frekari framleiðslu
insúlíns eða auka næmi fruma fyrir insúlíni.
Margt bendir til að meðgöngusykursýki sé
angi af sama meiði og sykursýki af tegund 2,
enda fá 50% kvenna með meðgöngusykursýki
sykursýki af tegund 2 síðar á ævinni (6).
Tafla 1.
—
Ljósmæðrablaðið o -j
apríl 2002 ^