Freyr - 15.07.1978, Blaðsíða 16
enginn Grímsi. Hún fór aftur fram í fjósið
og fram eftir fóðurganginum. Þá sá hún
bóhdanefnuna. Þarna kraup hann á einum
af sínum heittelskuðu heyböggum og —
eða hvað? Valgerður hljóp nokkur síðustu
skrefin til hans og þreif í öxl honum. Þá
kom hreyfing á bónda, það fór þó aldrei
svo. En þessi hreyfing var samt nokkuð
óvenjuleg og kom líka öldungis flatt upp á
hana. Grímsi sneri sér við um hálfhring,
hægt og mjúklega, og leit framan í konu
sína.
Valgerður var að allra dómi kona kjark-
mikil í besta lagi, það hafði hún oft sýnt
og sannað. Nú brá henni þó, þessari sterku
og æðrulausu manneskju. Andlitið, sem á
hana horfði, var ekkert augnayndi á að líta.
Ásgrímur Jónsson hafði aldrei verið talinn
í hópi fríðleiksmanna, jafnvel ekki þegar
hann var uppábiiinn í skyrtu og með gula
hálsbindið, sem hann hafði svo mikið dá-
læti á. Nú var hann bara í gömlu tóftar-
peysunni sinni, sauðmórauðri á litinn —
og hálsbindið, já, það var hálsbindið, sem
Valgerður starði á með undrun og skelfingu
í svip.
Það var blátt á litinn, fagurblátt, og hékk
ofan úr bitanum, sem þarna lá þvert yfir
fóðurganginn. Neðri hluti lykkjunnar lá
niður fyrir kverk Grímsa og upp með
höfðinu aftan við eyrun. Spottinn sást ekki
vel, hann var sokkinn djúpt upp undir
hökuna og falinn í hnakkahári mannsins.
Valgerður horfðist ekki lengi á við bónda
sinn, enda var hann ekki kyrr sjálfur, held-
ur snerist hann sitt á hvað, til hægri og
vinstri, hægt og taktfast, eins og hann væri
að hugsa um að setjast á heybaggann, en
kæmi sér ekki til þess.
Valgerði féllust ekki hendur, ekki lengi.
Hún áttaði sig strax og skildi, hvað gerst
hafði. Fyrir hugskotssjónir hennar flaug
hin gamalkunna mynd af Grímsa, kjagandi
fram fóðurganginn með bagga framan á
maganum, teygjandi fram höfuðið á sinn
sérkennilega hátt. Alltaf var hann að reka
tærnar í eitthvað, sém hann hafði skilið
eítir á ganginum, kústa, reku eða þá eina
bandaviðjuna, sem dottið hafði úr glugga
eða af nagla uppi á vegg. Allt varð honum
að fótakefli.
En ekkert fékkst Grímsi um það, alltaf
var hann jafn hreykinn, þegar hann var
kominn á leiðarenda og gat varpað frá sér
bagganum, dregið upp hnífinn og sprett
böndunum með fagmannlegri handsveiflu.
Þetta flaug í huga Valgerðar, um leið og
hún gekk aftur að hangandi manninum,
einbeitt á svip, stjakaði bagganum frá og
sparkaði frá sér kústskaftinu, sem í þetta
sxipti hafði orðið bóndanum að falli.
Síðan lagði hún hendur á líkið. Hún fann
fljótt það, sem hún leitaði að. Hún stakk
hendinni niður í buxnavasa mannsins, dró
upp hnífkutann, opnaði hann með tönnun-
um og mælti u.pphátt og allt að því sigri
hrósandi, þótt hún væri alein í fjósinu og
enginn til að hiýða á nema skilningsvana
beljurnar: „Hníflaus er líflaus," sagði hún
hárri röddu. „Já, hníflaus er svo sannarlega
líflaus.“ Um leið bar hún eggjárnið að bláu,
harðstrengdu bindigarninu, sem bóndi
hennar og lífsförunautur hafði smeygt
höfðinu í svo laglega í fallinu. Þráðurinn
hrökk sundur með háum smelli, og konan
mælti við sjálfa sig og kýrnar, um leið og
máttlaus líkami mannsins féll saman að
fótum hennar: „Það er sjaldan bagi að
bandi, það er þó bæði víst og satt.“
Síðan snerist hún á hæli og gekk föstum
skrefum heim til bæjar og hringdi í hrepp-
stjórann og héraðslækninn.
Nokkrum vikum síðar gat að líta eftir-
farandi auglýsíngu í einu landsmálablað-
inu:
„Ekkju á góðri bújörð í ... .sýslu vantar
einhleypan starískraft frá næstu áramót-
um. Æskilegur aldur um 30 ár.
Á sama stað er til sölu tveggja ára
PLAGA-heybindivél. Fæst með góðum
kjörum, ef tekin er fljótt og greidd út í
hönd. Tíu rúllur af bindigarni fylgja.“
474
F R E Y R