Litli Bergþór - 01.06.1993, Page 10

Litli Bergþór - 01.06.1993, Page 10
Skyggnst um á Kjalvegi Þriðji hluti eftir Tómas Tómasson í Kerlingarfjöll. Viö höldum til baka sömu leið og við komum að vegamótum, þar sem leiðin liggur í Kerlingarfjöll. Fljótlega komum við að tærum fallegum bergvatnslæk, sem Fossrófulækur heitir. Með honum eru grasigrónir hvammar. Þar voru lengi fjárverðir frá Sauðfjárveikvörnum. Nú er farið upp allbratta melöldu og liggur leiðin í námunda við Jökulfallið, þar sem það fara að falla í djúpum gljúfrum. Þar myndast á einum stað foss, sem Gýgjarfoss heitir. Útí Jökulfallið rennur bergvatnskvísl, sem við förum yfir. Flún heitir Blákvísl. Með henni er gaman að fara. Þar eru ýmist gljúfur eða grasgrónir hvammar. En það er ekki okkar leið. Þegar við komum yfir Blákvíslina förum við meðfram grasbrekku, sem sýnir okkur fjölbreyttan gróður, gróskumikið blágresi eins og í byggð væri. Við förum austur yfir Jökulfallið á brú, sem byggð er yfir djúpt gljúfur, og upp með kvíslinni að austan. Brátt komum við að óbrúaðri kvísl, Árskarðsá. Hún getur vaxið talsvert í leysingum. Þegar við komum yfir hana má segja að fyrstu brekkurnar uppí fjöllin byrji, og þegar við komum upp úr þessari brekku erum við komin í það sem heitir Árskarð. Þar hefur skíðaskólinn sitt aðsetur, miklar byggingar og aðrar framkvæmdir. Þarna erhreinlætisaðstaða fyrir ferðafólk og önnur fyrirgreiðsla. Áhugi var hjá ferðafélögunum að komast eitthvað hærra í fjöllin, því ökufær braut er hátt hér upp. Við höfðum öruggan bíl og bílstjóra svo að ekkert var að óttast og komumst við á efstu slóðir þar sem fólk var að bruna sér á snjófönnum. Enginn sá eftir að hafa lagt á brattann, sennilega aldrei komist eins hátt í landið. / A fornum ferðaleiðum. Það er farið að halla degi, þegar við höldum á leið til baka. Þegar við komum suður fyrir Innri-Skútann langar mig að staldra aðeins við. Mér finnst ég vera staddur hér á krossgötum hvað varðar leiðir ferðamanna fyrr á öldum. Leið Eyfirðinga, Vatnahjallaleið, lá fyrir austan Kjalhraun og jafnvel úr austurhluta Skagafjarðar. Fyrsta graslendi sem þeir koma í er Svartárbotnar og Gránunes. Síðan er haldið niður með Svartá, niður í það sem heita Svartárbugar. Það er graslendi nokkurt vestan við Svartána nokkurn vegin til móti því sem við erum stödd. Síðan kom gamli Kjalvegurinn ofan úr Kjalfelli til móts við þessa leið. Þeir komu saman hér í Svartárbugum. Samfelldur gróður hefur verið með Svartá og leið legið með henni. Það má þó geta þess að sumir lögðu leið sína niður Hreppamannaafrétt og fóru þá gjarnan hér fyrir austan Jökulfallið. Þá eru komnar þær krossgötur, sem ég minntist á. Enn aðrir hafa líka farið niður í Ábótaver og þar austur yfir Jökulfallið. Flestar þessar ferðir hafa verið farnar að sumarlagi, þegar komnir voru sæmilegir hagar fyrir hesta, en það eru líka dæmi þess að menn lentu í erfiðleikum þegar komið var haust og tvísýnt hvernig fara myndi. Ég hef aðeins minnst á ferð Reynistaðabræðra og ætla ekki að rifja það frekar upp. Mig langar aðeins til að minnast á aðra ferð og þá byrja á því að biðja ykkur að koma með mér í huganum hérna vestur að Svartánni. Það er stutt að fara. Við skulum hugsa okkur að komið sé haust, farið að frjósa, ár farnar að stíflast af krapi. Snemma morguns, þegar byrjar að birta af degi eftir kalda og langa nótt, sjáum við í morgunskímunni 3 - 4 menn á vesturbakka árinnar. Þeir virðast vera að stimpast á til að halda á sér hita. Þeir eru búnir að bíða hérna alla nóttina eftir því að krapið í ánni frysi, svo að þeir komist yfir. Hvaða menn eru þarna á ferð og hvert eru þeir að fara? Til að komast að því þurfum við að hverfa aftur til ársins 1755. Þá um haustið þegar komið er fram yfir 20.september eru Skagfirðingar að búa sig til ferðar suður yfir Kjalveg. Um það leyti, sem þeir eru tilbúnir að leggja af stað fer að snjóa. Þeir láta það ekkert á sig fá og halda af stað. Þeir eru með tjöld og annan nauðsynlegan útbúnað. Það heldur áfram að snjóa næstu daga. Sennilega á þriðja degi komast þeir suður að Biskupsþúfu að talið er, en vafi leikur á hvar sú þúfa er á Kjalvegi. Mér þætti sennilegast að það væri hæð nokkur, sem er við svokallaða Seyðisárrétt. Það er nálægt því sem heita Biskupstungur, og er þar haglendi gott og er við þessa ferðamannaleið. Þarna er slegið tjöldum, kominn mikill snjór og leitast við að finn a haga fyrir hesta. Síðan er lagst til svefns. Það heldur áfram að snjóa, og það skiptir einhverjum dægrum sem þeir Litli - Bergþór 10

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.