Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2008, Blaðsíða 89
Heildartekjur ríkissjóðs jukust úr 412 ma.kr. 2006 í 458 ma.kr. 2007, um 11%, en í fjár-
lögum var áætlað að tekjur næmu 376 milljörðum. Tekjur fóru þannig 58 ma.kr. fram úr
aætlun fjárlaga. Skattar á tekjur og hagnað jukust um 23 ma.kr. milli ára, skattar á vöru
og þjónustu um 8 ma.kr. og aðrar tekjur um 15 ma.kr.
A gjaldahlið varð aukningin ekki eins mikil milli ára, enda var beitt aðhaldi í útgjöldum
ríkissjóðs eins og lagt var upp með í fjárlögum. Heildarútgjöld ríkissjóðs 2007 námu 405
ma.kr., borið saman við 351 ma.kr. 2006 og jukust þannig um rúma 54 ma.kr. I fjárlögum
hafði verið áætlað að heildarútgjöld 2007 myndu nema 367 ma.kr. og fóru útgjöld þannig
um 38 ma.kr. fram úr áætlun eða mun minna en tekjur. Helstu orsakir aukningar í
útgjöldum milli ára liggja í heilbrigðismálum, 9 ma.kr., almannatryggingum og velferðar-
málum, 13 ma.kr. og menntamálum, 3 ma.kr.
Sveitarfélög
Rekstur sveitarfélaga hefur snúist mjög til betri vegar og skilað vaxandi tekjuafgangi ár
frá ári undanfarin þrjú ár. Áætlað er að sú þróun haldi áfram. Þessi bati orsakast af því að
tekjur hafa aukist hraðar en sem nemur hagvexti, sérstaklega skatttekjur. Tekjur sveitar-
félaga jukust um 30,8% að raungildi á þremur sl. árum (2004-2007) meðan verg lands-
framleiðsla jókst um 16,5%. Heildartekjur sveitarfélaga eru áætlaðar 174 ma.kr. árið 2007
og jukust um rúma 13 ma.kr. eða 8,1% milli ára. Heildarútgjöld ársins námu 168 ma.kr.
og jukust um tæpa 11 ma.kr. eða 6,9% milli ára. Sveitarfélög fara ekki varhluta af þeirri
hjöðnun eftirspurnar sem framundan er frekar en ríkissjóður.
Hið opinbera
Reikningsskil hins opinbera eru summan af reikningum ríkissjóðs að meðtöldum
almannatryggingum, og sveitarfélaga þar sem innbyrðis viðskipti milli þessara aðila eru
felld niður til að mynda eina samstæðu. Heildartekjur hins opinbera námu 618 ma.kr.
2007 og jukust um 57 ma.kr. frá 2006. Tekjur hins opinbera námu 48,3% af vergri lands-
framleiðslu 2007, litlu hærra hlutfalli en árið áður. Heildarútgjöld 2007 eru áætluð 551
ma.kr. og jukust um 64 ma.kr. milli ára. Útgjöldin 2007 námu 43,1% af vergri landsfram-
leiðslu og jukust úr 41,7% árið áður. Á þremur árum, 2005 til 2007, hefur tekjuafgangur
hins opinbera numið 191 ma.kr. eða um 5,5% af vergri landsframleiðslu að meðaltali
árlega. Mestur varð afgangurinn árin 2006 og 2007 þegar hann nam 6,3% og 5,2% af
vergri landsframleiðslu, sem er með því mesta sem þekkist með þróaðra iðnríkja.
Kerfislæg afkoma
Til að meta hagsveifluleiðrétta tekjuafkomu ríkisfjármála þarf að aðgreina hagsveiflu-
áhrif frá langtímajafnvægi í tekjuafkomu ríkissjóðs. Slík leiðrétting er gerð á grundvelli
mælinga á áhrifum framleiðsluspennu. Samhliða miklum hagvexti á árunum 2005-2007
jókst framleiðslugetan hratt en framleiðsluspennan hefur verið yfir 3% af framleiðslugetu
öll þessi ár. Samhliða mikilli spemru í hagkerfinu jukust tekjur ríkissjóðs mikið og náði
aðhaldsstig ríkisfjármála hámarki árið 2006 þegar hagsveifluleiðréttur afgangur nam
3,9% af landsframleiðslu.
Afkoma á rekstri sveitarfélaga hefur áfram reynst vera jákvæð og er hagsveifluleiðréttur
tekjuafgangur hins opinbera nú áætlaður hafa numið 3,5% af landsframleiðslu árið 2007
samanborið við 4,6% árið 2006, 3% árið 2005, -0,4% árið 2004 og -1,6% árið 2003.
Uppsafnaður hagsveifluleiðréttur afgangur hins opinbera frá upphafi núverandi hag-
vaxtarskeiðs árið 2003 til ársins 2007 er því um 9,1% af árlegri landsframleiðslu. Á sama
tíma fór mæld framleiðsluspenna úr 2,6% slaka árið 2003 í yfir 3,0% af framleiðslugetu
árin 2005-2007.
8 7
Tækniannáll