Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 6
6 Þriðjudagur 8. júní 2004 Upplag: 11.500 eintök Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins að mestu leyti. ISSN 1025-5621 Bændablaðið Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjölmargra annarra er tengjast landbúnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 5.200 en sjötugir og eldri greiða kr. 2.250. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 - Fax: 552 3855 - Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Áskell Þórisson (ábm.) Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason, blaðamaður: Sigurdór Sigurdórsson Netfang blaðsins er bbl@bondi.is Prentun: Prentsmiðja Morgunblaðsins Næstu blöð! júlí 6. júní 22. Frestur til að panta stærri auglýsingar er á hádegi miðvikudag fyrir útkomu. Smá- auglýsingar þurfa að að berast í síðasta lagi fyrir fimmtudag fyrir útkomu. Sædýrasafn í Þorlákshöfn? Bæjarstjórn sveitarfélagsins Ölfuss hefur ritað Davíð Oddssyni forsætisráðherra og ríkisstjórninni bréf og lýst áhuga sínum til þess að koma að uppbyggingu sædýrasafns í Þorlákshöfn í framhaldi af þingsályktunartillögu sem fram kom á Alþingi og samgöngunefnd Alþingis hefur einróma samþykkt stuðning við. Bæjarstjórnin segir að sædýrasafn falli einstaklega vel að ímynd bæjarins og náttúruauðlindum hans, sem felast meðal annars í hreinu vatni og ferskum sjó. Þá vill bæjarstjórn skoða þann möguleika að flytja skipastól og hluta af starfsemi Hafrannsóknarstofnunar til Þorlákshafnar og síðast en ekki síst mætti síðan tengja báta- og vélasafn Þjóðminjasafnsins við þessa starfsemi. /MHH Heilsufar íslenskra bænda rannsakað Heilsufar íslenskra bænda hefur nokkuð verið til umræðu á undanförnum árum í ljósi breyttra búskaparhátta og breyttrar stöðu bænda í þjóðfélaginu. Bændur, sem áður störfuðu yfirleitt eingöngu að búskap, hafa nú oft annað og jafnvel þriðja starf meðfram auk þess sem makar vinna oft að öðru en búskap. Afkoma bænda er að mörgu leyti erfiðari og tekjumöguleikar minni en áður var. Mögulega leiðir þetta til aukinnar streitu og álags, meira en áður þekktist. Nýlega var stofnaður starfshópur til könnunar á heilsufari bænda með þátttöku Kristins Tómassonar, yfirlæknis Vinnueftirlits ríkisins, Gunnars Guðmundssonar, lungnalæknis Landspítala háskólasjúkrahúsi, og Sigurðar Þórs Sigurðarsonar, lungna- og atvinnusjúkdómalæknis við Iowa háskóla í Bandaríkjunum. Frumkvæðið má rekja nokkur ár aftur í tímann til þess að Sólrún Ólafsdóttir, bóndi á Kirkjubæjarklaustri, skrifaði grein í Bændablaðið árið 2001 um að taka þyrfti á þunglyndi meðal bænda og versnandi andlegri heilsu þeirra. Áburðarverksmiðjan hf. ræður forstjóra Stefán Kjærnested hefur verið ráðinn forstjóri Áburðarverksmiðjunnar hf. Stefán hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri en hann var framkvæmdastjóri og meðeigandi Atlantsskipa ehf. frá janúar 1999 til júlí 2003. Áður starfaði Stefán m.a. sem fyrirtækjatengill hjá FBA, fjármálastjóri Ó. Johnsson & Kaaber og markaðsfulltrúi Húsfélags Kringlunnar. Stefán er með B.S. í fjármálafræði frá Boston College og er stúdent frá hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands. Sigurður Þór Sigurðsson, sem gengdi starfi framkvæmdastjóra tímabundið, mun starfa sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Áburðarverksmiðjunnar og dótturfélaga þess. Söngkvöld í Efri-Vík Efnt verður til söngkvölds í Efri- Víkurhlöðunni í Landbroti laugardaginn 12. júní kl. 21. Félagar úr Söngkór Hraungerðisprestakalls fara austur í Skaftafell í árlega vorferð, snæða kvöldverð í Efri-Víkurhlöðunni þar sem síðan verður slegið upp söngkvöldi og eru velkomnir þangað þeir sem vilja syngja með. Organisti kórsins, Eyrún Jónasdóttir, ættuð frá Norðurhjáleigu, verður með í för og gamli organistinn, Ingi Heiðmar Jónsson tekur með söngbækur til kvöldsins. Vilji einhverjir taka þátt í kvöldverðinum, gistingu eða njóta dagsins frekar þar á staðnum, þá eru þeir beðnir að hafa samband við ferðaþjónustuna á staðnum s. 487- 4694, efrivik@simnet.is Bæklingurinn rauk út Samhliða nýrri "auglýsingaherferð" á lambakjöti sem Markaðsráð kindakjöts hefur staðið fyrir á þessu ári var gefinn út vandaður uppskriftabæklingur sem dreift var í verslanir Hagkaups og Nóatúns og gefinn viðskiptavinum. Bæklingurinn hefur fengið mjög góðar viðtökur og fyrsta prentun, 10.000 eintök, kláruðust á tæplega tveimur vikum. Nú hafar verið prentuð 10.000 eintök í viðbót og er viðtökur feiknagóðar. Uppskriftavefurinn www.lambakjot.is hefur einnig fengið góðar viðtökur en þar inni er mikið úrval af uppskriftum á lambakjötsréttum frá öllum heimshornum. Heimsóknir inn á vefinn nema tæplega 540 á viku. Er það von Markaðsráðs að með þessum aðgerðum takist að halda þeirri söluaukningu áfram sem verið hefur frá því þessi verkefni fóru af stað Á lokadögum Alþingis kom fram skýrsla um matvælaverð á Íslandi í samanburði við matarverð í nágrannalöndum okkar. Umræðan í kjölfar birtingar þessarar skýrslu fór vel af stað en tók síðan á sig gamalkunna mynd. Augljóst er að beint samhengi er á milli verðlags og lífskjara í samanburðarlöndunum. Þannig er lágt matarverð þar sem lífskjör eru lakari og atvinnuleysi oft vandamál. Þetta er einföld staðreynd sem vill gleymast. Eins ber að horfa til að skattlagning matvæla hlýtur alltaf að hafa áhrif á matarverð. Ein megin niðurstaðan var einnig að fákeppni í matvöruverslun getur orsakað hátt verðlag. Þegar einn af forsvarsmönnum verslunar var í morgunþætti Rásar 2 á dögunum taldi hann að slíkt væri algjör firra því stærðarhagkvæmni í matvöruverslun hlyti að tryggja lægsta verðið. En gerir fákeppni það? Er það eðli fákeppni? Er kannski einokunarverslun trygging fyrir lágu vöruverði? Ættum við kannski að skoða lítilsháttar reynslu bænda af því að lækka verð á vörum sínum? Hvernig stendur á því að stórfelld lækkun á t.d. nautakjöti til bænda kemur ekki fram í smásöluverði til neytenda? Ekki eru kjötvinnslur og sláturleyfishafar að maka krókinn, í það minnsta kemur það ekki fram í afkomutölum þeirra. Það dugar ekki að bændur, sem á undanförnum árum hafa gefið stórkostlega eftir í verðlagi á búvöru, geti sætt sig við að sú lækkun skili sér ekki til neytenda. Hvernig stendur á að samtök neytenda beina ekki sjónum sínum að þessum staðreyndum? Bændasamtökin geta lagt fram upplýsingar sem sýna fram á hve mikið afurðaverð hefur lækkað á undanförnum árum. Innkoma verkalýðshreyfingarinnar í þessa umræðu var á margan hátt skynsamleg, enda skynjar hreyfingin mikilvægi þess að viðhalda þessari mikilvægu atvinnugrein í landinu. Lætur nú nærri að þær fjölskyldur sem t.d. hafa afkomu sína tengda úrvinnslu og þjónustu við mjólkuriðnaðinn séu ámóta margar og þær bændafjölskyldur sem hafa afkomu sína af frumframleiðslunni. Bændasamtökin bera virðingu, og styðja, baráttu launþegahreyfingarinnar í málefnum erlends verkafólks sem hingað kemur. Heilshugar er hægt að taka undir og vara við að gefinn sé afsláttur á félagslegum réttindum og launum þessa fólks. Það er vart hægt að ímynda sér hverjar afleiðingar þess væru ef hingað streymdi verkafólk frá þeim þjóðum sem búa við atvinnuleysi og kröpp kjör. Að notfæra sér neyð þessa fólks er alvarlegur hlutur. Oft á tíðum eru samt þessar sömu launþegahreyfingar að krefjast innflutnings búvara sem eru framleiddar við slíkar aðstæður. Er kannski næsta skref að herða að kjörum þess fólks sem vinnur við úrvinnsluna til að geta lækkað verð á búvörum? Þetta er óviðeigandi spurning en er rökrétt því þess er krafist. Í upphafi þessa pistils nefndi ég að umræðan hefði fljótlega farið inn á gamalkunnar slóðir en hún endurspeglast í því að allt sé þetta íslenska landbúnaðinum að kenna. Hvernig í ósköpunum getur atvinnugrein með 6,8% af útgjöldum heimilanna borið ábyrgð að háu verðlagi á Íslandi? Sérstaklega í ljósi þess sem á undan er rakið hve mikið búvöruverð til bænda hefur lækkað. Bændur gera nú þá kröfu að leitað verði nýrra svara við þessum spurningum. Það gengur ekki að kenna okkur um hátt matarverð. Af hverju er ekki leitað að alvöru svörum? Bændasamtökin eru óhrædd að taka þessa umræðu. Bændafjölskyldur þessa lands finna það ekki á sínum fjárhag að þær séu að okra á vinnu sinni. Á það hefur líka verið bent að margir af efnuðustu mönnum þessa lands grundvalli auð sinn á að hafa verslað með matvörur, og þá líka íslenskar matvörur. /H.Ben. Leiðarinn Matarverðsumræðan

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.