Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 12
12 Þriðjudagur 8. júní 2004 Brotið var blað í menntunarsögu Hvanneyrar þegar skólanum var slitið en nú brautskráðust fyrstu nemendur sem stundað hafa nám á umhverfiskipulagsbraut og fyrstu nemendur úr kandidatsnámi eftir nýrri skipan skólans. Þetta kom fram í skólaslitaræðu Magnúsar B. Jónssonar rektors. Nú eru fjórar háskólanámsbrautir í boði. "Í kjölfar þess að skólinn var formlega gerður að háskóla óttuðust margir að starfsmenntanámið myndi smám sama dragast saman. Það hefur ekki orðið raunin. Aðsókn að bændadeildinni hefur ekki dregist saman nema síður sé og nemendur sem þaðan brautskrást fara í meira mæli í búskap en gerðist hér áður fyrr og við verðum ekki vör við annað en að námið standi á traustum grunni," sagði Magnús. Rektor sagði viðfangsefni landbúnaðarins margbrotnara og kröfurnar um sérhæfingu og rekstrarhagkvæmni væri sífellt að vaxa. "Nú hefur verið ákveðið að gera nokkra endurskoðun á bændadeildarnáminu með það að leiðarljósi að efla og styrkja bændur framtíðarinnar til að takast á við þau tækifæri sem þar bjóðast. Breytingarnar eru í raun að mestu skipulagsbreytingar en fela þó í sér breyttar áherslur á nokkrum sviðum. Það verður unnt að ná meiri sérhæfingu, það verður meiri áhersla á rekstrargreinar og námsdvölin verður færð til þannig að tryggara verði að allir nemendur kynnist fjölþættari verkefnum en með núverandi kerfi. Vinna við þessa endurskipulagningu er hafin og við áformum að innrita nemendur næsta haust eftir nýju skipulagi." Magnús ræddi fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á Hvanneyri - sem Bændablaðið hefur greint frá og Alþingi samþykkti á dögunum - og sagði afl sameinaðrar stofnunar á sviði rannsókna aukast að miklum mun. Sameiningin muni þó taka nokkurn tíma og verða um margt viðkvæm fyrir starfsfólk stofnananna. Í ávarpi til nýútskrifaðra nemanda sagði Magnús B. Jónsson að þeir hefðu valið sér göfugan starfsvettvang. "Landbúnaðurinn í víðasta skilningi þess orðs er samtvinnaður frumþörfum alls mannkyns og verður því ávallt að vera í hásæti þegar fjallað er um komandi kynslóðir. Það er því óhjákvæmilegt að þið munið verða í forystusveit framtíðarinnar. Færni og þekking á landbúnaði er því ein af frumforsendum þess að samfélög framtíðarinnar reki ekki upp á sker. Það stendur ekki öllum til boða að mennta sig á sínu áhugasviði og því er það skylda okkar að nýta menntunina til góðra verka fyrir samfélagið og mannkynið allt. Í því ljósi hafið þið skyldum að gegna í eigin landi og á alþjóðlegum vettvangi bæði sem fagfólk og einstaklingar," sagði rektor og óskaði nemendunum til hamingju með daginn. Brotið blað í menntunarsögu Hvanneyrar "Ég yfirgef Hvanneyri með söknuði og gleði. Þetta hefur verið afar skemmtilegur tími," sagði Sigríður Ólafsdóttir í stuttu spjalli við Bændablaðið. Sigríður hefur verið tvö ár á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðingur. Aðspurð sagði Sigríður að nú hefði hún í hyggju að taka sér árs frí og vera heima í Víðidalstungu. "En ég stefni á meira nám og það getur vel verið að ég komi hingað á ný og þá í háskóladeildina í búvísindin." Hvað er það sem námið gaf Sigríði? "Það má ef til vill segja að nú hafi maður þekkingu - til þess að leita sér frekari þekkingar. Ég get mælt með þessu námi fyrir þá sem hafa áhuga á búskap og skepnum almennt. Aðstaðan er ágæt. Á næsta ári verður bændadeildarnem um boðið upp á að vera á nemenda- görðunum og hér er líka mjög fín heimavist. Það stendur fyrir dyrum að breyta skipulagi náms í bændadeild og ég er mjög sátt við tillögurnar." "Já, þetta hefur gengið ágætlega," sagði Oddný Steina Valsdóttir þegar Bænda- blaðið hitti hana á Hvanneyri eftir skólaslit. "Ég ætla að koma hingað aftur í haust og klára fjórða árið enda er gott að vera á Hvanneyri. Hér er gott samfélag og góður andi í skólanum. Það fer ekki hjá því að maður kynnist fólki alls staðar að af landinu" sagði Oddný Steina. Eins og kunnugt er hefur LBH lagt æ meiri áherslu á nám í umhverfis- fræðum. Oddný Steina sagði að þetta væri jákvæð þróun því það nám stundaði oft fólk sem hefði ekki jafn mikil tengsl við landbúnaðinn og þeir sem væru á öðrum brautum í LBH. Það væri hollt fyrir þessa hópa að hittast og skiptast á skoðunum. "Framtíð Hvanneyrar er björt," sagði Oddný Steina. "Það er ekki spurning." Föstudaginn 28. maí var brautskráning nemenda frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri með hátíðlegri og fjölmennri athöfn í Reykholtskirkju. Við þetta tækifæri voru í fyrsta sinn útskrifaðir nemendur með 90 eininga BS-próf af umhverfisskipulagsbraut en hún hefur verið starfrækt við skólann síðan haustið 2001. Að þessu sinni brautskráðust alls fjórtán nemendur með 90 eininga BS-próf og þrír með 120 einingar. Alls útskrifuðust 17 nemendur á háskólastigi og 29 úr bændadeild, þar af 7 sem stundað hafa fjarnám við skólann. Sex nemendur brautskráðust af búvísindabraut, fjórir af landnýtingarbraut og fjórir af umhverfisskipulagsbraut. Hæstu einkunn þeirra sem tóku 120 eininga próf hlaut Hallfríður Ósk Ólafsdóttir, en hún var með einkunnina 8,24. Af þeim sem tóku 90 eininga BS-próf var Oddný Steina Valsdóttir hæst með 8,40 í einkunn. Hæstu einkunnargjöf fyrir BS-ritgerð hlutu að þessu sinni tveir nemendur sem voru nákvæmlega jafnháir með 9,0. Það voru þau Lena Johanna Reiher og Borgar Páll Bragason. Hæstu einkunn á búfræðiprófi hlaut Sigríður Ólafsdóttir en hún hlaut einkunnina 9,02. Þetta er í annað sinn sem nemendur útskrifast eftir að hafa stundað allt sitt háskólanám við LBH eftir að skólinn var formlega gerður að háskóla með lögum árið 1999. Við skólann er nú boðið upp á nám á fjórum sviðum auk búnaðarnámsins, þ.e. í búvísindum, landnýtingu, umhverfisskipulagi og skógrækt. Álfheiður Marinósdóttir, kennslustjóri LBH afhendir nemendum Handbók bænda - sem Íslandsbanki færði nemendum að gjöf. Sigríður Ólafsdóttir frá Víðidalstungu varð búfræðingur. Oddný Steina Valsdóttir lauk námi á búvísindabraut (BS 90). Í sumar hefur hún í hyggju að vinna hjá Búnaðarsambandi Austurlands á Egilsstöðum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.