Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 24
24 Þriðjudagur 8. júní 2004
Forkæling á mjólk úr mjaltakerfum er
ótvírætt afar mikils virði og bætir stórlega
meðhöndlun mjólkur sér í lagi hvað varðar
líftöluinnihald (heildargerlatölu).
Um er að ræða s.k.vatnsforkæla, oftast
plötukæla, þ.e. sírennsli á köldu vatni er
gegnum aðra hlið forkælisins á móti
mjólkinni hins vegar á leið hennar frá
mjólkurskila / mjólkurdælu að mjólkurtanki.
Það fer svo eftir hitastigi kalda vatnsins,
rennslismagni gegnum forkælinn, magni og
dælingarhraða mjólkurinnar hve lágt niður
tekst að kæla mjólkina áður en hún að lokum
hafnar í mjólkurtanknum.
Enn fremur hefur gerð mjaltakerfisins
lítillega áhrif, þ.e. hve langt mjólkin rennur
eftir mjaltakerfinu.
Algengt er að byrjunarhitastig mjólkur í
mjólkurtank sé á bilinu 28 - 30°C í ófor-
kældri mjólk, kólnar eðlilega nokkuð í ferli
sínu frá kú að mjólkurtanki ( u.þ.b. 38°C úr
kúnni) en við góða forkælingu er ekki fjarri
lagi að hitastigið sé komið niður í 8-12°C
áður en mjólkurtankurinn fer að kæla niður.
Þannig sést hve ótrúlegt gagn er að
vatnskælingunni sem kostar nánast ekkert í
daglegum rekstri.
Það eina sem kemur í veg fyrir góðan
árangur af forkælingu er ef lítið magn af
köldu vatni er nú þegar vandamál á
viðkomandi bæjum en við slíkar aðstæður er
gagnslaust að setja upp vatnsforkæli því ljóst
er að á mjaltatíma, þar sem tregt er um vatn,
er ekkert aflögu til forkælingar sér í lagi
þegar kýrnar eru í óða önn að drekka.
Það þarf auðvitað að vera nægt vatn hvort
sem forkæling er eða ekki því mjólkurkýr
sem ekki fá nægt rennsli vatns í drykkjardalla
líða fyrir vatnsleysi og mjólka minna.
Helstu kostir forkælingar eru að það
sparast mikið rafmagn, vinnslutími
kælivélbúnaðar mjólkurtanksins er að
meðaltali þrisvar sinnum styttri með þ.a.l.
mun lengri endingu búnaðarins og minni
bilanatíðni.
Hvað varðar síðan meðhöndlun
mjólkurinnar er margt unnið til góðs við
forkælingu, þ.e. líftala er að staðaldri lægri
vegna þess að við lægra hitastig dregur úr
tvöföldunaráhrifum líftölu, mjólkin er síður í
hættu ef gleymist að kveikja á tanki eða
kælibúnaður bilar, mjólkin verður fyrir
minna áreiti en þegar heitri mjólk er dælt
saman við kalda í mjólkurtanknum.
Ferli mjólkur gegnum forkælinn er að
langmestu leyti skaðlaus ef forkælirinn er
eðlilega hertur saman og plötur kælisins
óskemmdar og í eðlilegri rýmd.
Segja má því með sanni að plötuforkælir
sé algjör sparibaukur mjólkurframleiðenda
og ótrúlega fljótur að borga sig upp og eins
og áður sagði eykur einnig á gæði mjólkur og
öryggi kælingar sem er afar mikils virði.
Það er því eindregin skoðun undirritaðs
að allir sem hafa nægt kalt vatn ættu nú þegar
að kaupa vatnsforkæli og einnig þeir sem eru
með elstu tegund þessara plötuforkæla,
(gömlu, þunnu, grænu Alfa kælana) því þeir
eru afar afkastalitlir og erfiðir í dælingu.
Þá má ekki gleyma því að við forkælingu
verður dælingarhitastig mjólkur í tankbílinn
örugglega innan eðlilegra marka þar sem
tekin er mjólk fljótt eftir mjaltir.
Auðvelt er að setja þessa forkæla upp og
viðhald þeirra er ekkert fyrstu 8-10 árin og
lítið eftir það, helst að pakkningar gefi sig
eða losni í kælum eftir 15-20 ár ef þeir eru
teknir of oft í sundur.
Þvottur þeirra með mjaltakerfinu er
nánast alls staðar ágætur, þ.e. ekki hefur
borið á vandamálum vegna þrifa þar sem á
annað borð er nægilega gott þvottakerfi fyrir
mjaltakerfið og sápuvatnshiti nægur.
Þörf er hins vegar á að þvo með síu í svo
hár og strá stoppi ekki í forkælinum og safni
utan á sig óhreinindum.
Einnig þarf að muna að skrúfa fyrir kalda
vatnið inn á forkælinn þegar mjöltum er
lokið og þvottur mjaltakerfisins hefst því
annars kælir forkælirinn þvottavatnið eins og
skiljanlegt er.
Verð 30 plötu plötuforkæla þann 17.5
2004 var sem hér segir hjá tveimur
söluaðilum: Remfló á Selfossi (M.B.F) 30
plötu kælir frá SAC kr. 56.424 án vsk og
70.249 m.vsk.
Aftöppunarstútur er á mjólkurgangi.
Vélaver, Reykjavík 30 plötu kælir frá
De-laval kr. 73.000 án vsk og 90.885 m.vsk.
Með ósk um gott heyskaparsumar,
Kristján Gunnarsson
mjólkureftirlitsmaður, Norðurmjólk
Forkæling mjólkur
Samkvæmt fundargerð síðasta
fundar fagráðs í nautgriparækt, sem
haldinn var þann 19. maí síðast-
liðinn, kemur fram að ákveðið var að
veita LBH viðbótarframlag vegna
nýs fjóss á Hvanneyri að upphæð 2,8
milljónir króna en sótt var um 8
milljónir af þróunarfé nautgripa-
ræktar hjá Framleiðnisjóði. Ástæða
umsóknarinnar er sögð sú að
ákveðið hafi verið að stækka fjósið
frá því sem áður var miðað við en
fagráðið var áður búið að samþykkja
25 milljóna króna framlag vegna
byggingarinnar. Greinilega kemur
fram í fundargerðinni að fagráðs-
menn eru ósáttir við hvernig málið
ber að en eigi að síður er ákveðið að
styrkja þetta verkefni sem nemur
ofangreindri upphæð. Það virðist
sem sé vera hægt að koma með
umsókn til fagráðs sem snertir ekki
"rannsóknir" heldur rannsóknaað-
stöðu löngu eftir að búið er ljúka af-
greiðslu viðkomandi máls hjá fag-
ráði og fá jákvæða afgreiðslu.
Á sama fundi er synjað umsókn
um styrk til kaupa á tækjabúnaði
vegna heilfóðrunar á tilraunabúinu á
St-Ármóti. Ástæðan er sú sam-
kvæmt fundargerðinni: "... er það
skoðun fagráðsins að þróunarfé eigi
ekki að nýta til fjárfestinga í tækja-
búnaði og í ljósi þess getur fagráðið
ekki mælt með að umræddur styrkur
sé veittur". Bíðum nú við, hvað var
fagráðið að ákveða í viðbótar-
umsókn frá LBH á sama fundi. Var
það ekki styrkur vegna steinsteypu
og búnaðar? Og það til viðbótar 25
milljónum sem áður voru veittar!
Hvar er samræmið í orðum og
gerðum fagráðs í nautgriparækt?
Annað sem kemur upp í hugann
varðandi afgreiðslu og ákvarðanir
fagráðs í nautgriparækt er hæfi
einstakra fulltrúa. Í fagráði sitja þrír
fulltrúar kúabænda og tveir fulltrúar
frá BÍ, síðan eru boðaðir ákveðnir
"stuðningsfulltrúar" einstakra
annarra stofnana sem virðast sitja
fundi fagráðs, ekki með kosningarétt
en sem tillöguaðilar. Getur það sam-
ræmst góðri stjórnsýslu að fulltrúar
sem sitja fundi fagráðs sem fulltrúar
ákveðinna stofnana séu viðstaddir og
taki nánast þátt í tillögum til
afgreiðslu til sinna eigin stofnana?
Runólfur Sigursveinsson
Fagráð í nautgriparækt
Samræmi í orðum og gerðum
Möðrudalur á Fjöllum er sá bær
á Íslandi sem stendur einna hæst
yfir sjó en er nú ekki lengur í
þjóðbraut eins og hann hefur verið
frá landnámi. Þar hafa engu að
síður verið talsverðar byggingar-
framkvæmdir undanfarin ár. Þær
hófust sumarið 2002 þegar
byggður var burstabær með
ferðaþjónustu í huga. Í sumar
voru byggð ný fjárhús yfir 300 fjár
sem raunar kom til af því að eldri
fjárhúsin urðu ónýt í eldi sl. vor. Í
haust hófust svo framkvæmdir við
nýtt þjónustuhús fyrir ferðamenn
sem væntanlega verður tekið í
notkun í vor og mun það leysa af
hólmi gamla Fjallakaffi þar sem
fjölmargir ferðamenn hafa
staldrað við á undanförnum
árum.Tíðindamaður blaðsins sló á
þráðinn til Vilhjálms Vernharðs-
sonar, smiðs og
ferðaþjónustubónda í Möðrudal, á
dögunum.
,,Við byrjuðum að selja gistingu
hérna sumarið 2000. Tókum neðri
hæðina í íbúðarhúsinu undir þetta og
gátum boðið gistingu í rúmum fyrir
10 manns. Mér fannst góð við-
brögð við þessari þjónustu og fannst
því ástæða til að bæta við gistirýmið.
Vorið 2002 ákvað ég að ráðast í að
byggja nýtt hús og niðurstaðan varð
að byggja burstabæ. Þetta er allt úr
torfi að utanverðu, bæði veggir og
þak, en uppistaðan er að sjálfsögðu
trégrind og að innan er húsið allt
klætt með panel svona eins og gömlu
baðstofurnar voru. Í þessu eru alls
rúm fyrir 14 manns en hluti af því er
á svefnlofti sem er yfir öllu húsinu.
Ég náði að taka helminginn af húsinu
í notkun þarna um sumarið og var
síðan með það allt í notkun í sumar.
Útlendingarnir eru voða hrifnir af
þessu og kalla þetta grashúsið.
Óneitanlega verður þetta til-
komumikið þegar grasið bylgjast í
golunni þegar líður á sumarið því
það sprettur vel á þakinu."
Nýtt Fjallakaffi
Eins og mörgum er kunnugt
hefur verið starfrækt greiðasala undir
nafninu Fjallakaffi í Möðrudal um
árabil. Vilhjálmur tók við þeim
rekstri vorið 2002 af Ástu Sigurðar-
dóttur, húsfreyju á Skjöldólfsstöðum.
Í haust var gamla timburhúsið
flutt í burtu og byrjað á nýrri
byggingu þannig að í vor munu
gestir í Möðrudal koma í nýtt Fjalla-
kaffi. Það verður í sama stíl og
burstabærinn, torf að utan og
panelklætt innan. Þetta hús rís á
grunni þess gamla og er 110
fermetrar að grunnfleti. Í þessu nýja
húsi verður talsvert stór matsalur
sem mun rúma um 40 manns í sæti.
Vilhjálmur segir að ætlunin sé að
geta tekið hópa í mat og kaffi því
talsverð eftirspurn sé eftir þeirri
þjónustu, minni eftir svokölluðum
sjoppuvarningi. Eins og kunnugt er
var nýr vegur um fjöllin, svoköllluð
Háreksstaðaleið, tekinn í notkun fyrir
nokkrum árum á þessum slóðum og
eftir það liggur þjóðvegur 1 ekki
lengur um hlaðið í Möðrudal. Vil-
hjálmur segir að við þetta hafi
umferðin breyst talsvert. Nú sé miklu
meira um að rútur með erlenda
ferðamenn komi í Möðrudal og vilji
þjónustu og jafnvel gistingu. Hins
vegar sé minna um íslenska
ferðamenn, þeir séu í rauninni bara á
ferðinni í 2-3 vikur yfir hásumarið.
Svo má ekki gleyma umferðinni
vegna virkjunarframkvæmdanna á
Austurlandi en hluti af henni yfir
sumartímann fer um gamla veginn
framhjá Möðrudal. /ÖÞ
Útlendingarnir
hrifnir af
„grashúsinu“
Gisting
Í Svalbarðsskóla í Þistilfirði er boðið upp á gistingu og
veitingar. Góð aðstaða fyrir hópa s.s ættarmót.
Veitingarsalur fyrir 80 manns.
Merktar gönguleiðir í nágrenninu m.a. á.Rauðanes og fjallið
Óttar. Vel staðsett til skoðunarferða um Þingeyjarsýslur.
Næsta þéttbýli/sundlaug:Þórshöfn 27 km.
Panta þarf með fyrirvara.
Upplýsingar og pantanir í s. 4681290 fax 4681390
Velkomin í Þistilfjörð
Svalbarðsskóli
Hér má sjá nýja veitingahúsið.