Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 08.06.2004, Blaðsíða 7
Þriðjudagur 8. júní 2004 7 Þegar Davíð Oddsson sagði á dögunum eftir klukkustundar fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að þeir hefðu leikið badminton þegar þeir voru 18 ára og síðan þekkst með hléum, fóru hagyrðingar af stað. Hjálmar Freysteinsson orti: Ágætan þeir áttu fund í eina og hálfa klukkustund, þrættu lengi lon og don um leikreglur í badminton. Á gamals aldri Kristján Bersi orti af sama tilefni: Á æskuskeiði undu tveir við íþrótt sína lon og don. Á gamals aldri eru þeir enn að spila badminton. Þusað lon og don Sigurður Ingólfsson bætti við: Endalaust er þvælt og þráttað, þusað bæði lon og don höfðingjarnir hefðu átt að halda sig við badminton. Ef heimurinn ferst Hjálmar Freysteinsson á síðustu orðin að sinni um þetta fræga fjölmiðlafrumvarp: Menn þrasa út af þessu og hinu í þinginu og sjónvarpinu, en hitt finnst mér verst ef heimurinn ferst út af fjölmiðlafrumvarpinu. Prestarnir þrír Þrír prestar voru í göngutúr um Öskjuhlíðina. Það var mjög heitt og þegar þeir koma að Nauthólsvíkinni ákveða þeir að baða sig aðeins. Þar sem enginn var í víkinni og þeir höfðu ekki komið með nein sundföt ákveða þeir að baða sig naktir. Þar sem þeir eru að spóka sig í sjónum, koma nokkrar stelpur aðvífandi, prestunum til mikillar skelfingar. Þeir ná ekki að komast í fötin í tíma og því ákveða tveir þeirra að reyna að hylja græjurnar, en einn grípur fyrir andlitið á sér. Þegar þeir eru komnir í skjól spyrja þeir þann sem huldi andlitið hvers vegna í ósköpunum hann hefði gert það, en ekki reynt að hylja sitt viðkvæmasta svæði. "Ég veit nú ekki hvernig það er í ykkar söfnuðum," svarar presturinn, "en í mínum er það nú andlitið á manni sem þekkist." Gott að vera ungur Hringur heitinn Jóhannesson listmálari frá Haga í Aðaldal orti einhverju sinni: Nú er bjart um vík og vog vermir sólin rekka Gott er að vera ungur og eiga nóg að drekka. Fjallkóngurinn Spurt var um höfund þessarar vísu á Leir. Veit einhver lesandi Bændablaðsins hver hann er? Fjallkóngur í fjórtán ár flaugst ég á við seggi. Myndugur og mektarhár mölvaði réttarveggi. Mælt af munni fram Umsjón: Sigurdór Sigurdórsson Blómaskreytingar hafa fylgt manninum frá örófi alda - til eru heimildir allt frá tímum Rómverja til okkar daga sem sýna að blómaskreytingar hafi ávallt fylgt mannfólkinu á merkisdögum. Fagmönnum í blómaskreytingum er mikill heiður að fá að taka þátt í stóru stundunum í lífi samborgaranna. En blómaskreytingar eru meira en bara að fylla allt af blómum. Þar kemur til margra ára þekking á réttu handbragði og réttri meðhöndlun blómanna til að tryggja að þau standi sem lengst og best. Má þar t.d. nefna þekkingu á mismunandi stílbrigðum og reglum við samsetningar, skreytingavinnu, form og liti, þekkingu á andstæðum og hlutföllum og fleira. Saga blómaskreytinga á Íslandi er stutt í í skráðum heimildum., Við erum sífellt að taka meiri þátt í öllu því sem er að gerast á erlendri grund og slíkt kallar á þekkingu og skilning okkar á því fagurfræðilega. Nám í blómaskreytingum tekur þrjú ár sem er sambærilegt við það sem gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum og er fyrirmynd okkar sótt þangað. Nemendur sem útskrifast úr Garðyrkjuskóla ríkisins af blómaskreytingabraut hafa góða menntun sem gefur möguleika á fjölbreyttu starfi. En þar sem blómaskreytingar eru listfag þá er það mikið undir hverjum og einum blómaskreyti komið að byggja upp viðskiptamannahóp út frá sínum eigin stíl. Það er eitt að markmiðum námsins að hver og einn útskrifaður blómaskreytir haldi sínum sérkennum og efli sinn eigin stíl. Sumir eru fínlegir í skreytingum en aðrir grófir, sumir eru gamaldags en aðrir nýtískulegir, þannig er það og þannig á það að vera en þó þannig að allir blómaskreytar hafi allar reglurnar réttar og á sínu valdi. Það má líkja blómaskreytingum á Íslandi við hárskeraiðnina en hér á árum áður þótti það ekkert mál að hárklippingar væru stundaðar í heimahúsum. Sá sem átti skæri gat klippt vini og vandamenn. Þessu hefur verið líkt farið í blómaskreytingum, þar sér fagmaðurinn handbragðið - grunnreglur eru þverbrotnar þannig að handverkið verður klúðurslegt og blómin fá ekki að njóta sín sem skyldi jafnvel þó að hráefnið sé það besta sem völ er á. Ekki má gleyma því frábæra hráefni sem íslensk blóm eru, þau ber að meðhöndla af fagmennskuþannig að þau verði okkur öllum til yndis. Við viljum gera allt það besta fyrir ástvini okkar, allt frá fæðingu til hinstu hvíldar. Þá er gott að geta leitað til traustra aðila sem kunna sitt fag og koma fram til aðstoðar á tilfinningastundum í lífinu. Þannig getum við blómaskreytar hjálpað til að gera gleðistundirnar enn fallegri og eftirminnilegri og mildað sorgarstundirnar með fallegum blómum. Júlíana Rannveig Einarsdóttir, fagstjóri á blómaskreytingabraut Garðyrkjuskólans Blóma- Kjallarinn Blómaskreytingar - Lifandi listiðn Íslendingurinn Halldór Gíslason, er yfirmaður landbúnaðarmála í sveitarfélaginu Forsand sem er skammt frá Stavangri. Hann hefur verið í þessu stafi í 3 ár en hafði áður verið ráðunautur á sömu slóðum. Starf hans felur í sér stjórnsýslu á ýmsum málum svo sem landbúnaði, byggðaþróun, umhverfi og friðunarsvæði. Einnig stjórn á veiðum á elg, hjörtum og dádýrum og sölu veiðileyfa í veiðivötn svo eitthvað sé nefnt. Halldór sagði í samtali við Bændablaðið að hinn fagri Lysefjörður liggi í gegnum sveitarfélagið endilangt. Svæðið segir hann vera mjög eftirsótt af ferðamönnum og algengt að stór og glæsileg farþegaskip sigli inn fjörðinn. Nú er í gangi samstarfsverkefni sveitarfélagsins og bænda um uppbyggingu ferðamannasvæða með það fyrir augum að fá tekjur af þeim ferðamönnum sem koma í heimsókn með menningartengdri ferðaþjónustu. ,,Þarna er um að ræða fjörð sem er að fara í eyði en á sér mjög langa sögu. Eins og alls staðar í Noregi þegar búskapur leggst af tekur skógurinn völdin. Við ætlum að verjast skóginum og halda grónu landi og gömlum beitarlöndum við. Þarna er líka mikið af gömlum húsum, allt frá því um 1800, bæði mannabústöðum og útihúsum. Leitað verður leiða til að gera við þau hús sem þarfnast viðgerða og halda húsunum síðan við. Búið er að merkja gönguleið kringum fjörðinn og verið er að úthugsa móttökustaði með gistimöguleikum fyrir ferðamenn. Um 60 bændur koma að þessu uppbyggingarstarfi," sagði Halldór. Hann segir að unnið sé af kappi við að efla heimaúrvinnslu á dilkakjöti þannig að bændur geti selt ferðamönnum heimagerðan norskan mat. Þeir sem vilja taka þátt í þessu fara, að sögn Halldórs, og kynna sér verkið hjá þeim sem eru byrjaðir heimaúrvinnslu. Sömuleiðis fara þeir á ýmis matargerðarnámskeið. Hann kom með hóp norskra bænda til Íslands því hugmyndin er að koma með eitthvað íslenskt inn í framleiðsluna í Noregi. Íslenskt dilkakjöt þykir þar herramanns matur og gamalt fólk man enn þá eftir íslenska saltkjötinu, sem eitt sinn var flutt í tunnum til Noregs, og þótti bera af öðru kjöti. Íslendingur yfirmaður landbúnaðarmála í Forsand í Noregi Íslendingar eiga víða fulltrúa. Hér bendir Halldór á fjörðinn sinn en því verður ekki neitað að það er búsældarlegt á þessum slóðum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.