Fréttablaðið - 09.02.2012, Blaðsíða 18
9. febrúar 2012 FIMMTUDAGUR18
Umsjón: nánar á visir.is
Útgáfufélagið Smugan ehf., sem
á og rekur vefmiðilinn Smugan.
is, tapaði 1,4 milljónum króna á
árinu 2010. Eigið fé félagsins var
neikvætt um 1,1 milljón króna í
lok þess árs. Þetta kemur fram
í ársreikningi Smugunnar fyrir
árið 2010 sem skilað var inn til
Ársreikningaskráar 2. febrúar
síðastliðinn.
Stöðugildi hjá félaginu voru tvö
á umræddu ári og námu launa-
greiðslur vegna þeirra 8,2 millj-
ónum króna. Launagreiðslur
hækkuðu umtalsvert frá árinu
2009 þegar Smugan greiddi 4,6
milljónir króna í laun vegna
tveggja stöðugilda. Launakostn-
aður jókst því um 3,6 milljónir
króna án þess að stöðugildum
væri fjölgað.
Stærsti eigandi Smugunnar er
Vinstrihreyfingin - grænt fram-
boð (VG) með 40,24% eignarhlut.
Þá á Lilja Skaftadóttir 23,81%
hlut en hún er einnig stærsti eig-
andi útgáfufélags DV. Aðrir eig-
endur, sem meðal annars eru
þingmenn og ráðherrar VG, eiga
minna en 5% hlut. - þsj
Útgáfufélag skilar ársreikningi:
Smugan tapaði 1,4
milljónum króna
SMUGAN Steingrímur J. Sigfússon á tæpan 5% hlut í Smugunni. Vinstrihreyfingin - grænt
framboð á rúmlega 40% hlut.
Málsrök þeirra lífeyrissjóða
sem telja sig hafa verið blekkta
til að kaupa víkjandi skuldabréf
í umdeildu skuldabréfaútboði
Glitnis í mars 2008 eru að hluta
til þau sömu og slitastjórn Glitnis
beitti þegar hún stefndi hópi fyrr-
um eigenda, stjórnenda og starfs-
manna Glitnis fyrir dómstóla í
New York. Í tilkynningu vegna
New York-málsóknar sagði að
kjarni hennar hafi verið „útboð
skuldabréfa upp á einn milljarð
dala. Bréfin voru seld í septem-
ber 2007 til fjárfesta í New York,
sem höfðu verið blekktir varðandi
fjárhagslega áhættu Glitnis“. Það
mál var endanlega fellt niður
í byrjun árs. Nú er slitastjórn
Glitnis hins vegar hinum megin
við borðið.
Steinunn Guðbjartsdóttir, for-
maður slitastjórnar Glitnis, segir
ekki hægt að bera þessi útboð
saman. „Það er lítið annað um
þetta mál að segja annað en að við
erum í samningaviðræðum við líf-
eyrissjóðina um uppgjör.“
Hópur lífeyrissjóða hefur
hafið málarekstur vegna þess að
hann telur sig hafa verið blekkt-
an til að kaupa víkjandi skulda-
bréf fyrir 10,7 milljarða króna í
útboði í mars 2008. Samkvæmt
heimildum Fréttablaðsins hafa
lögmenn lífeyrissjóðanna reynt
að knýja fram fyrir dómstólum
að slitastjórn Glitnis verði gert
að leggja fram margvísleg gögn
sem þeir telja líklegt að sýni fram
á að bankinn hafi verið öðruvísi
og mun verr staddur en útboðs-
gögnin sögðu til um. Þeir telja
að eiginfjár- og lausafjárstaða
Glitnis hafi verið mun verri auk
þess sem áhættuskuldbindingar
bankans hefðu verið vanmetnar.
Lögmennirnir munu fara fram á
að dómskvaddir matsmenn meti
hvort útboðsgögnin hafi endur-
speglað raunverulega stöðu bank-
ans. - þsj
Lífeyrissjóðir telja stjórnendur Glitnis hafa blekkt sig og reka mál gegn slitastjórn:
Sömu rök og í New York-stefnu
SLITASTJÓRN Steinunn Guðbjartsdóttir,
formaður slitastjórnar Glitnis, segir
samningsviðræður í gangi við lífeyris-
sjóðina um uppgjör. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
EFNAHAGSMÁL Peningastefnunefnd
Seðlabankans kynnti í gær þá
ákvörðun sína að halda vöxtum
bankans óbreyttum um sinn. Þá
kynnti bankinn uppfærða hagspá
sem er í stórum dráttum svipuð
spá bankans frá því í nóvember.
Ákvörðun peningastefnunefnd-
ar um að halda vöxtum óbreytt-
um virðist hafa komið markaðs-
aðilum á óvart þar sem krafa á
öllum skuldabréfaflokkum lækk-
aði umtalsvert í gær. Væntingar
virðast því hafa verið til þess að
bankinn hækkaði vexti.
Í yfirlýsingu peningastefnu-
nefndarinnar segir að verðbólgu-
horfur til skamms tíma séu í takti
við það sem bankinn hefur gert
ráð fyrir. Þá ítrekaði nefndin að
eftir því sem efnahagsbatanum
vindi fram verði nauðsynlegt að
draga úr slaka peningastefnunnar.
Þó má segja að aðeins breytt-
an tón megi greina í yfirlýsingu
nefndarinnar þar sem segir einn-
ig að batni verðbólguhorfur ekki á
næstunni kunni nafnvaxtahækk-
anir að vera nauðsynlegar.
Þá bendir Seðlabankinn á það
í fyrsta Peningamálahefti ársins,
sem kom út í gær, að hærri verð-
bólga hafi valdið því að raunvext-
ir bankans hafa heldur lækkað frá
því í nóvember og eru um -0,8%.
Í Peningamálum birtir Seðla-
bankinn uppfærða hagspá sína.
Gert er ráð fyrir að hagvöxtur hafi
verið 3,0% á árinu 2011, verði 2,5%
í ár og svipaður á næstu tveimur
árum. Verður aukin fjárfesting
helsti aflvaki hagvaxtar á næstu
misserum en framlag einkaneyslu
þó áfram nokkurt.
Telur bankinn að fjárfesting
hafi aukist um 7% á síðasta ári
en vaxi um heil 18% á þessu ári.
Hefur atvinnuvegafjárfesting þar
mest að segja en því er spáð að
hún aukist um 19% á árinu sem er
nokkru meira en áður var gert ráð
fyrir.
Seðlabankinn metur horfur um
atvinnuleysi svipaðar og í síðustu
hagspá. Áætlað er að það verði
6,3% að meðaltali á þessu ári en
verði komið niður í 4,5% í lok árs
2014.
Nú spáir Seðlabankinn því að
2,5% verðbólgumarkmiði bankans
verði náð snemma árs 2014 sem er
heldur seinna en bankinn gerði ráð
fyrir í nóvember. Skýrist það helst
af því að bankinn spáir gengi krón-
unnar nú veikara á komandi miss-
erum.
Þá telur Seðlabankinn nokkra
óvissu vera um það hve hratt verð-
bólgan hjaðni. Þar ráði óviss geng-
isþróun miklu. Til skamms tíma
telur bankinn hins vegar ljóst að
verðbólga hjaðni smám saman á
þessu ári og að meðalverðbólga
verði 4,6%. Það er 0,5 prósentu-
stigum hærra en bankinn spáði í
nóvember. magnusl@frettabladid.is
Seðlabankinn kom
markaðnum á óvart
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti að vöxtum bankans yrði haldið
óbreyttum um sinn á vaxtaákvörðunarfundi í gær. Víðast hvar hafði verið búist
við vaxtahækkun. Uppfærð hagspá bankans er í stórum dráttum óbreytt.
SEÐLABANKINN Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynntu vaxta-
ákvörðun peningastefnunefndar og uppfærða hagspá bankans í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Í Peningamálum Seðlabankans er vakin athygli á áhrifum þeirra breytinga
sem urðu á fjárlagafrumvarpinu í haust eigi forsenda fjárlaga um launa-
kostnað á árinu 2012 að standast. Er bent á að heildarjöfnuður endanlegra
fjárlaga var þremur milljörðum króna lakari en í upphaflegu frumvarpi. Þar
munar mestu um að launakostnaður var 2,1 milljarði hærri en upphaflega
var stefnt að. Ein forsenda frumvarpsins var að launakostnaður á þessu
ári yrði 2,5% meiri en í fyrra en ef marka má þennan hærri launakostnað
í fjárlögum er ljóst að enn þarf að skera niður vinnumagn hjá opinberum
starfsmönnum eigi þessi forsenda að halda.
Vinnustundum opinberra starfsmanna fækkað?
VAR AUKNING heildarveltu íslenskra Visa
kreditkorta á árinu 2011 miðað við árið 201010,5%
Raungengi íslensku krónunnar
lækkaði um 0,6% á milli desember
og janúar. Seðlabankinn birti tölur
þessa efnis fyrr í vikunni en raun-
gengið hefur lækkað samfellt frá
því í október, um samtals 1,8%.
Raungengi krónunnar er því
enn umtalsvert undir langtíma-
meðaltali sínu. Þannig var á það
bent í Morgunkorni greiningar-
deildar Íslandsbanka að raun-
gengið væri 21% undir meðaltali
áranna 1980 til 2011.
Fjallað var um gengi krónunn-
ar í Peningamálum Seðlabankans
sem birt voru í gær. Þar er bent á
að gengið hefur lækkað um rúm-
lega 2% gagnvart evru og 6,3%
gagnvart Bandaríkjadal frá síð-
ustu hagspá bankans sem var birt
í nóvember.
Telur Seðlabankinn að þessa
miklu lækkun gagnvart Banda-
ríkjadal megi sennilega rekja til
almennrar lækkunar gjaldmiðla
gagnvart Bandaríkjadal vegna
aukins óróleika á alþjóðlegum
fjármálamörkuðum. Þá hafi árs-
tíðabundnir þættir og lakari við-
skiptakjör valdið hluta af lækkun
krónunnar gagnvart öðrum gjald-
miðlum.
Loks segir Seðlabankinn að
ýmislegt bendi til þess að veik-
ingu krónunnar undanfarið megi
að hluta rekja til hlutfallslega
mikilla endurgreiðslna fyrir-
tækja og sveitarfélaga á erlend-
um lánum.
Í uppfærðri hagspá Seðlabank-
ans er því spáð að gengi krón-
unnar haldist tiltölulega stöðugt í
kringum 160 krónur fyrir evru á
næstu misserum. - mþl
Endurgreiðslur erlendra lána hafa veikt krónuna:
Raungengi krónunn-
ar enn mjög lágt
KRÓNUR OG EVRUR
Krónan hefur veikst
um rúm 2% gagnvart
evru frá því í október.
Þá hefur hún veikst
um 6,3% gagn-
vart Bandaríkjadal.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA