Fréttablaðið - 23.06.2012, Side 26
23. júní 2012 LAUGARDAGUR26
Hinn umdeildi Íslandsvinur
Hollywood-stórstjarnan Tom Cruise er staddur hér á landi ásamt fjölskyldu sinni við tökur á kvikmyndinni Oblivion. Kjartan
Guðmundsson rifjaði upp nokkrar af kvikmyndum Cruise og einnig heitkonurnar, orðrómana og uppátækin á ferlinum.
Tom Cruise hefur þrisvar verið
tilnefndur til Óskarsverðlauna, án
þess þó að vinna til verðlaunanna:
Árin 1990 og 1997 hlaut hann
tilnefningar sem besti leikari í aðalhlut-
verki fyrir myndirnar Born on the 4th of
July og Jerry Maguire. Árið 2000 var hann
svo tilnefndur sem besti leikari í aukahlut-
verki fyrir frammistöðu sína í Magnolia.
Þrisvar tilnefndur til Óskarsins
A frek Tom Cruise á hvíta tjaldinu hafa oft og tíðum fallið í skuggann af uppátækjum hans utan sviðs sem þykja undarleg, sérstaklega í
seinni tíð. Árið 2005 var sérstaklega slæmt í þessu tilliti og varð þess
valdandi að vinsældir leikarans minnkuðu talsvert hjá almenningi.
Höfðu og margir á orði að Cruise væri við það að ganga af göflunum,
þótt ekkert í þá veru fengist beinlínis staðfest.
Eftirminnilegasta atvikið er vafalítið þegar Cruise var gestur í
spjallþætti Opruh Winfrey í maí árið 2005 og hafði nýverið hafið sam-
band sitt við Katie Holmes. Svo ánægður virtist Cruise vera með lífið
og tilveruna þennan dag að hann hoppaði og skoppaði um leik myndina,
þar á meðal ítrekað ofan á drapplitaðan Opruh-sófann, fór niður á
annað hnéð og játaði ást sína á Katie hvað eftir annað áður en hann
stökk baksviðs og náði í sína heittelskuðu í græna herbergið baksviðs.
Þessar æfingar leikarans hefðu væntanlega ekki vakið jafn gríðar-
lega athygli ef um hvern annan meðaljón hefði verið að ræða, en vanga-
veltur um geðheilbrigði Cruise (sem sumir vilja tengja við Vísinda-
kirkjuna) höfðu þegar verið grasserandi í þó nokkurn tíma.
Ekki bætti úr skák þegar viðtal fréttamannsins Matt Lauer í Today
Show við Cruise snerist illilega í höndum leikarans í kjölfar þess að
hann hafði gagnrýnt leikkonuna Brooke Shields fyrir notkun á geð-
lyfjum til að stemma stigu við fæðingarþunglyndi. Í viðtalinu fann
Cruise geðlækningum flest til foráttu, sagði þær skottulækningar og
sakaði þáttastjórnandann meðal annars um að vera talsmaður rítalíns.
Í kjölfarið benti Shields leikaranum vinsamlegast á að halda sig við að
„bjarga jarðarbúum frá geimverum“ í stað þess að þykjast vita betur en
aðrir hvaða lækningaaðferðir gagnist hverjum og einum. Þá ávíttu Geð-
lækningasamtök Bandaríkjanna Cruise fyrir að festa enn frekar í sessi
þann neikvæða stimpil sem fólk með geðsjúkdóma þarf að kljást við.
Síðar sama sumar brunaði nýja parið á mótorhjóli niður rauða dregil-
inn við frumsýningu kvikmyndarinnar War of the Worlds í Hollywood,
sem mörgum þótti býsna undarlegt, og Cruise brást ókvæða við gríni
sjónvarpsmanns í London sem sprautaði vatni í andlit leikarans meðan
á plat-viðtali stóð.
Árið eftir, 2006, komust á kreik sögusagnir um að Cruise hefði skipað
Holmes að dóttir þeirra skyldi koma í heiminn með „þögulli fæðingu“
að vísindakirkjulegum sið, auk þess sem hann sagðist í viðtali hafa
í hyggju að snæða fylgjuna að fæðingu lokinni. Cruise sagðist síðar
hafa verið að grínast, en ummælin gerðu ekki mikið til að lappa upp á
almenningsálitið á þeim tíma.
Sögusagnir um samkynhneigð Cruise hafa verið fyrirferðarmiklar á
síðustu árum og hefur leikarinn nokkrum sinnum leitað réttar síns
fyrir dómstólum vegna þeirra.
Í janúar á síðasta ári gegndi breski grínistinn Ricky Gervais hlut-
verki kynnis á Golden Globe-verðlaunahátíðinni og sagði eftirfarandi
brandara: „Önnur mynd sem ekki er tilnefnd í kvöld er I Love You
Phillip Morris, sem fjallar um tvo gagnkynhneigða karaktera sem
þykjast vera samkynhneigðir. Sem sagt algjör andstæða við suma
fræga meðlimi Vísindakirkjunnar.“ Áhorfendur lásu milli línanna að
Vísindakirkjumeðlimirnir sem um var rætt væru Tom Cruise og John
Travolta, en sjálfur sagðist Gervais hafa fengið hjálp frá lögfræð-
ingum sínum við að orða brandarann á öruggan hátt.
Árið 2006 skapaðist mikil umræða um túlkun höfunda South
Park-teiknimyndaþáttanna á Cruise í þættinum „Fastur í skápnum“,
þar sem spjótum er beint að Vísindakirkjunni og teiknimyndaútgáfa
af leikaranum harðneitar að koma út úr skáp einnar aðalper-
sónunnar. Enn fyrr sömdu handritshöfundar annarrar teiknimynda-
seríu, The Simpsons, hlutverk fyrir Cruise sem góðmennið Tom,
sem gerist „stóri bróðir“ Bart um stundarsakir, í þætti sem nefndist
„Brother from the Same Planet“. Cruise hafnaði hlutverkinu og
leyndi reiði framleiðenda þáttanna sér ekki í spjalli um þáttinn á
DVD-disknum: „Screw you, Tom,“ voru skilaboðin sem leikarinn fékk.
Top Gun (1986)
Myndin sem festi Cruise í sessi sem
ofurstjörnu í Hollywood, og gerði að
draumaviðfangi milljóna áhorfenda
um allan heim, er enn sú tekjuhæsta
(að núvirði) sem hann hefur leikið í.
Rain Man (1988)
Cruise þótti standa sig prýðilega
í hlutverki sínu sem gráðugur og
óþolandi yngri bróðir hins einhverfa
Dustin Hoffmann í vinsælustu mynd
ársins 1988. Leikaranum hefur þó
líklega þótt súrt í bragði að nærri
allir sem að myndinni komu hlutu
tilnefningu til Óskarsverðlauna nema
hann. Í ofanálag gleymdi Hoffmann,
sem vann verðlaunin, að minnast á
Cruise í þakkarræðu sinni.
Mission: Impossible (1996)
Cruise var mikill aðdáandi gömlu
sixtís-spennuþáttanna og lék flest af
áhættuatriðunum sjálfur í þessum
monster-hittara sem var tekjuhæsta
mynd ársins 1996. Þrjár vinsælar
framhaldsmyndir hafa þegar fylgt í
kjölfarið og er lengi von á einum.
Cocktail (1988)
Myndinni um ástir og ævintýri
barþjónsins Brians Flanagan gekk
ágætlega í miðasölu en var slátrað
af gagnrýnendum víðast hvar. Cruise
fékk tilnefningu til Gyllta hindbersins
sem versti leikari ársins, en þurfti
að lúta í lægra haldi fyrir sjálfum
Sylvester Stallone í Rambo III.
Far And Away (1992)
Cruise og Kidman fylgdu Days of
Thunder eftir með þessari slöppu
og allt of löngu ræmu um írska inn-
flytjendur í Ameríku á 19. öld. Írski
hreimurinn hjá Cruise sker í eyrun,
eins og gjarnan gerist hjá Könum
sem reyna sig við frændur okkar
frá eyjunni grænu, og myndin
féll í álíka slæman jarðveg
hjá áhorfendum og gagn-
rýnendum.
Lions For Lambs
(2007)
Fyrsta myndin sem United
Artists-stúdíóið framleiddi
eftir að Cruise tók við
stjórn fyrirtækisins (leiðir
hans og Paramount
skildi nokkru fyrr) mis-
heppnaðist gjörsam-
lega, enda var henni
ætlað að vekja áhorf-
endur til umhugsunar um
stríðsrekstur Banda-
ríkjamanna í Mið-Austur-
löndum en reyndist grunn,
þvælu- og klisjukennd úr
hófi fram. Þeir ótal mörgu
sem ekki hafa séð þessa mynd
geta talist heppnir.
■ SMELLIR OG SKELLIR Í BÍÓ
SMELLIR SKELLIR
1983-1985 Rebecca De Mornay
De Mornay lék
með Cruise í
klassísku ung-
lingamyndinni
Risky Business
sem kom Cruise
á kortið árið
1983.
Konurnar í lífi Cruise
■ UNDARLEG UPPÁTÆKI ORÐRÓMURINN
1985 Cher
Cruise átti í stuttu
ástarsambandi við
hina sextán árum
eldri söng- og
leikkonu, en
annríki beggja
mun hafa
komið í veg fyrir
frekari rómans.
1987-1990 Mimi Rogers
Tom hélt sig við
eldri konur um
sinn og fyrsta
eiginkona hans
var bandaríska
leikkonan Mimi
Rogers (sex árum
eldri), sem er
talin hafa kynnt
Cruise fyrir kenn-
ingum Vísindakirkjunnar. Emilio
Estevez var svaramaður.
1990-2001 Nicole Kidman
Einungis örfáir mánuðir liðu frá skilnaði Rogers og Cruise
og brúðkaups þessa síðarnefnda og áströlsku leik-
konunnar Nicole Kidman á aðfangadag árið 1990. Þau
kynntust við upptökur á rallímyndinni Days of Thunder.
Cruise og Kidman ættleiddu tvö börn, Isabellu Jane, fædd
1992, og Connor Anthony, fæddur 1995. Þegar þau skildu
lét Kidman hafa eftir sér að nú gæti hún loks gengið á
háum hælum, en Cruise er 1,72 metrar á hæð.
2001-2004 Penélope Cruz
Þrátt fyrir að eftirnöfn Tom og Penélope séu svo sláandi lík
sem raun ber vitni entist samband þeirra aðeins í þrjú ár.
Þau kynntust við tökur á myndinni Vanilla Sky.
2005 til dagsins í dag Katie Holmes
Slúðurblöðin gáfu sambandi Cruise og leikkonunnar
Katie Holmes, sem hafði vakið athygli fyrir leik sinn í
táningadramaþáttunum Dawson‘s Creek, umsvifalaust
nafnið „TomKat“. Suri dóttir þeirra fæddist í apríl 2006 og
í nóvember sama ár giftu þau sig við Vísindakirkjuathöfn
á Ítalíu.