Fréttablaðið - 28.12.2012, Side 26
FÓLK|HELGIN
ELDABUSKAN
Nanna tilkynnti á
Facebook-síðu sinni að
hún vildi hvorki kalla
sig ástríðukokk né
matgæðing. Eldabuska
fyndist henni hins vegar
ágætisorð.
Nanna Rögnvaldar gaf út vinsæla bók í fyrra sem nefnist Jólamatur Nönnu. Þessi bók hefur hjálpað
mörgum við matseldina þegar undirbúa
skal veislu. Nanna gaf fúslega leyfi til að
birta uppskrift að villigæsarbringum úr
bókinni, en slíkan veislumat gæti verið
upplagt að elda um áramót.
„Ég elda ekki sjálf á gamlárskvöld,
hef í fjöldamörg ár alltaf verið annars
staðar í mat, oftast hjá systur minni í
kalkúna, og hef þá í mesta lagi hjálpað
aðeins með sósuna eða eitthvað slíkt.
Ég veit ekki enn hvar ég verð á nýárs-
dag en ef ég verð heima hjá mér er
trúlegt að ég geri eitthvað úr dúfna-
bringum sem ég á í frysti. Veit ekki hvað
það verður en rósmarín og þurrkaðar
apríkósur og/eða gráfíkjur gætu komið
eitthvað við sögu,“ svaraði Nanna þegar
hún var spurð um eigin áramótaveislu.
En hér kemur uppskriftin.
VILLIGÆSARBRINGUR
MEÐ BLÁBERJASÓSU
ÁRAMÓT Líklega vefst fyrir mörgum hvað eigi að vera í matinn um áramót.
Hér kemur góð hugmynd úr matarsmiðju Nönnu Rögnvaldardóttur sem von-
andi kemur að góðum notum, enda girnilegur réttur.
VILLIGÆSARBRINGUR
FYRIR 4
4 villigæsarbringur
Nýmalaður pipar
Salt
1 msk. olía
1 msk. smjör
Taktu bringurnar úr kæli a.m.k. einni
klukkustund áður en á að matreiða þær
svo að þær séu sem næst stofuhita
þegar steikingin hefst.
Hitaðu ofninn í 180°C. Snyrtu bringurnar
og þerraðu þær lauslega með eldhús-
pappír. Kryddaðu þær með pipar og salti.
Hitaðu olíu og smjör á pönnu og brúnaðu
bringurnar á báðum hliðum við góðan
hita. Settu þær í eldfast fat og stingdu
þeim í ofninn í 10–14 mínútur. Taktu þær
svo út og láttu þær bíða í fáeinar mínútur
áður en þær eru skornar. Berðu þær fram
t.d. með kryddjurtakartöflum, steiktum
plómum og bláberjasósu.
BLÁBERJASÓSA
Best er að nota íslensk bláber eða
aðalbláber. Ef engin ber eru til má sleppa
þeim en nota dálítið meira af sultu.
10 g þurrkaðir villisveppir
250 ml vatn, sjóðandi
1 laukur
150 ml rauðvín
2 tsk. villibráðarkraftur, eða eftir smekk
Pipar, salt
Lófafylli af frosnum eða þurrkuðum
bláberjum
2 tsk. bláberjasulta eða önnur sulta
1 tsk. balsamedik
Sósujafnari
Settu sveppina í skál, helltu sjóðandi
vatni yfir og láttu standa í a.m.k. hálf-
tíma. Saxaðu laukinn smátt og láttu hann
krauma í nokkrar mínútur í feitinni sem
gæsabringurnar voru brúnaðar í.
Helltu rauðvíninu á pönnuna og láttu
sjóða niður um helming. Bættu þá
sveppunum og vatninu sem þeir voru í á
pönnuna, ásamt villibráðarkrafti, pipar
og salti, settu berin út í og láttu sjóða í
nokkrar mínútur.
Bragðbættu sósuna með sultu og
balsam ediki og þykktu hana ögn með
sósujafnara (en hún á að vera þunn).
STEIKTAR PLÓMUR
Ég notaði tvær tegundir af plómum, aðra
litla og rauða, hina stærri og fjólubláa.
Það kom mjög vel út. Svo mætti líka nota
nektarínur eða ferskjur.
800 g plómur
50 g smjör
2 msk. hlynsíróp
Pipar, salt
Skerðu plómurnar í tvennt og fjarlægðu
steininn. Hitaðu smjör og hlynsíróp á
stórri pönnu, settu plómurnar á pönnuna
og steiktu þær við meðalhita þar til þær
eru farnar að mýkjast dálítið. Kryddaðu
með pipar og salti.
Áramótakjólar
30-70% afsláttur
af öllum kjólum föstudag og laugardag
Við erum á Facebook
FÓLK ER KYNNINGARBLAÐ sem býður aug-
lýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi
viðtala og umfjallana ásamt hefðbundnum auglýs-
ingum. Blaðið fylgir Fréttablaðinu daglega.
Útgefandi: 365 miðlar | Ábyrgðarmaður: Jón Laufdal
Sölumenn: Jónína María Hafsteinsdóttir, jmh@365.is, s. 512 5473
Sverrir Birgir Sverrisson, sverrirbs@365.is, s. 512 5432
Elsa Jensdóttir, elsaj@365.is, s. 512-5427 | Hönnun: Silja Ástþórsdóttir