Fréttatíminn - 06.05.2011, Page 52
32 viðhorf Helgin 6.-8. maí 2011
Austurströnd 3, 170 Seltjarnarnesi. Sími: 531 3300. ritstjórn@frettatiminn.is Ritstjóri: Jón Kaldal kaldal@frettatiminn.is Framkvæmda-
stjóri: Teitur Jónasson teitur@frettatiminn.is Fréttastjóri: Óskar Hrafn Þorvaldsson oskar@frettatiminn.is Ritstjórnarfulltrúi: Jónas Haraldsson jonas@frettatiminn.is.
Auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson valdimar@frettatiminn.is. Fréttatíminn er gefinn út af Morgundegi ehf. og er prentaður í 82.000 eintökum í Landsprenti.
Stundum er það þannig að tiltölulega mein-
lausar fyrirspurnir fá nýtt samhengi og
aukið vægi þegar viðbrögðin við þeim eru
einkennileg. Gott dæmi af þessum toga
eru svör Sigmundar Davíðs Gunnlaugs-
sonar, formanns Framsóknarflokksins, við
beiðni Fréttatímans um skriflega heimild
til að fá upplýsingar um námsferil hans við
Oxford-háskóla. Samkvæmt breskum pers-
ónuverndarlögum þarf slík
heimild að liggja fyrir áður en
skólayfirvöld mega afhenda
þessi gögn um fyrrum nem-
endur.
Ástæðan fyrir ósk Frétta-
tímans er misræmi í upplýs-
ingum sem Sigmundur Davíð
hefur veitt um menntun sína á
undanförnum árum. Í viðtali
við Morgunblaðið í ársbyrjun
2009 sagðist hann til dæmis hafa lokið við
að skrifa doktorsritgerð í skipulagshag-
fræði við Oxford-háskóla og biði þess eins
að hafa tíma til að verja hana. Á Alþingis-
vefnum er hann sagður með framhaldsnám
í hagfræði og stjórnmálafræði við sama
skóla og á Facebook-síðu sinni skráir Sig-
mundur Davíð sig sem skipulagshagfræð-
ing með menntun í hagfræði og hagrænni
landafræði frá Oxford-háskóla.
Í ljósi þess hversu margsaga Sigmundur
Davíð hefur orðið, hafði Fréttatíminn hug
á að fá úr því skorið hvernig í pottinn væri
búið beint frá skólastofnuninni í Oxford.
Hófst þá fjörið.
Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, símtöl
og tölvupósta kaus Sigmundur Davíð að
hafa að engu erindi Fréttatímans. Eftir
margra daga árangurslausar tilraunir til að
fá svör var því birt frétt um málið. En eins
og gefur að skilja án skýringa frá Sig-
mundi. Nema þá brá svo við að sama dag
og fréttin birtist barst yfirlýsing frá honum
þar sem umfjöllun blaðsins var fordæmd.
Engar skýringar voru hins vegar gefnar
á misræminu og að sama skapi var beiðni
Fréttatímans um heimild til upplýsingaöfl-
unar látið ósvarað.
Og þar með varð málið fyrst forvitnilegt
fyrir alvöru. Viðbrögðin voru orðin merki-
legri en fyrirspurnin.
Að sjálfsögðu sættir enginn fjölmiðill
með sjálfsvirðingu sig við að stjórnmála-
menn, eða aðrir þátttakendur í opinberum
störfum, handvelji sjálfir þær spurningar
sem þeir kjósa að svara og hverjum ekki.
Fréttatíminn ítrekaði því óskina til Sig-
mundar um að fá umbeðna heimild. Því
hafnaði hann loks tæpum þremur vikum
eftir að hún var lögð fram.
Staðan er því sú nú að um það bil mánuði
eftir að Fréttatíminn óskaði eftir heimild
Sigmundar til að afla staðfestra upplýsinga
um námsferil hans, er enn með öllu óljóst
hvað er rétt af því sem hann hefur sjálfur
sagt um þann feril.
Nú getur verið að Sigmundi Davíð sé
uppsigað við Fréttatímann og vilji af þeim
sökum ekki veita blaðinu þessa heimild.
Honum er þá í lófa lagið að veita öðrum
fjölmiðli leyfið. Það hlýtur að vera honum í
hag að hið rétta komi fram.
Formaður Framsóknarflokksins og Fréttatíminn
Viðbrögðin merkilegri en fyrirspurnin
Jón Kaldal
kaldal@frettatiminn.is
F
Að sjálfsögðu sættir enginn fjölmiðill með sjálfsvirðingu sig við að
stjórnmálamenn, eða aðrir þátttakendur í opinberum störfum, hand-
velji sjálfir þær spurningar sem þeir kjósa að svara og hverjum ekki.
Þ að er fögur og göf-ug hugsjón að efla samhug og metn-
að með þjóð sinni, sjálfs-
traust og stolt yfir því
sem vel er gert og skarar
fram úr í menningu, þjóð-
háttum og arfi. Það er illt
og ómannlegt að tengja
þessa viðleitni við til-
hæfulausar árásir á aðra,
hatur eða fyrirlitningu í
garð annarra samfélaga,
kynþátta eða menningar-
svæða. Hið fyrrnefnda er
farsæl og framsækin stefna, en hið
síðarnefnda er ótti, vanmetakennd
og flótti. Hið fyrrnefnda er eðlileg
þjóðerniskennd og þjóðhyggja, en
hið síðarnefnda þjóðernisöfgar og
ofstæki.
Því miður var þessu öllu snúið
skakkt í greinum í Fréttatímanum
29. apríl síðastliðinn. Í grein Gunn-
ars Smára Egilssonar á matarsíðu
blaðsins um „þjóðernishyggju“ var
öllu hrært saman í misskilningi
og hroka. Slíkt verður að leiðrétta.
Þekktur er munurinn á borgaralegri
frjálslyndisstefnu og fasisma, á lýð-
ræðisjafnaðarstefnu og stalínisma.
En sambærilegur munur er á hóf-
samri þjóðhyggju (nationalliberal-
isme) og hrottahreyfingum þjóðern-
isöfgamanna.
Á því leikur enginn vafi hvaðan
leiðtogar Íslendinga fengu hug-
myndir sínar um þjóðfrelsi og sjálf-
stæðisbaráttu. Þannig segir Jón
Sigurðsson forseti í grein í danska
blaðinu Fædrelandet 1. febrúar 1870:
„... min skole ligger meget mere
hos det danske nationale Parti. Jeg
gaar stadig ud fra det samme prin-
cip som dette og antager at enhver
frisindet dansk mand, og da navn-
lig enhver National-Liberal, vil være
med til at indrømme os Islændere
den samme nationale og politiske
ret ...“ Orðanotkun er að vísu óljós í
öllum þessum efnum. Þannig leiddi
Tomas Masaryk, þjóðhetja Tékka,
mannúðlegan, hófsaman og lýðræð-
islegan stjórnmálaflokk sem bar
nafnið Ceská strana národné soci-
álni, en þetta heiti er
beint þýtt: „tékkneski
flokkur þjóðernisjafn-
aðarmanna“. Þýsku af-
bökunina þekkja allir.
Það er einnig kol-
rangt að álykta að allir
þjóðhyggjumenn hljóti
að vera einangrunar-
sinnar í menningar- og
viðskiptamálum. Ein-
angrunarstefna er ein-
mitt ein mynd ótta, van-
metakenndar og flótta.
Þjóð hörfar ekki frá
samskiptum eða viðskiptum ef hún
hefur eðlilegt sjálfstraust, traustar
eiginforsendur og manneskjulegan
metnað til árangurs í drengilegum
leik með öðrum. Sama á við um af-
stöðuna til Evrópusambandsins og
hugsanlegrar aðildar að því. ESB er
flókin málamiðlun með marghliða
tilliti til aðstæðna og óska þjóðanna.
Þjóðhyggjumenn smáþjóða um alla
Evrópu eru áhugasamir þátttakend-
ur í stofnunum ESB. Á þeim vett-
vangi er sífellt leitað sameiginlegra
lausna í áföngum, eins og vandræði
ESB í gjaldeyris- og bankamálum
sýna svo ljóslega. Þess má minnast
að það tók Bandaríkjamenn um 150
ár að koma varanlegu lagi á peninga-
mál sín.
Þjóðin er eðlileg, lífræn og mann-
eskjuleg samfélagseining og sam-
félagsheild. Þróun í samskiptum
þjóða, menningarsvæði, alþjóðavæð-
ing og viðskiptaheildir breyta engu
um þetta. Sérhver þjóð þarf á því að
halda að eiga sér arf og stofnanir,
minningar og markmið sem vekja
henni stolt og metnað. Þjóðin á rétt
og kröfu á slíku. En allt er þetta líka
misnotað stundum. Þá grípa óvand-
aðir menn til pólitískra fánahyllinga
í sjálfhverfri þörf fyrir dýrð og hóp-
sefjun á háværum flokksþingum.
Um það eru dæmin bæði gömul og
ný. En slíkt réttlætir ekki útúrsnún-
ingana sem lesa mátti í Fréttatím-
anum fyrir skemmstu. Íslendingar
þurfa einmitt um þessar mundir
vænan skammt af heilbrigðri þjóð-
hyggju.
Athugasemdir við grein Gunnars Smára
Þjóðhyggja og
þjóðerniskennd
Jón Sigurðsson
lektor við HR
H inn 19. apríl síðastliðinn komst ríkissaksóknari að þeirri niður-stöðu að starfsmenn lögreglu-
stjórans á Suðurnesjum hefðu ekki
gerst sekir um refsiverða háttsemi
þegar þeir létu ógert að upplýsa verj-
endur tveggja sakborninga, sem sátu
í gæsluvarðhaldi vegna meints fíkni-
efnainnflutnings, um tilvist matsgerðar
Háskóla Íslands, dags. 7. janúar 2010. Í
matsgerðinni kom fram að efnin, sem
flutt voru til landsins, teldust ekki vera
ólögleg fíkniefni samkvæmt íslenskum
lögum.
Starfsmenn lögreglustjórans á Suður-
nesjum létu það sömuleiðis ógert að
upplýsa Héraðsdóm Reykjaness um
tilvist matsgerðarinnar við gæsluvarð-
haldsfyrirtöku yfir öðrum mannanna
19. janúar 2010. Þegar af þeirri ástæðu
kom ekki til skoðunar hjá dóminum
hvort hafna bæri gæsluvarðhalds-
kröfunni þar sem ekki væri um ólögleg
fíkniefni að ræða. Báðir sakborningar
voru síðar sýknaðir í sakamáli Héraðs-
dóms Reykjaness nr. 464/2010 á grundvelli niðurstöðu
matsgerðar Háskóla Íslands.
Í niðurstöðu ríkissaksóknara kemur fram að lög-
reglustjórinn á Suðurnesjum hafi upplýst ríkissaksókn-
ara um niðurstöður matsgerðar Háskóla Íslands sama
dag og hún barst lögreglustjóra, 7. janúar 2010. Það
virðist því sem ríkissaksóknari hafi verið þátttakandi
í því að halda matsgerðinni leyndri fyrir Héraðsdómi
Reykjaness og verjendum sakborninga í málinu. Niður-
staða ríkissaksóknara um refsilausa háttsemi starfs-
manna lögreglustjórans á Suðurnesjum þarf því ekki
að koma á óvart. Hún vekur hins vegar spurningar sem
mikilvægt er að ríkissaksóknari og
innanríkisráðherra svari:
1. Er ásættanlegt í réttarríki að ákæru-
valdið haldi mikilvægum gögnum, sem
sanna refsileysi verknaðar sakborninga,
leyndum fyrir dómstólum og verjendum
við gæsluvarðhaldsfyrirtökur?
2. Geta dómstólar tekið upplýsta og
rétta afstöðu til gæsluvarðhaldskrafna
ákæruvaldsins ef grundvallargögnum,
sem sanna sakleysi sakborninga, er
leynt fyrir dómstólnum eða gögnin falin
í miklum skjalafjölda málsins við gæslu-
varðhaldsfyrirtökuna?
3. Er verjendum mögulegt að rækja
lögboðnar starfsskyldur sínar sam-
kvæmt lögum um meðferð sakamála og
lögmannalögum við gæsluvarðhalds-
fyrirtökur þegar mikilvægum gögnum,
sem sýna ótvírætt fram á refsileysi
verknaðar umbjóðanda þeirra, er leynt
fyrir verjendunum?
4. Er samrýmanlegt 37. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála og al-
þjóðlegum skuldbindingum um réttláta
málsmeðferð, að ákæruvaldið leyni verjendur grund-
vallargögnum, sem sanna sakleysi umbjóðenda
þeirra, við gæsluvarðhaldsfyrirtökur í því skyni að fá
dómstóla til að samþykkja gæsluvarðhaldið?
5. Er ríkissaksóknari hæfur til að fara með rannsókn
sakamála sem varða nána samstarfsaðila ríkissak-
sóknara, s.s. lögreglustjóraembættin?
6. Er ríkissaksóknari hæfur til að fara með rannsókn
sakamáls þar sem sakarefnið kann að varða embætti
ríkissaksóknara sjálfs, s.s. sökum þess að ríkis-
saksóknari hafi tekið þátt eða haft vitneskju um hina
refsiverðu háttsemi sem er til rannsóknar?
Gögnum leynt
Spurningar til ríkissaksóknara og ráðherra
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
hæstaréttarlögmaður og
verjandi annars sakborninganna
sem sýknaðir voru af öllum
kröfum ákæruvaldsins í saka-
máli Héraðsdóms Reykjaness nr.
464/2010.