Fréttatíminn - 01.02.2013, Blaðsíða 22
ekki að partíið tæki enda því eftir partíið tók
kvíðinn og óttinn við.“
Árið 2006 eignaðist hún barn og það var
ákveðið „reality check“ eins og hún segir
sjálf.
„Ég tók aldrei ábyrgð og flúði alltaf ef
aðstæður urðu óþægilegar. En þegar Auður
fæddist þá gat ég ekkert flúið, ábyrgðin
starði framan í mig, vanlíðanin jókst og
samviskubitið nagaði inn að beini.“
Ilmur segir að henni hafi fundist erfitt
að hætta að drekka. Hún var hrædd um að
hún myndi tapa ákveðnum hráleika sem
leikkona:
„Af því að með drykkju og svo þynnku á
maður greiða leið að hráum tilfinningum.
Þú hefur þessa opnun sem hjálpar í flæði
leiksins. Hinsvegar fann ég að þessi hrá-
leiki var ekki eitthvað sem ég gat með góðu
móti stjórnað. Það var ekkert hægt að stóla
á þetta ástand og þá snérist hráleikinn upp
í ótta og það er ekkert verra en að vera ótta-
slegin á sviði. Það er eiginlega ekki hægt
– áhorfendur skynja það strax. Þetta endur-
speglaði líf mitt, ég var eiginlega óttaslegin
við að fara út í búð, fannst allir sjá í gegnum
mig. Svo má ekki gleyma því hvernig það er
að vera alltaf með samviskubit.“
Ilmur segir að það fylgi því mikið frelsi
að vera laus við áfengið: „Ég þarf ekkert að
réttlæta neitt núna. Það er ótrúlegur munur.
Að vera ekki alltaf í þessum réttlætingaleik,“
segir hún og bætir við að í dag brosir hún
þegar hún heyrir fólk segja: „Ég ætla bara
ekkert að vera með samviskubit yfir þessu.“
Hvort sem það snýst um áfengisneyslu eða
eitthvað annað. Líkt og fólk ráði því eitthvað:
„Samviskan er þannig að þú segir henni
ekkert að þegja. Hún er samviskan þín.“
Ekki kvenlegt að vera alkóhólisti
Í dag er Ilmur í framkvæmdastjórn SÁÁ,
stjórn fjölskylduþjónustu SÁÁ og einnig
á hún sæti í stjórn kvenfélags SÁÁ: „Jú,
jú, maður er aðeins að skipta sér af.“ Hún
segir að í dag eigi kvenfélagið hug hennar
og góðar vonir: „Það er svakaleg orka í
kvenfélaginu og mjög ákveðnar konur
þarna; sterkar og skemmtilegar. Þetta eru
allt gallharðir femínistar og ég fíla það.“
Það hefur oft legið við að skömmin við að
gangast við sjúkdómnum alkóhólisma sé
meiri hjá konum en körlum. Ilmur segir að
munurinn á kynjunum sé flóknari en svo að
hægt sé að skrifa hann eingöngu á skömm-
ina, bæði kynin eru að fást við hana en í
dag eru uppi þær hugmyndir að konur þurfi
jafnvel annarskonar meðferð en karlar. Þá
sýna rannsóknir að 80% þeirra kvenna sem
fara í meðferð inn á Vog hafi lent í ofbeldi.
Í dag eru þessar upplýsingar ekki nýttar
í áframhaldandi meðferð og eru konur
gjarnari á að „falla“ en karlmenn. Konur
eru þar að auki tregari að fara af heimilum
og skilja við börnin sín í nokkrar vikur til
leita sér hjálpar.
Ilmur segir það heldur ekki vera beinlín-
is kvenlegt að vera alkóhólisti. Við tengjum
áfengis- og vímuefnafíkn oft við róna eða
langt leidda fíkla. Konur séu þá gjarnari á
að segja við sjálfar sig að áfengi sé í raun
ekki vandamálið heldur sé meinið annað
og vilja þess vegna ekki leita sér aðstoðar
við alkóhólisma heldur einhverju öðru. Það
er útbreiddur misskilningur að sjúkdóm-
urinn felist í flöskunni en drykkja er bara
einkenni; þetta er andlegt mein. Sumir
vilja meina að meðvirkni og alkóhólismi sé
sami sjúkdómur þegar áfengið er tekið úr
breytunni. Sumir vilja líka meina að þetta
sé ekki sjúkdómur. Það eru um skiptar
skoðanir um þetta allt saman og mér finnst
mjög gaman að velta mér uppúr þessu.
Maðurinn er skrítin skepna.“
Og fórstu í meðferð?
„Nei. En ég hef rekið mig á að það er eins
og það skipti fólk máli hvort ég hafi farið í
meðferð eða ekki, eins og það sé meira töff
að hætta bara án þess að leita sér aðstoðar.
Ég fór ekki í meðferð en ég er ekkert fínni
alkóhólisti fyrir það og ég leita aðstoðar og
stuðnings. Það eimir ennþá af skömm við
það að leita sér hjálpar í þessu samfélagi,
við verðum að fara að láta af því, við erum
öll bara villuráfandi sálir. Að hætta að
drekka er stór ákvörðun, það er lífstíls -
ákvörðun, maður þarf að þroskast með
þeirri ákvörðun.“
Ilmur segist stundum þurfa að leiðrétta
fólk sem segir að hún „megi“ ekki drekka;
„ég má allt, þetta er ákvörðun – ég vil ekki
drekka.“
Hégómi og kæruleysi
Þótt Ilmur sér fyrst og fremst þekkt sem
gamanleikkona á Íslandi þá hafa hlutverk
hennar í leikhúsi nær öll verið dramatísk.
Í sjónvarpi hinsvegar er hún fyndin og það
sem meira er; hún hefur alltaf þorað að
vera ljót. Sem er hreint út sagt aðdáunar-
vert á tímum útlitsdýrkunnar:
„Ég er auðvitað femínisti og verð að
standa fyrir það. Ég get ekki staðið í að
gagnrýna útlitsdýrkun í samfélaginu og
verið svo að hafa áhyggjur af því hvernig ég
myndast,“ segir Ilmur og hlæjandi segist
hún ekkert reyna að vera ljót. Og kannski
sé hún líka bara svona sannfærð um eigið
ágæti að hennar innri fegurð skíni alltaf í
gegn.
„Nei,“ heldur hún áfram, „auðvitað tekur
hégóminn stundum yfir hjá mér. Ég geng í
fínum fötum og hef mig til. Um daginn kom
mynd af mér á Mbl. Ilmur og Logi Berg-
mann í stuði eða eitthvað svoleiðis. Alveg
hörmungarmynd. Ég var hlæjandi, ómáluð
og hárið klesst aftur. Mér fannst allar
hinar konurnar í myndaseríunni líta vel út
og vera voða sætar. Nema ég. Fyrst var ég
bara „oh, hvað ég er alltaf ljót á myndum“
og svo hugsaði ég með mér; „æi, er þetta
ekki bara skemmtilegra svona? Í stað þess
að við værum allar ofsalega sætar?“.“
Og nær það alveg inn að kjarnanum?
„Já, vegna þess að hitt er svo grunnt. Ef
ég næ inn fyrir það þá er mér alveg sama
hvernig ég lít út. Svo veit ég alveg sjálf að
ég get verið sæt. Ég fékk til dæmis að vera
rosalega sæt á plakati fyrir Heddu Gabler.
Var á nærbuxunum á veggjum út um allan
bæ. Var rosa kroppur og fólk var að segja
mér að ég væri rosa sæt og svona. Það gaf
mér ekkert. Ég gat hakað í þann kassa. Ég
get líka verið sæt. Svo búið.“
Ilmur hefur verið í fríi frá leikhúsinu
síðustu mánuði en snýr aftur á fjalirnar
í apríl til að leika í Svari við bréfi Helgu í
Borgarleikhúsinu. Það leikrit var frum-
sýnt í fyrra og hefur Ilmur fengið mikið lof
fyrir frammistöðuna. Á næstunni klárar
hún upptökur fyrir nýja þáttaröð af Ástríði
og kvikmyndin Ófeigur snýr aftur verður
frumsýnd um páskana. Hvað tekur svo við?
Ilmur hefur ekki hugmynd um það og hún
segir að það sé frábært tilfinning að vita
ekki hvað sé fram undan:
„Það er alltaf eitthvað, ég er með nóg
af plönum, það vantar ekki, en hvaða plan
verður ofan á veit ég ekki. Árangur án
áreynslu – það er lífsmottóið mitt,“ segir
Ilmur stolt. „Að vera með markmið en
þvinga það ekki áfram, bara treysta ferða-
laginu. Ég hef aldrei haft sérstakar áhyggj-
ur af því hvar ég lendi. Það er þessi fína lína
milli kæruleysis og leti. Æi, nei ég er samt
ekki andlega löt. Ég hef reyndar endur-
heimt ákveðið kæruleysi sem ég er ánægð
með – eða heitir það ekki æðruleysi þegar
maður er svona þroskuð og fullorðin?“
Mikael Torfason
mikaeltorfason@frettatiminn.is
Sími 570 2400 · oryggi.is
Stöndum vaktina allan sólarhringinn
Öryggismiðstöðin býður mikið úrval eftirlitsmyndavéla sem henta
jafnt einstaklingum sem smáum og stórum fyrirtækjum.
Við bjóðum m.a. upp á eftirlitsbúnað frá danska fyrirtækinu
Milestone sem er leiðandi á heimsvísu í stafrænni upptökutækni.
Hafðu samband og sjáðu hvað við getum gert fyrir þig.
PI
PA
R\
TB
W
A
•
S
ÍA
•
1
20
62
4
Eftirlitsmyndavélar
Ilmur Kristjánsdóttir er nú að taka upp nýja þáttaröð af Ástríði en sjónvarpsþættirnir verða sýndir í
mars. Hér er hún á tökustað.
Þegar ég horfi aftur líður
mér stundum eins og ég hafi
ekki tekið neinar ákvarðanir.
22 viðtal Helgin 1.-3. febrúar 2013