Fréttatíminn


Fréttatíminn - 01.02.2013, Síða 46

Fréttatíminn - 01.02.2013, Síða 46
Af blíðum blæ og Blævi Þ Það fylgir því ábyrgð að gefa börnum nafn en sú ábyrgð er foreldranna fyrst og fremst. Undir þeirri ábyrgð standa foreldrar yfirleitt, sem betur fer, og gefa börnum sínum nöfn sem þau geta stolt borið ævina á enda. Sum nöfnin eru að sönnu framúrstefnulegri en önnur en venjast vel. Þá gæta foreldrar þess með sama hætti að tvínefni fari vel saman. Bjartur er til dæmis fallegt karlmanns- nafn og hið sama á við um nafnið Dagur. Hins vegar er hætt við að Bjartur Dagur gæti átt von á stríðni á lífsleiðinni. Með sama hætti efast enginn um að Helga er fallegt nafn og hið sama gildir um kven- mannsnafnið Nótt. Helga Nótt ætti hins vegar erfitt uppdráttar, að minnsta kosti á jólanótt. Því forðast ábyrgir foreldrar slíkar samsetningar. Ónefni dæma sig sjálf og undarlegt væri innræti foreldra sem gæfu barni sínu ónefni, eitthvað sem ómögulegt væri að una við. En allur er varinn góður, segir hið opinbera, en á þess vegum er sérstakt apparat, mannanafnanefnd, sem semur skrá um eiginnöfn sem teljast heimil og er prestum, Þjóðskrá og forráðamönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir – og síðast en ekki síst skal hún skera úr um álita- eða ágreiningsmál. Nefndin getur sem sagt bannað ákveðin nöfn. Slík forræðishyggja er mörgum eitur í beinum enda telja þeir að það sé for- eldranna einna að ákveða nöfn afkvæma sinna. Á það er hins vegar hægt að fallast að einhver ráð séu fyrir hendi til að koma í veg fyrir að, í undantekningartilfellum, gefi forráðamenn barns því ónefni. Þetta vald á hins vegar að fara afar sparlega með. Landsmenn hafa fylgst með sér- kennilegri deilu undanfarin misseri og raunar fólk víða um lönd því deila þessi hefur vakið athygli langt út fyrir land- steinana. Hún snýst um það að tánings- stúlka fái að bera það nafn sem henni var gefið við skírn, það er að segja Blær. Það vill mannanafnanefnd ekki fallast á þar sem Blær sé karlmannsnafn. Ekki er um það deilt að Blær er fallegt nafn, sem hver maður getur borið með sóma, karlar jafnt sem konur því dæmi eru um slíkt. Þótt Blær sé karlkynsnafn ber kona um fertugt það engu að síður með fullu leyfi yfirvalda og ekki ómerkari maður en Halldór Laxnes gaf kvenpersónu í Brekkukotsannál Blævarnafnið. Það hefur einmitt komið fram hjá móð- ur táningsstúlkunnar Blævar að hún hafi heillast af þessu nafni í skáldverki nóbels- skáldsins. Við erum vön Jóni og Jónu, Halldóri og Halldóru, Inga og Ingu þar sem enginn er í vafa um hvort átt er við konu eða karl. Gleymum því hins vegar ekki að sama orðið getur bæði verði karl- og kvenkyns en tekur þá mismunandi beygingarend- ingum. Auður í merkingunni auðæfi er karlkyns en auður í merkingunni örlög er kvenkyns og sama á auðvitað við um kvenmannsnafnið Auður. Ilmur er karl- kynsorð þegar átt er við angan en kven- kyns í merkingunni ásynja eða valkyrja og auðvitað kvenmannsnafnið Ilmur, sem beygist með öðrum hætti en karlkyns- orðið ilmur. Því er tregða mannanafnanefndar í máli stúlkunnar Blævar lítt skiljanleg. Fyrir eru á fleti fertuga konan Blær og karlmenn með Blæsnafnið og vart verður fallist á annað en tilvist Blæs og Blævar sé jafngild. Málið er fyrir dómi og verður fróðlegt að fylgjast með því hver niður- staðan verður en lögmaður stúlkunnar vísar meðal annars til þess í málflutn- ingi sínum að í bókinni Nöfn Íslendinga finnist Blær sem kvenmannsnafn. Þar til dómur fellur verður unglingsstúlkan Blær að muna að hún heitir Stúlka á opin- berum pappírum og í vegabréfi sínu. Það er ekki öll vitleysan eins. Sem betur fer þurfa fáir að standa í svipuðu stappi og Blær og móðir hennar enda eru flestir ánægðir með nafngiftir, bæði þeir sem nöfnin bera og yfirvaldið sjálft, mannanafnanefnd. Sú ánægja á við um pistilskrifarann en ég var látinn heita í höfuðið á afa mínum, merkum skip- stjóra á sinni tíð. Jónasarnafnið er tiltölu- lega algengt karlmannsnafn en það bera nær 900 manns. Það á sér langa sögu og mun, eftir því sem lesa má á fróðleiksvefj- um, vera grísk mynd hebreska nafnsins Jonah sem merkir dúfa. Frægastur okkar nafna er þjóðskáldið sjálft, Jónas Hall- grímsson. Það er ekki leiðinlegt að bera sama nafn og sá sem fegurst allra hefur ort á íslenska tungu. Að ýmsu er þó að hyggja þegar að notkun nafna kemur og fleiri en einn í fjölskyldu eða ætt bera sama nafnið. Frændi minn góður, aðeins yngri en ég, ber einnig Jónasarnafn afa okkar. Þegar sú gæðakona, amma okkar nafnanna, kallaði til eiginmanns síns og afa okkar af sínum elskulegheitum: „Jónas minn“, gerði litli frændi einfalda en einlæga athugasemd: „Amma,“ sagði sá stutti, „Jónas minn, það er ég.“ Nú búum við hjónakornin, löngu orðin afi og amma sjálf, við þá dásemd og heiður að eitt barnabarna okkar heitir Jónas Tryggvi, í höfuð beggja afa sinna. Við karlarnir, á sitt hvoru landshorn- inu, erum að sjálfsögðu stoltir af okkar manni, rétt eins og öðrum barnabörn- um okkar – og sagan endurtekur sig. Í næturgistingu hjá okkur um liðna helgi ávarpaði minn betri helmingur mig heldur alúðlega með nafni – en áður en mér gafst tækifæri til viðbragða svaraði nafni minn litli snöfurmannlega. Hann er „Jónas minn“ hennar ömmu sinnar – afi er bara afi. Nafnið skiptir því máli, hvort heldur maður er nafni þjóðskáldsins eða kemur fyrir í ljóði þess sem svo segir í Dalvísu um blæ (með litlu bé-i og í karlkyni!): „Bunulækur blár og tær bakkafögur á í hvammi sólarylur, blíður blær...“ Ps. Dómur féll í Héraðs- dómi Reykjavíkur í gær, nokkru eftir að pistill- inn var skrifaður. Blær skal hún heita, ekki Stúlka. Kerfið var lagt að velli. Jónas Haraldsson jonas@ frettatiminn.is HELGARPISTILL Te ik ni ng /H ar i Þjáist þú af mígreni? MigreLief er bætiefni ætlað mígrenis- sjúklingum til þess að draga úr höfuð- verkjum Kíkið við hjá okkur og fáið nánari upplýsingar 46 viðhorf Helgin 1.-3. febrúar 2013 Styrkir Barnavinafélagið Sumargjöf Auglýsir styrki til rannsókna, lista og þróunarverkefna, sem geta nýst börnum á leik- og grunnskólaaldri. Umsókn, ásamt greinargerð um verkefnið, skal senda fyrir 17. febrúar 2013 Stjórn Barnavinafélagins Sumargjafar áskilur sér rétt til að óska eftir nánari upplýsingum um verkefnið og ármögnun þess og leita umsagnar fagaðila Reykjavík 18. janúar 2013 Barnavinafélagið Sumargjöf Pósthólf 5423, 125 Reykjavík Netf: sumargjof@simnet.is

x

Fréttatíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.