Bændablaðið - 01.08.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 01.08.2013, Blaðsíða 16
16 Eldri blöð og tímarit aðgengileg almenningi á netinu Allir árgangar Bændablaðsins komnir á timarit.is – hægt að finna gamlar greinar á örskotsstundu Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn lauk nýverið við að setja gamla árganga af Bændablaðinu inn á vefinn timarit.is. Þar er nú hægt að nálgast blaðið í stafrænu formi og leita með fullkominni leitarvél að texta sem birst hefur á síðum Bændablaðsins í gegnum tíðina. Skráning í gagnagrunn Landsbókasafnsins, sem er öllum opinn að kostnaðarlausu, mun gjörbreyta aðgangi að blaðinu fyrir almenning, innan lands sem utan. Frá árinu 2003 hafa tölublöð Bændablaðsins verið aðgengileg á PDF-skjölum á vefnum en eldri blöð hafa verið ófáanleg. Nú breytist það, þar sem Bændalaðið er komið í hóp hundraða íslenskra blaða og tímarita sem er að finna á timarit.is. Örn Hrafnkelsson er sviðsstjóri á Landsbókasafni og er yfir varðveislu og stafrænni endurgerð. Hann hefur verið viðriðinn timarit. is frá upphafi, en vefurinn byrjaði sem samstarfsverkefni milli lands- bókasafnanna á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. „Þetta er sá vefur Landsbókasafnsins sem er mest notaður. Þarna er að finna bæði dagblöð og tímarit sem gefin hafa verið út á Íslandi. Það var byrjað á því að mynda tímarit og dagblöð frá 19. öld og svo fyrri hluta 20. aldar. Það sem er einstakt við vefinn er að þarna eru líka blöð og tímarit sem eru nær okkur í tíma. Þá á ég við stóru dagblöðin en síðan eru alltaf að bætast við fleiri og fleiri blöð sem við höfum skilgreint sem landsmála- og héraðsfréttablöð. Bændablaðið er góð viðbót og þéttir heimildanetið sem almenningur hefur aðgang að á netinu.“ 2.000-2.500 gestir á degi hverjum Að sögn Arnar er notkunin á vefnum mikil en netumferðin minnkar aðeins á sumrin. Flettingar eru í kringum 25-30 þúsund daglega. Ítarleg skráning Starfið í kringum timarit.is er unnið innan tveggja deilda hjá Landsbókasafninu. Hjá Íslandssafni, þar sem allt prentefni kemur inn í skylduskilum, er efnið undirbúið til myndatöku. Þar er athugað hvort öll tölublöð séu til staðar og undirbúið fyrir skráningu. Þaðan fara blöðin og tímaritin niður í Myndastofu og þar er efnið skráð til myndatöku og loks myndað. Vinnan felst m.a. í því að skrá árganga, tölublöð og dagsetningar svo að fólk geti flett í gegnum safnið með því að leita eftir tölublöðum og árgöngum. Flestir leita hins vegar eftir dagsetningum. Unnið á vöktum við að mynda gömul blöð Á Myndastofu vinna að jafnaði þrír starfsmenn á vöktum frá átta á morgnana til klukkan níu á kvöldin. „Myndastofan er líka að mynda annars konar efni, ekki bara fyrir timarit.is. Ástæðan er sú að við viljum halda vélunum gangandi enda er af nógu að taka. Núna eru 4,5 milljónir blaðsíðna inni á timarit. is og 830 titlar,“ segir Örn. Textaleit sparar vinnu og fyrirhöfn Einn meginkostur timarit.is er að þar er fullkomin textaleitarvél sem gerir notendum kleift að leita eftir orðum í blöðum og tímaritum. Á augabragði er hægt að kalla upp greinar eða umfjallanir í ólíkum prentmiðlum og safna saman miklum upplýsingum. „Það breytti mjög miklu fyrir timarit. is og notkun vefsins að fá textaleitina í gagnið. Það má segja að við höfum gengið í gegnum það sama og öll önnur bókasöfn sem eru að búa til stafræn söfn. Hugsunin var sú að skrá niður titla, árgang, tölublöð og fleira sem bókasafnsfræðingum er tamt að gera.“ Um leið og áherslan var tekin af því að leita eftir þessum atriðum eingöngu og textaleitin efld breyttist notagildi vefsins mikið að sögn Arnar. „Það er líka hægt að afmarka textaleitina við tímabil eða tiltekið blað og beygingarlýsing íslensks máls er tekin með í reikninginn. Það er t.d. hægt að slá inn orðið „bóndi“ og þá leitar tölvan eftir orðinu í öllum fallbeygingum, fleirtölu og með og án greinis. Þetta hefur keyrt upp notkun á vefnum,“ segir Örn. Timarit.is hefur auðveldað vinnu sagnfræðinga og annarra sem eru að grúska í gömlum heimildum. „Ég man eftir manni sem sat hér við vinnu á safninu í þrjú ár við að fletta blöðum um ákveðið málefni. Hann fór yfir útgefin blöð á löngu tímabili á svokölluðum míkrófilmum, sem var afar tímafrekt. Núna er hægt að afmarka leit við tiltekið blað eða árgang, setja inn leitarskilyrði og finna gögnin á örskotsstundu. Það er líka búið að opna inn á stóru leitarvélarnar eins og Google. Við erum að fá mikið af tilvísunum þaðan inn á timarit.is, jafnvel víða að úr heiminum,“ segir Örn. Bændasamtök Íslands kostuðu myndun Bændablaðsins og innsetn- ingu á timarit.is en verðið var ámóta hátt og bóndi fær fyrir þrjú ungneyti í sláturhúsi. /TB Myndir / TB grunni timarit.is á degi hverjum. 1995 1. tölublað 6.000 eintök Efst á baugi: - Sameinuð Bændasamtök - Ullin góð tekjulind - Græna hugmyndafræðin - Forsvarsmenn afurðastöðva fastir í hugarfari sjóðakerfisins - Skinnasýning í Hveragerði - Lífrænn landbúnaður í sókn - Úrbóta er þörf - Samvinna er lykilorðið Bændablaðið gefið út í 30 þúsund eintökum 400 tölublöð hafa komið út – Bændablaðið hefur þróast í áranna rás Það var 14. mars árið 1995 sem fyrsta Bændablaðið kom út undir merkjum nýstofnaðra Bændasamtaka Íslands. Markmiðið var að gefa út blað sem skyldi sent út til allra bænda og vera upplýsandi um málefni stéttarinnar. Því var líka ætlað að kynna fyrir öðrum stefnu Bændasamtakanna og veita gagnlegar upplýsingar um stöðu landbúnaðarins. Jón Helgason, formaður Búnaðarfélags Íslands, sagði í fyrsta leiðara að með slíku kynningarstarfi sköpuðust auknir möguleikar á að hafa áhrif á umræðu um landbúnað og gera hana jákvæðari, eins og hann orðaði það. Svo sagði Jón: „Sérstaklega er það þó eins og staðan er um þessar mundir, þegar afkoma margra bænda er erfiðari en verið hefur um áratuga skeið. Framundan er því lífróður fyrir bændastéttina til að komast í gegnum þessa erfiðleika og fá aðstöðu til að nýta á árangursríkan hátt þá mörgu kosti, sem landið býður. Bændablaðinu er ætlað að vera öflugt tæki stéttarinnar í þeirri baráttu.“ Frá því að Bændablaðið kom fyrst út hefur mikið vatn runnið til sjávar. Blaðsíðufjöldi hefur aukist og á síðustu árum hefur tölublöðum fjölgað yfir árið, nú síðast í fyrra þegar sumarhlé var aflagt. Jafnframt hefur upplag blaðsins aukist jafnt og þétt. Nú er blaðinu dreift með markvissum hætti án endurgjalds í matvöruverslanir um allt land, á sundstaði, í sjoppum og bensínstöðvum og víðar þar sem fólk er á ferðinni. Þrátt fyrir að blaðinu sé dreift ókeypis víða um land fær töluverður hópur blaðið sent til sín í áskrift. Eins og í upphafi útgáfunnar fá allir bændur sem búa á lögbýlum blaðið sent heim á hlað endurgjaldslaust. Auglýsendur hafa sýnt blaðinu mikla tryggð og traust í gegnum árin, en tekjugrundvöllur blaðsins byggist á auglýsingasölu að mestu leyti. Starfsfólk hefur ætíð lagt hart að sér við útgáfuna og margir pennar lagt ritstjórninni lið. Bændur og aðrir lesendur hafa ekki síst verið góðir bandamenn og verið í miklum samskiptum við ritstjórn. Árið 2007 var vef Bændablaðsins, bbl.is, hleypt af stokkunum. Þar er hægt að nálgast PDF-útgáfu af blaðinu frá árinu 2003 en núna við þau tímamót að 400. tölublaðið kemur út er blaðið frá upphafi útgáfunnar aðgengilegt á timarit.is eins og fram kemur hér að ofan. /TB

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.