Bændablaðið - 01.08.2013, Blaðsíða 26
26
Fróðleiksbásinn
Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur
Fjölærar jurtir skipa stóran
sess í ræktun garða, enda skipta
tegundir og afbrigði þúsundum.
Blómlitir, hæð og blaðlögun eru
óteljandi og möguleikarnir sem
bjóðast eru óendanlegir.
Við val á fjölærum jurtum verður
að velja þær út frá hæð, blómlit,
blaðlögun og blómgunartíma, auk þess
sem taka verður tillit til þess hvort þær
þola skugga, í hvernig jarðvegi þær
dafna best og hvað þær þurfa mikið
rými. Einnig er ráðlagt að velja jurtir
sem blómstra á mismunandi tíma svo
að garðurinn sé í blóma frá vori fram
á haust.
Undirbúningur og gróðursetning
Áður en jurtirnar eru gróðursettar
verður að undirbúa beðið vel með
því að stinga það upp, losa um og
hreinsa moldina og blanda hana
með lífrænum áburði niður á 30 til
40 sentímetra dýpi. Ef gróðursetja á
jurt sem kýs basískan jarðveg þarf að
bæta í hann kalki. Kjósi viðkomandi
jurt aftur á móti súran jarðveg þarf
að sýra hann með brennisteini eða
barrnálum.
Samkvæmt reglunni þarf skipta og
flytja jurtir sem blómstra á haustin að
vori, en jurtir sem blómstra á vorin
eru fluttar á haustin. Yfirleitt er þó
gróðursett að vori hvor flokkurinn sem
í hlut á og gefst oftast vel.
Gróðursetja þarf jurtirnar sem
fyrst eftir að þær koma í garðinn og
passa verður að ræturnar þorni ekki.
Varast ber að sól skíni á ræturnar, það
þola jurtirnar illa. Einnig þarf að gæta
þess að hafa gróðursetningarholurnar
víðar svo hægt sé að koma rótunum
fyrir án þess að vöðla þeim saman
og betra er að klippa af rótunum en
að troða þeim niður. Gæta þarf þess
að gróðursetja jurtina í sömu dýpt og
hún stóð áður og þjappa jarðveginum
hæfilega þétt að henni. Hæfilegt bil á
milli jurta er breytilegt eftir fyrirferð
þeirra og getur verið frá nokkrum
sentímetrum og upp í rúman metra.
Ágætt viðmið er að jurtir sem eru 10
til 30 sentímetrar á hæð sé plantað
með 15 til 25 sentímetra millibili. 30
til 60 sentímetra háar jurtir þurfa 25
til 60 sentímetra millibil og jurtir sem
eru 60 til 100 sentímetra háar verða
að hafa 50 til 100 sentímetra millibili
eða meira.
Eftir útplöntun þarf að vökva vel.
Ef gróðursett er í sterku sólskini eða
hvassviðri er gott að skýla jurtinni
fyrstu dagana. Blaðmiklar jurtir þurfa
meira vatn en blaðminni vegna þess
að útgufun úr þeim er meiri.
Staðsetning
Við skipulagningu beða á að raða
jurtunum eftir lit og blómgunartíma
þannig að eitthvað sé í blóma í
beðinu frá vori og fram á haust.
Í flestum tilfellum er fallegast að
hafa beðin að minnsta kosti 1 til 2
metra á breidd svo jurtirnar fái að
njóta sín. Gróðursetja á hæstu jurtirnar
aftast í beð sem eru uppi við hús eða
vegg svo þær skyggi ekki á lægri
plöntur. Sé beðið aftur á móti á miðri
lóð eða hringlaga þarf að gróðursetja
hæstu jurtirnar innst og lækka hæðina
eftir því sem utar dregur. Fallegt getur
verið að planta jurtum af sömu tegund
í stórar breiður í beðum þannig að þær
njóti sín vel.
Steinhæðir
Mörgum jurtum líður best í þurrum
jarðvegi og því gott að planta þeim
innan um steina eða grjót og þær því
upplagðar í steinhæðir eða steinabeð.
Grjótið hitnar og miðlar hitanum til
jurtanna. Steinhæðir eiga að vera
vel framræstar og á sólríkum stað.
Í steinhæðir má nota margs konar
grjót, hraun, holta- eða sjávargrjót.
Áburðargjöf þarf að vera í lágmarki
þar sem jurtir sem henta í steinhæðir
dafna yfirleitt best í mögrum
jarðvegi.
Ýmsar jurtir, eins og hnoðrar
og steinbrjótar, bergnál, snæbreiða,
rósasmæra, blóðberg, alpafífill og
stjörnublöðkur fara yfirleitt vel í
steinhæðum.
Smáir runnar, eins og fjalldrapi og
lágvaxinn víðir, eru líka fallegir innan
um steina auk sígrænna tegunda, eins
og einis og furu. Aftur á móti þarf
að varast að setja jarðlægar jurtir og
jurtum sem skjóta frá sér öflugum
rótarskotum í steinhæðir því erfitt
getur verið að hemja þær ef þær ná
fótfestu.
Áburður og umhirða
Sé jarðvegur sæmilega frjósamur
nægja á milli 25 og 30 grömm af
alhliða garðáburði á hvern fer-
metra fyrri hluta sumars og hálfur
skammtur í lok júlí. Einnig er til bóta
að strá hnefafylli af lífrænum áburði
yfir hvern fermetra beðanna annað
hvert ár og raka hann niður. Fjarlægja
verður allt illgresi jafnóðum því það
er ótrúlega fljótt að koma sér fyrir fái
það að dafna óáreitt.
Hávaxnar jurtir verður að binda
upp þegar líður á vaxtartímann til
að koma í veg fyrir að þær brotni í
hvassviðri. Jurtir sem breiða mikið
úr sér eiga það til að þreytast og
verða rytjulegar í miðjunni og því
getur verið nauðsynlegt að taka þær
upp á nokkurra ára fresti, skipta og
endur gróðursetja. Aðrar jurtir eiga
það aftur á móti til að vaxa upp úr
jörðinni og því þarf að taka þær upp
og gróðursetja aftur eða hreykja mold
upp að þeim eftir þörfum.
Nauðsynlegt getur verið að hemja
jurtir sem skjóta frá sér kröftugum
rótarskotum ef rýmið er takmarkað.
Gott er að nota járn- eða plastræmur
sem grafnar eru 30 til sentímetra niður
allt í kringum jurtina. Dæmi um þetta
eru höfuð- og skriðklukka, eyrarrós,
randagras, hulduskór og sedrusmjólk.
Ekki þarf klippa sölnuð blöð eða
stöngla af fjölærum jurtum á haustin
heldur geyma það fram á vor. Blöðin
og stönglarnir verja jurtirnar fyrir
frosti og veita þeim vetrarskjól. Sé
um mjög viðkvæmar jurtir að ræða
getur aftur á móti reynst nauðsynlegt
að skýla þeim sérstaklega, til dæmis
með því að setja yfir þær lauf eða
striga eða jafnvel að hvolfa yfir þær
fötu og fergja hana með steini.
Haustið er einnig rétti tíminn til að
safna fræi af fjölæringunum fyrir þá
sem hafa áhuga á slíku.
Garðyrkja & ræktun
Fjölæringar, ræktun og umhirða
Blómgunartími
Fjölærar jurtir sem blómstra snemma:
Fjallasóley (Ranunculus alpestris)
Garðskriðnablóm (Arabis caucasia)
Glófeldur (Douglasia vitaliana)
Lyklar (Primula)
Vorblómstrandi laukar
Fjölærar jurtir sem eru síðblómstrandi:
Frúarhattur (Rudbeckia fulgida)
Heiðavöndur (Gentiana farreri)
Prestabrá (Chrysanthemum maximum)
Steinahnoðir (Sedum spurium)
Reinfang (Tanacetum vulgare)
Blómlitur
Fjölærar jurtir með hvít blóm:
Freyjubrá (Leucanthemum vulgare)
Klettafrú (Saxifraga cotyledon)
Mjaðurt (Filipendula ulmaria)
Mjallhæra (Luzula nivea)
Silfurhnappur (Achillea clavennae)
Fjölærar jurtir með gul blóm:
Friggjarlykill (Primula florindae)
Gullhnappur (Trollius europaeus)
Hófsóley (Caltha palustris)
Mjólkurjurt (Euphorbia polychroma)
Skildir (Ligularia)
Fjölærar jurtir með rauð blóm:
Ástareldur (Lychnis calcedonica)
Hjartarblóm (Dicentra spectabilis)
Jarðarberjamura (Potentilla atrosanguinea)
Risasól (Papaver bracteantum)
Skarlatsfífill (Geum coccineum)
Fjölærar jurtir með ljósrauð eða bleik blóm:
Bergsteinbrjótur (Saxifraga paniculata)
Nellikur (Dianthus)
Geldingahnappur (Armeria maritima)
Hjartarsteinbrjótur (Bergenia cordifolia)
Musterisblóm (Astibe)
Roðasteinbrjótur (Saxifraga × arendsii)
Fjölærar jurtir með fjólublá blóm:
Blágresi (Geranium sylvaticum)
Garðakobbi (Erigeron speciosus)
Geitabjalla (Pulsatilla vulgaris)
Næturfjóla (Hesperis matronalis)
Sifjargras (Thalictrum chelidonii)
Fjölærar jurtir með blá blóm:
Bláklukka (Campanula rotundifolia)
Blásól (Meconopsis betonicifolia)
Engjamunablóm (Myosotis palustris)
Jakobsstigi (Polemonium coeruleum)
Venusvagn (Aconitun napellus)
Fjölærar jurtir með falleg blöð
Bronslauf (Rodgersia)
Burkni (Dryopteris)
Brúska (Hosta)
Dílatvítönn (Lamium maculatum)
Húslaukur (Sempervivum)
Hávaxnar fjölærar jurtir:
Risahvönn (Heracleum)
Kóngaljós (Verbascum longifolium)
Ólympíukyndill (Vebascum olympicum)
Risakál (Crambe cordifolia)
Skessujurt (Levisticum officinale)
Skuggþolnar fjölærar jurtir
Vatnsberi (Aquilegia)
Rökkur- og skuggasteinbrjótur
(Saxifraga cuneifolia og S urbium)
Skildingablóm (Lysimachia nummularia)
Dalalilja (Convallaria majalis)
Kúluþistill (Echinops ritro)
Fjölærar jurtir sem sá sér mikið
Garðasól (Papaver nudicaule)
Næturfjóla (Hesperis matronalis)
Risahvönn (Heracleum)
Spánarkerfill (Myrrhis odorata)
Sporasóley (Aquilegia)
Þrenningarfjóla (Viola tricolor)
Risasól.
Blásól.
Kúluþistill.
Ólympíukyndill.