Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.11.1987, Síða 25

Læknablaðið - 15.11.1987, Síða 25
LÆKNABLAÐIÐ 375 NABLAÐIÐ THE ICELANDIC MEDICAL JOURNAL Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur 73. Árg. - NÓVEMBER 1987 AF LUNGNABÓLGU Lungnabólga er mikilvæg orsök veikinda og dauða (1) og er hin sjötta í röð algengustu dánarorsaka á íslandi (2). Sjúkdómurinn er algengur á lyfjadeildum sjúkrahúsa. Á árunum 1982-1985 vistuðust til dæmis að meðaltali um 100 sjúklingar á ári á lyflæknisdeild Borgarspítala með lungnabólgu af einhverju tagi sem meginsjúkdóm (3). Ekkert er hins vegar vitað um tíðni sjúkdómsins utan sjúkrahúsa, en álíta verður að hún sé allmikil. Sjúkdómurinn veldur því ýmsum þungum búsifjum á stundum, bæði einstaklingum og þeim er fjármagna heilbrigðisþjónustu. Oft er lungnabólga Iokastig langrar ævi eða erfiðs sjúkdómsferils. Þekkt eru ummæli William Oslers í kennslubók hans í lyflækningum: »Lungnabólgu má nefna vin hinna öldruðu. Dauðdagi úr þessum bráða, skammvinna og oft sársaukalausa sjúkdómi forðar gamla manninum frá ógn hrörnunar sem hann og fjölskylda hans óttast svo mjög« (4). Eftir tilkomu sýklalyfja var rannsóknum og klínískum umræðum um lungnabólgu nokkuð kastað fyrir róða, enda töldu sumir að sýklalyfin leystu þau vandamál er sýkingar ollu. Svo reyndist þó ekki eins og kunnugt er. Sýklalyf auk annarra nýjunga í greiningu og meðferð sjúkdóma hafa hins vegar breytt ásýnd lungnabólgu. Sjúklingar eru eldri en áður og líklegri til að hafa fyrir langvinna og alvarlega sjúkdóma. Lungnabólga hjá sjúklingum er liggja á sjúkrahúsum hefur orðið sérstakt vandamál. Einnig eru sýkingar og ekki síst lungnabólga hjá sjúklingum með brenglað ónæmiskerfi af ýmsum orsökum nær daglegt brauð á sjúkrahúsum. Þó að sýklalyf væru ekki endanlegt svar við lungnabólgu fremur en öðrum sýkingum, lækkaði dánartala mjög eftir tilkomu penisillíns. Hins vegar hefur dánartalan haldist nær óbreytt (10-25%) undanfarna tvo til þrjá áratugi þrátt fyrir tilkomu sýklalyfja með æ breiðara verkunarsvið (5). Rannsóknir undanfarinna áratuga á lungnabólgu hafa einkum beinst að orsakavöldum. Þó að meginorsök Iungnabólgu sem verður til utan spítala sé enn pnemókokkar hefur tíðni þeirra farið hlutfallslega minnkandi. Rannsóknir gerðar erlendis á árabilinu 1960-1970 leiddu í ljós að 60-70% lungnasýkinga utan sjúkrahúsa voru af völdum pnemókokka. I nýlegri rannsókn er hlutfallið undir 40% (6). Veirur hafa reynst vera mikilvægari orsök Iungnabólgu en áður var talið, einkum inflúensuveirur, parainflúensuveirur, adenoveirur o.fl. Mikilvægi Mycoplasma pneumoniae er löngu ljóst í þessum efnum, en ekki er nema rúmur áratugur síðan fjórða meginorsök lungnabólgu utan spítala, Legionella pneumophila, varð mönnum ljós. Ekki er vitað hvort um raunverulegar breytingar á tíðni sé að ræða í öllum tilvikum eða hvort þakka megi einungis bættum greiningaraðferðum. Vitað er þó að Legionella pneumophila hefur sennilega verið til lengi og rekja hefur mátt sjúkdóma af hennar völdum allt til ársins 1947 (7). Ýmsar aðrar mikilvægar breytingar á orsökum lungnabólgu hafa orðið á undanförnum árum. Með tilkomu alnæmis og fylgisýkinga þess, sérstaklega lungnabólgu af völdum Pneumocystis carinii, breytast viðhorf til alvarlegra öndunarfærasýkinga ungs fólks. Branhamella catarrhalis, sem áður var talinn saklaus sýkill, hefur nú haslað sér völl sem mikilvæg orsök loftvegasýkinga. Vægi hennar stafar ekki síst af því, að 85% stofna þessa sýkils framleiða P-laktamasa, sem veldur ónæmi gegn penisillíni, ampisillíni og skyldum lyfjum. Stafa af því nokkur vandamál þegar meðferðarlyf eru valin. Aðrar mikilvægar breytingar tengdar lungnabólgu lúta einkum að breytingum á ferli ýmissa þekktra sýkla. Til dæmis er Hemophilus influenzae ekki lengur sýkill bundinn börnum. Hann er orðinn allalgeng orsök lungnabólgu, sérstaklega í reykingamönnum með lungnaþan eða krónískan bronchítis. Á sama hátt er respiratory syncytial virus (RSV) nú þekkt orsök lungnabólgu í fullorðnum.

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.