Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.10.1993, Blaðsíða 13

Læknablaðið - 15.10.1993, Blaðsíða 13
LÆKNABLAÐIÐ 1993; 79; 305-11 305 Grétar Ólafsson, Kristinn Jóhannsson, Hörður Alfreðsson SKURÐAÐGERÐIR VIÐ TREKTARBRINGU ÁGRIP Aflögun á bringu er talin nokkuð algeng og oftast meðfædd, en algengi hefur ekki verið kannað á Islandi. Langalgengasta aflögunin er trektarbringa og samkvæmt könnun í London 1962 reyndist hún 7,90/00. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga þá sjúklinga, sem farið hafa í aðgerð á Landspítalanum vegna trektarbringu. Efniviður er fenginn úr sjúkraskrám handlækningadeildar og göngudeildar. Frá mars 1963 til ársloka 1990 voru gerðar 89 aðgerðir vegna aflögunar á bringu og af þeim var 61 við trektarbringu. Samkvæmt áliti skurðlækna voru 53 taldir hafa mikla trektarbringu en átta töluverða. Tuttugu og tveir sjúklinganna höfðu engin líkamleg einkenni fyrir aðgerð en 39 höfðu huglæg einkenni þar sem verkir og þreyta voru algengust. Hlutlæg einkenni voru fátíð og rannsóknir fyrir. aðgerð sýndu að einungis 14 höfðu minniháttar öndunarskerðingu og 12 minniháttar frávik frá eðlilegu hjartalínuriti. Aðeins í einu tifelli var hægt að sýna fram á öndunarbilun og alvarlega hjartabilun fyrir aðgerð. Aðgerðardauði var enginn. Aukakvillar voru nokkrir, sá helsti sýking í skurðsári hjá sex sjúklingum. Sjúkrahúslega var löng, eða yfir 14 dagar hjá 22 sjúklingum og frá sjö til fjórtán dagar hjá 39. Árangur aðgerða var góður að mati skurðlækna hjá 45, viðunandi hjá níu, lélegur hjá sex en í einu tilviki vantar upplýsingar í sjúkraskrá. Niðurstaða okkar er sú að hér sé fyrst og fremst um fegrunaraðgerð að ræða og því beri að sýna fyllstu íhaldssemi varðandi þær, enda eru þetta stórar aðgerðir, sem hafa í för með sér langa sjúkrahúslegu og hægfara bata. Frá brjóstholsaðgerðadeild Landspítalans. Fyrirspurnir, bréfa- skipti: Grétar Ólafsson brjóstholsaðgerðadeild Landspítalans, 101 Reykjavík. INNGANGUR Trektarbringa (pectus excavatum) er nokkuð algeng, og oftast talin meðfædd (1,2,4-6). Rannsókn gerð 1962 á 15.000 einstaklingum í London (3) gaf algengi trektarbringu 7,9°/00. Frá mars 1963 til ársloka 1990 var framkvæmd sextíu og ein aðgerð vegna trektarbringu á brjóstholsaðgerðadeild Landspítalans. Fleiri afbrigðum aflögunar á bringu er lýst, til dæmis fuglsbringu (pectus carinatum) og infalli á brjóstvegg öðrum megin eða beggja vegna (sem kallað hefur verið slöðurbringa). Við þeim aflögunum hafa verið gerðar tuttugu og átta aðgerðir á Landspítalanum á sama árabili en þær eru ekki hafðar með í þessari grein. Til að sýna slíkar aflaganir birtum við myndir af þeim. Myndir 1 og 2 sýna sjúkling með trektarbringu fyrir aðgerð og einu ári síðar. Mynd 3 sýnir sjúkling með fuglsbringu og mynd 4 sjúkling með slöðurbringu. Trektarbringu fylgja stundum líkamleg, og jafnvel geðræn vandamál (2,4). Skurðaðgerðir koma þá til greina.Trektarbringa er stundum talin geta þrengt að líffærum í brjóstholi, fyrst og fremst hjarta og lungum (8-10). Tilfærsla verður á hjarta til vinstri, með öxulsnúningi til hægri. Trektarbringa hefur af sumum verið talin orsök hjartabilunar og jafnvel skyndidauða, en aðrir telja að aldrei sé um slíkt að ræða og ef sjúklingur með trektarbringu sé hjartabilaður þá sé orsakanna að leita annars staðar (1). Aðgerðir eru þá fyrst og fremst vegna lýta. Það hefur verið skoðun höfunda að aðhyllast íhaldssemi varðandi þessar aðgerðir, og reyna að tala um fyrir viðkomandi eða aðstandendum hans, en ástæða er talin vera til aðgerðar ef sýnt er fram á líkamleg eða geðræn vandamál. Aðgerðum, sem hér er fjallað um, er skipt niður í þrjú tímabil og má þar sjá tilhneigingu okkar til að fækka aðgerðum vegna trektarbringu (mynd 5).

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.