Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.12.1993, Blaðsíða 21

Læknablaðið - 15.12.1993, Blaðsíða 21
LÆKNABLAÐIÐ 1993; 79: 393-401 393 Kristófer Þorleifsson, Brjánn Á. Bjarnason, Tómas Zoéga BRÁÐAÞJÓNUSTA Á GEÐDEILD ÁGRIP I rannsókninni voru skoðuð samskipti sjúklinga við bráðaþjónustu geðdeildar Landspítalans á árinul989 í þeim tilgangi að kanna eðli og umfang þjónustunnar, og bera saman við fyrri rannsóknir innlendar og erlendar. I ljós kemur að umfang þjónustunnar hefur aukist verulega borið saman við fyrri íslenskar rannsóknir. Hlutfall áfengis- og vímuefnasjúklinga hefur aukist frá þvf að vera 25% árið 1983, rúm 40% árin 1983- 1985 í tæp 62% á árinu 1989. Flestir komu aðeins í eitt skipti á árinu, en samtals komu 712 einstaklingar 1298 sinnum eða að meðaltali í 1,8 skipti. Tiltölulega lítill hópur kom oftar og síkomusjúklingar, sem koma fimm sinnum eða oftar, eru fáir eða um 5% af heildinni. Um 67% leita beint án tilvísunar lækna eða annarra, enda er þjónustan alltaf opin og aðgangur að henni greiður. Rúmlega fimmtungur þeirra sem leita til bráðaþjónustunnar þarfnast bráðrar innlagnar á gæsludeild, almenna geðdeild eða áfengisdeild. Rúmlega þriðjungur þeirra, sem haldnir eru öðrum geðsjúkdómum en áfengis- og vímuefnasýki, eru lagðir inn og einn sjöundi hluti áfengis- og vímuefnasjúklinganna. Þetta sýnir ljóslega hve alvarlega veikir þeir geðsjúklingar eru sem leita í bráðaþjónustuna. INNGANGUR Á síðustu áratugum hefur verið komið á fót bráðamóttöku fyrir þá sem haldnir eru geðröskun (mental disorder) í vaxandi mæli víðsvegar um heim (1-4). Á Islandi hefur hlutverk hennar fyrst og fremst verið að greina bráða geðröskun og veita nauðsynlega upphafsmeðferð. Sjúklingarnir hafa nýtt sér Frá geðdeild Landspítalans. Fyrirspurnir og bréfaskriftir: Kristófer Þorleifsson, geðdeild Landspítalans, Landspítalinn, 101 Reykjavík. þjónustuna í auknum mæli og fjöldi þeirra sem þangað leita hefur farið árvaxandi (1,4). Bráðamóttökur geðdeilda hafa ekki aðeins veitt nauðsynlega og dýrmæta þjónustu, heldur jafnframt skapað tækifæri og aðstöðu til rannsókna og kennslu um bráða geðröskun (5-9). Á íslandi hófst bráðaþjónusta geðdeilda formlega árið 1982 á geðdeildum Landspítala og Borgarspítala (8,9). Þjónusta hefur verið veitt allan sólarhringinn alla daga ársins. Öllum hefur verið heimilt að leita eftir þjónustu hvar svo sem þeir búa á landinu. Móttakan hefur verið opin og ekki verið krafist tilvísunar læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna. Þannig hafa einstaklingar leitað eftir hjálp og þjónustu, ýmist að eigin frumkvæði, fyrir áeggjan fjölskyldu/vina eða komið að tilvísan læknis, annarra heilbrigðisstarfsmanna eða lögreglu (8,9). Tvær rannsóknir hafa áður verið gerðar á notkun bráðaþjónustu geðdeilda á íslandi. Sú fyrri var gerð af Sigurgísla Skúlasyni og félögum (8) og náði hún yfir bráðaþjónustu geðdeilda Landspítalans og Borgarspítalans árið 1983. Síðari rannsóknina framkvæmdu Sigurður Páll Pálsson og félagar (9), spannaði hún þriggja ára starfsemi bráðaþjónustu geðdeildar Borgarspítalans, árin 1983-1985. I báðum rannsóknunum var hlutfall karla og kvenna sem leita í bráðaþjónustu svipað, 52- 54% kvenna og 46-48% karla, af þeim komu 25-35% vegna áfengis- og vímuefnavanda. Rannsóknin, sem hér er greint frá, er sú fyrsta sem eingöngu nær til starfsemi bráðaþjónustu geðdeildar Landspítalans. Síðan þjónustan hófst hefur aðsókn aukist jafnt og þétt úr 457 komum árið 1983 í 2357 árið 1992 (mynd 1). Til þess að athuga starfsemina nánar var árið 1989 valið.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.