Kjarninn - 10.10.2013, Blaðsíða 58
F
orsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð
Gunnlaugs son, minntist ekkert á loftslags-
breytingar í stefnuræðu sinni hinn 2. október – eða
svo virtist vera. Ég hjó þó eftir því á einum stað að
hann sá fyrir sér að á eyjunni okkar mætti skapa
fyrirmyndarríki meðal annars vegna legu hennar „í norðri, á
þeim stað á heimskringlunni sem stendur best að vígi þegar
litið er til breytinga í náttúrunni […].“
Breytinga í náttúrunni? Hvaða breytingar er hann að tala
um? Það er eins og hann sé hræddur við að nefna þær á nafn.
Það er eins og hann sé hræddur við að segja orðið loftslags-
breytingar. Ætli það sé ekki sveipað of neikvæðum blæ til að
fá að birtast í stefnuræðu forsætisráðherra. Sigmundur talaði
þannig ekki um loftslagsbreytingar en tókst samt einhvern
veginn að koma því til skila að Íslendingar myndu ekki verða
jafn illa úti og aðrar þjóðir þegar litið er til þessara breytinga
í náttúrunni. Var þetta kannski hans tilraun til jákvæðni, til
þeirrar bjartsýni og framsækni sem við kjósendur þráðum?
Hverju sem því líður finnst mér ljótt að hrósa happi yfir
óförum annarra og held að flestum þyki það raunar ósiður.
Því þætti mér vænna um að Sigmundur hefði metnað fyrir Ís-
lands hönd til þess að reyna að sporna við þessum breytingum
á lofthjúpi jarðar í stað þess að gorta af tilviljunar kenndri
yfirburðastöðu sem hann telur okkur hafa landfræðilega.
Það aulalegasta við þetta gort er samt sú staðreynd að þessi
fyrrnefnda „staða okkar á heimskringlunni“ undanskilur
okkur bara alls ekki frá slæmum áhrifum loftslags breytinga
þó svo að Sigmundur sjái nýjar siglinga leiðir um sundur-
bráðnaða íshellu norðurheimskautsins og meðfylgjandi
stórskipahafnir í hillingum síðar í ræðunni.
Ég ætla að skauta framhjá því hversu bjánalegt það er
að skoða loftslagsbreytingar ekki í hnattrænu samhengi og
tileinka mér sjónarhorn Sigmundar Davíðs í augnablik –
sjónar horn sem virðist snúa einungis að hagsmunum Íslands.
En þrátt fyrir að einblínt sé á Ísland er ómögulegt að komast
að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu jákvæðar. Hér
eru þrjár staðreyndir:
1. Súrnun sjávar vegna aukins kolefnisstyrks í andrúms-
loftinu hefur áhrif á vistkerfi hafsins og ætti því að vera mikið
áhyggjuefni fyrir fiskveiðiþjóð.
2. Einnig hækkar sjávaryfirborð vegna áhrifa loftslags-
breytinga á bráðnun heimskautaíss og jökla, sem er augljós-
lega uggvænleg þróun fyrir þjóð með mikla byggð við sjó.
3. Loftslagsbreytingar valda aukinni tíðni öfgakenndra
veðuratburða, auk þess sem breytingar í veðurfari geta
haft áhrif á ýmsar atvinnugreinar á landi. Má þar nefna
orku búskap, en „framleiðslugeta vatnsaflsvirkjana er mjög
háð veðurfari“ eins og segir í skýrslu vísindanefndar fyrir
Umhverfis ráðuneytið árið 2008.
Kannski veit Sigmundur þetta allt. Ef svo er láist honum að
horfast í augu við vandann – og honum er svo sem vorkunn,
okkur er öllum vorkunn – við virðumst öll eiga mjög erfitt
með að horfast í augu við loftslagsvandann þar sem við
keyrum um á bílunum okkar á hverjum degi. Svo væri líka
bara svo notalegt fyrir okkur, þessa „fátæku þjóð“, að fá að
bíða með að hugsa um loftslagsbreytingar örlítið í viðbót,
bara rétt þangað til við erum búin að gera heiðarlega tilraun
til þess að dæla upp olíunni fyrir norðan land.
Nei, það er gott að líta aðeins í eigin barm. Margir vilja
meina að almenningur verði að sýna frumkvæði í því að leysa
vandann og það er vissulega einhver sannleikur í því. Þetta
er hins vegar svo umfangsmikill vandi að það er ekki bara í
höndum almennings eins og oft er látið í veðri vaka. Það er
ekki nóg að kaupa umhverfisvæna dísilolíu af Olís. Reyndar
er alveg áreiðanlega ekki hægt að leysa loftslagsvandann með
því að versla – það er gott að hafa það bak við eyrað þegar
hin og þessi fyrirtæki reyna að selja manni vörur á þeim
forsendum að maður sé að bjarga heiminum með kaupunum.
Stjórnmálamennirnir okkar verða að fara að taka ákvarð-
anir til að sporna við loftslagsbreytingum. Við þurfum stórar
pólitískar ákvarðanir. Bindandi samkomulag allra þjóða um
minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda ásamt hugrekki al-
mennings til að takast á við þær efnahagslegu breytingar sem
þess konar niðurskurður mun valda.
Það er þó líkt og Sigmundur telji okkur einhvern veginn
vera stikkfrí í þessu öllu saman. Ísland er einhvern veginn
ekki hluti af heiminum í stefnuræðu forsætisráðherra.
Fyrirmyndar land Sigmundar Davíðs er einhverskonar fljót-
andi eilífðarvél úti í miðju Atlantshafi. Þetta getur auðvitað
virkað sannfærandi þegar maður skoðar hnattlíkan eða
landakort; vissulega eru mjög skýrar útlínur sem skilja Ísland
frá afganginum af heiminum. Það þarf þó kannski einhver að
minna Sigmund á að gróðurhúsalofttegundir, meðalhitastig
jarðar og veðurfar almennt lætur sig landamæri lítið varða.
Ég fékk samt á tilfinninguna þegar ég las ræðuna hans
Sigmundar að Ísland væri ekki stikkfrí þegar kemur að
loftslagsbreytingum einungis vegna þess að hann teldi þær já-
kvæðar fyrir okkar land, heldur líka vegna þess að hann teldi
okkur svo umhverfisvæn að við gætum einhvern veginn ekki
átt hlutdeild í þessu raski. Skoðum smá bút úr ræðunni:
„Ef við Íslendingar ætluðum að framleiða þá raforku sem
við framleiðum nú þegar á umhverfisvænan hátt en gera það
með brennslu kola þyrftum við að flytja inn og brenna hátt í
8,5 milljónir tonna af kolum árlega. Við þyrftum að brenna 26
tonn af kolum á hvern einasta Íslending á ári. 26 tonn á mann!
63 þingmenn þyrftu meira en 1.600 tonn fyrir sína hlutdeild
í raforkuframleiðslunni. Allur þessi salur — þótt hátt sé til
lofts — dygði ekki til að hýsa allt það kolamagn sem þyrfti að
brenna bara fyrir þessa 63.“
Hér dregur Sigmundur upp mynd af þingsal Alþingis
stútfullum af kolum. Hann málar mynd af kolsvörtum raun-
veruleika sem er órafjarlægur okkur Íslendingum því við
notum svo umhverfisvæna orku. Á móti dettur mér hins vegar
í hug að mála mynd af Alþingissalnum fullum af olíu en sú
olía væri ekki svo óraunveruleg. Þar væri komin olían sem
við flytjum inn í massavís fyrir bílana okkar og skipa flotann
og kannski mætti líka sjá þar biksvarta hráolíu laumast inn í
myndflötinn úr skínandi björtum draumum okkar Íslendinga
um svartagullið í hafinu þarna einhvers staðar í áttina að Jan
Mayen.
Þegar stjórnmálamenn standa frammi fyrir erfiðum
vandamálum eiga þeir eitt mjög gott vopn: orðið tækifæri.
Það felast nefnilega tækifæri í vandamálum og tækifæri eru
af hinu góða. Klókur stjórnmálamaður kann þannig að um-
breyta vandamálum í tækifæri. Sigmundur gerir þetta í lok
ræðu sinnar. Hann talar um tækifæri en honum tekst ekki að
kveikja hjá mér von. Hann talar um sátt við náttúruna en ég
trúi ekki orði. Hann talar um fyrirmyndarland en hefur láðst
að nefna á nokkrum stað í ræðu sinni hverjum við eigum að
vera fyrirmynd.
„Nú stöndum við, rúmlega 300 þúsund manna þjóð,
frammi fyrir tækifæri til að gera landið okkar að sann kölluðu
fyrirmyndarlandi, framfarasinnuðu landi þar sem hugað
er að velferð allra, þar sem auðlindir eru nýttar í sátt við
náttúruna og samheldið og hamingjusamt fólk lifir í öryggi
alla sína daga.“
Fyrirmyndar-
eyland?
Álit
Magnús Sigurðsson
Meistaranemi í
umhverfis- og auðlinda-
fræðum
01/01 kjarninn Álit
Kjarninn tekur á móti
aðsendum greinum. Ekki er
tekið við greinum lengri en
700 orð. Mynd af höfundi
verður að fylgja.
Sendið greinar á
ritstjorn@kjarninn.is