Morgunblaðið - 10.11.2011, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. NÓVEMBER 2011
minni og hún var svo ánægð með
hann. Ekki sakaði svo þegar í ljós
kom að Óli hafði unnið með föður
mínum á Ægi á námsárum sínum
og var ég látin bera kærar kveðj-
ur milli þeirra vinanna. Hjá Óla
lásum við Íslandsklukkuna og
Njálu og fengum þá eldskírn að
halda erindi fyrir bekkinn. Hann
fór með okkur í Selið þar sem
Galdra-Loftur var leiklesinn við
góðar undirtektir.
Um vorið sama ár bauð ungur
maður, Jón Jóhannes, mér út. Á
stefnumótinu uppgötvaði ég mér
til ánægju að hann væri bróðir
Óla. Mér fannst ég aftur vera
dottin í lukkupottinn. Ég var
hálffeimin þegar ég hitti Óla í
fyrsta fjölskylduboðinu. Feimnin
hvarf þó fljótt því að eitt af því
sem einkenndi mág minn var hve
auðvelt hann átti með að láta
fólki líða vel í návist sinni og láta
það finna að það væri velkomið.
Þess fengum við svo oft að njóta í
heimsóknum til hans og Dóru í
borg eða bústað.
Þá var gleðin við völd og alltaf
hægt að líta á björtu hliðarnar.
Við vorum heppin ef það var
glampandi sól, því að þá var hægt
að sóla sig og skoða sig um. Við
vorum alveg jafnheppin þegar
rigndi, því að þá var gott spila-
veður og notalegt að vera inni og
spjalla. Óli var góður sögumaður
með húmorinn í lagi. Viðstaddir
gátu tárast af hlátri þegar hann
sagði frá fyndnum atvikum og
óvenjulegum uppákomum. Þegar
við Jón vorum ungt par var vin-
sælt að fara til Óla, Dóru og
stelpnanna og fannst dóttur okk-
ar fátt skemmtilegra en að hitta
þær. Óli var blíður og barngóður
og gætti þeirra vel. Í fjölskyldu-
boðum bar Óli yngstu börnin á
höndum sér. Höfðu þau gott út-
sýni í fangi hans í öruggu sæti,
sérstöku taki sem fékk nafnið
Ólafstak. Þaðan var gaman að
skoða heiminn, fræðast, sýna sig
og sjá aðra.
Óli var nákvæmur og vand-
virkur í öllu sem hann tók sér fyr-
ir hendur. Honum var annt um
orðstír fjölskyldunnar og stéttar
sinnar og skrifaði ágætar blaða-
greinar um málefni kennara.
Varla er hægt að hugsa sér
vænni og traustari manneskju
sem betur átti skilið en Óli að
vera kallaður öðlingur og ljúf-
menni. Hann var hjálpfús og allt-
af hægt að leita til hans um að-
stoð. „Hann Óli er svo góður
drengur,“ var tengdamóðir mín
vön að segja, með áherslu á síð-
ustu orðin, en einstakt var
hversu natinn og elskulegur
hann var við móður sína. Frá
fermingaraldri var hann stoð
hennar og stytta þegar hún varð
ekkja með tvo yngri bræður Óla.
Síðustu árin sem hún lifði hringdi
Óli daglega til að fullvissa sig um
að allt væri í lagi.
Undanfarin ár og mánuðir
hafa verið erfiðir vegna vanheilsu
Óla en hann tók öllu sem á dundi
með æðruleysi og naut einnig
mikillar umhyggju Dóru, dætra
og tengdasona. Þau vöktu yfir
honum hverja stund síðustu vik-
urnar.
Nú er sorgin við völd. Þó
ganga þær saman gleðin og sorg-
in því að yndisleg Ólöf erfir nafn
afa síns og við brosum gegnum
tárin þegar við minnumst Óla
með ást og þakklæti svo gæfu-
söm að hafa átt hann að í lífinu.
Sólveig Jakobsdóttir.
Ólafur Oddsson er látinn eftir
langvinn veikindi. Góðir frændur
eru gulls ígildi. Það má með sanni
segja að hafi átt við um hann Óla
frænda minn. Við erum systkina-
börn. Afi okkar var Helgi Ingv-
arsson yfirlæknir á Vífilsstöðum
og amma okkar Guðrún Lárus-
dóttir. Óli frændi var fyrsta
barnabarn þeirra hjóna, en faðir
minn var 12 ára þegar Óli fædd-
ist. Þeir voru ávallt miklir mátar
og leituðu jafnan mikið hvor til
annars. Til marks um það þá
ávörpuðu þeir hvor annan ætíð
kæri frændi eða jafnvel bróðir.
Ég hafði ávallt mikla ánægju
af lestri blaðagreina eftir Óla
frænda, enda átti hann afar auð-
velt með að setja fram sín sjón-
armið, enda einstaklega lipur
penni og rökvís. Hann kom víða
við í sínum skrifum. Einkum
voru það greinar um mikilvægi
menntunar. Eftir hann liggja
líka áhugaverðar greinar um
umferðaröryggi þar sem titill
greinanna var kjarnyrtur og
grípandi: ,„Hildarleikur – á veg-
um úti“ eða „Hinn vitiborni mað-
ur – á vegum úti“. Þar rekur
hann að jafnvel þótt maðurinn
sem dýr flokkist sem hinn viti-
borni maður þá má efast um að
svo sé, þegar litið er til umferða-
menningar á Íslandi. Ennfremur
lét hann sig þjóðmál varða og
skrifaði greinar eins og: „Að
borga skuldir sínar“ eða „Hvers
virði er fullveldi Íslands?“ Þar
rekur hann að þótt verulegir erf-
iðleikar steðji að, þá megum við
sem þjóð ekki missa vonina og
setjast í volæði. Einnig má nefna
skrif hans um „Pólitísk réttar-
höld“ þar sem hann varar við of-
stækisfullum hugsunarhætti
svipað og gerðist á þeim sviplegu
tímum Íslandssögunnar þegar
galdrabrennur áttu sér stað.
Einn af virtustu mönnum
samtímans, Viktor E. Frankl,
skrifaði fyrir mörgum árum bók
um leitina að tilgangi lífsins.
Bókin kom út eftir dvöl hans í út-
rýmingarbúðum. Þar komst
hann að þeim niðurstöðum að til-
gangurinn með lífinu væri að
elska og vera elskaður, sýna
náungakærleika og láta gott af
sér leiða. Síðast en ekki síst, við
mótlæti eins og erfið veikindi, að
láta ekki bugast heldur halda
áfram ótrauður. Þetta allt átti við
um Óla frænda.
Hann var einstaklega farsæll í
starfi sem menntaskólakennari
svo og í einkalífi sínu með Dóru
eiginkonu sinni, börnum og
barnabörnum. Hann var afar
geðþekkur maður, jákvæður,
ráðagóður og laus við allt yfir-
læti. Hann var brosmildur og
spaugsamur en um leið afar
næmur og áhugasamur um það
sem var að gerast bæði í sam-
félaginu, hjá frændfólki og vin-
um nær og fjær. Það var gott að
leita til hans og hann lagði ávallt
vel til mála. Greinar sem hann
var að skrifa um svipað leyti og
heilsu hans hrakaði bera vott um
mikinn náungakærleika og vilja
til að láta gott af sér leiða. Enn-
fremur bera þær klárlega merki
manns sem ekki lætur bugast
þótt á móti blási og vill berjast
fyrir bættu samfélagi fram á síð-
ustu stundu.
Ég mun sakna Óla frænda
míns, skrifanna, en umfram allt
mannsins sjálfs. Ég votta Dóru
og öðrum aðstandendum inni-
lega samúð. Missir þeirra er
mikill, en það er huggun harmi
gegn að góðar minningar lifa.
Helgi Sigurðsson, prófessor
í krabbameinslækningum.
Óli var elsta barnabarn ömmu
og afa á Vífilsstöðum og aðal-
fulltrúi okkar kynslóðar á staðn-
um þegar ég man fyrst eftir mér
og fór að venja þangað komur
mínar ásamt jafnöldrum mínum
úr krakkaskaranum. Óli hafði
það forskot að hafa búið um tíma
á Vífilsstöðum og var þar öllum
hnútum kunnugur. Hann tengdi
líka með nokkrum hætti kynslóð-
ir, því hann var leikfélagi Júlíu
föðursystur minnar meðan hún
lifði, en minning hennar var afar
sterk í fjölskyldunni. Óli var góð-
ur og traustur og taldi skyldu
sína að líta eftir okkur píslunum,
að minnsta kosti meðan við lét-
um sæmilega að stjórn. Jafnvel
þegar það brást, skipti hann
aldrei skapi. Hann var afar
hændur að ömmu og afa. Ástúð
þeirra og umhyggju endurgalt
hann ómælt þegar hann bjó við
hliðina á þeim á Lynghaganum
síðustu árin sem þau lifðu. Þá var
hann óþreytandi að aðstoða þau
þegar á þurfti að halda og keyra
með þau út um allar trissur.
Óli frændi var mikils metinn
kennari í MR, vandvirkur fræði-
maður og það sem mest er um
vert, einstakur gæfumaður í
einkalífi og átti samhenta og
hamingjusama fjölskyldu. Það
vakti aðdáun hvernig Dóra og
dæturnar studdu hann í erfiðum
veikindum síðustu árin. Slík um-
hyggja heldur lífsanda og lífsvilja
í manneskjunni lengur en nokkuð
annað. Missir þeirra er mikill og
við Markús sendum þeim innileg-
ar samúðarkveðjur.
Júlía G. Ingvarsdóttir.
„Nei sko, er hún ekki komin,
frænkan frá Ameríkunni,“ var
Ólafur Oddsson, föðurbróðir
minn, vanur að segja þegar ég
kom í heimsókn til Íslands á
sumrin. Svo spurði hann frétta af
því helsta sem væri að gerast
vestanhafs og vildi yfirleitt fá
leiðsögn um málfar og framburð
á ýmsum amerískum orðatiltækj-
um, mér til mikillar kæti.
Óli frændi átti stóran þátt í því
að æskusumrin á Íslandi voru
ávallt bæði skemmtileg og eftir-
minnileg. Alltaf var hann
reiðubúinn að fara með okkur
frænkurnar í sund, á hestbak og í
alls konar ferðalög. Hann lagði
sig fram um að fræða okkur um
heimalandið en hlutirnir voru
ekki alltaf sambærilegir á Íslandi
og í Bandaríkjunum. Eitt sinn fór
hann til dæmis með okkur til
Bessastaða til að sýna okkur hvar
forseti Íslands ætti heima. Þar
hélt yngri systir mín því hneyksl-
uð fram að þetta hlyti nú að vera
sumarbústaður forsetans, Óla til
mikillar skemmtunar.
Reyndar voru sumarbústaða-
ferðirnar með Óla og fjölskyldu
hans mikið tilhlökkunarefni. Mér
er sérstaklega minnisstæð ein
ferð þegar ég hafði komið ein til
Íslands en fjölskylda mín varð
eftir í Bandaríkjunum. Afi og
amma í móðurætt höfðu keyrt
mig upp í bústað nálægt Laug-
arvatni og ætluðu að gista þar
eina nótt í tjaldi en leggja svo af
stað aftur til Reykjavíkur
snemma næsta dag. Þá nótt lá ég
lengi andvaka með mikla heimþrá
og ákvað loks að laumast út í tjald
til að biðja afa og ömmu um að
fara með mig strax aftur í bæinn
svo ég gæti tekið næsta flug úr
landi. Óli frændi virðist þó hafa
orðið var við eitthvert þrusk
frammi á gangi en þegar hann
kom fram var ég að klæða mig í
stígvélin. Þegar ég trúði honum
fyrir áformum mínum tók hann
því með sinni stóísku ró og sagð-
ist skilja það allt saman mjög vel.
Hann taldi þó ráðlegt að ég fengi
mér eitthvað í svanginn áður en
ég legði í slíka langferð. Ég lét til-
leiðast en á meðan ég borðaði
sagði Óli mér sögur frá því þegar
hann var drengur. Auk þess tal-
aði hann um allt það skemmtilega
sem hægt væri að gera á sum-
arbústaðasvæðinu. Við áttum
þarna mjög góða stund saman og
að lokum urðum við sammála um
að best væri að bíða til morguns
með að skipuleggja heimferðina.
Þegar ég skreið aftur upp í rúm
var heimþráin horfin og tilhlökk-
unin ein sat eftir. Ég varð auðvit-
að eftir uppi í bústað og átti stór-
skemmtilegt frí með frændfólki
mínu.
Óhætt er að segja að Ólafur
Oddsson hafi búið yfir ótrúlegri
manngæsku, hlýju, húmor og
skynsemi auk ótal annarra kosta.
Fjölskyldan á svo sannarlega eft-
ir að sakna hans sárt.
Jóhanna Jónsdóttir.
Föðurbróðir minn, Ólafur
Oddsson, hefur kvatt þennan
heim, og eftir stöndum við sem
þekktum hann. Efst í huga er
óneitanlega þakklæti, þakklæti
fyrir allar góðu stundirnar sem
við áttum saman og þakklæti fyr-
ir að hafa átt frænda eins og
hann.
Ég á margs að minnast þegar
ég hugsa til Óla, enda vorum við
Helga, dóttir hans, óþreytandi í
að leika okkur saman þegar við
vorum yngri, og á ég því margar
minningar af frænda mínum.
Minningarnar um Óla eru allar
ljúfar enda var hann mér alltaf
einstaklega góður. Síðustu daga
hef ég verið að rifja upp þessar
minningar og ranka ég oftar en
ekki við mér, sitjandi yfir börn-
unum eða í bílnum á rauðu ljósi,
með bros á vör yfir góðri minn-
ingu.
Ég man eftir ófáum ferðum út
á land á fína Subaro-bílnum, í
sumarbústaði eða bara í bíltúr, og
var Óli óþreytandi að segja okkur
nöfnin á fjallatindunum sem bar
fyrir augu og oft slæddust ýmsir
skemmtilegir sagnfræðimolar
með í frásögninni. Mér finnst ég
hafa verið lánsöm að fá að alast
upp í svona miklum samvistum
við hann.
Óli frændi var alltaf tilbúinn til
að gera allt fyrir okkur frænd-
systkinin og man ég til að mynda
eftir ótalmörgum sundferðum í
allar sundlaugar höfuðborgar-
svæðisins. Okkur fannst mest
gaman að komast í stórar vatns-
rennibrautir og Óli keyrði glaður
margfalt lengri leið dag eftir dag
bara til að gleðja okkur. Það lýsir
honum svo vel, hann var svo
hjartahlýr og alltaf tilbúinn að
gleðja aðra.
Elsku Dóra, Helga, Gunna,
Anna Kristín og fjölskyldur, ykk-
ar missir er mikill. Megi minn-
ingin um góðan dreng styrkja
ykkur í sorginni.
Guðrún Pálína Helgadóttir.
Nú er farinn frá okkur sæmd-
armaðurinn Ólafur Oddsson,
menntaskólakennari, eftir veru-
leg veikindi í allnokkur ár.
Ólafur ólst upp í Reykjavík hjá
móður sinni, skörungskonunni og
skólastýrunni Guðrúnu P. Helga-
dóttur, og stjúpföður, Jóni Jó-
hannessyni prófessor (d. 1957),
en honum bar Ólafur hið besta
orð. Undirritaður kynntist Ólafi
fyrst er hann settist í deild ís-
lenskra fræða í Háskóla Íslands
haustið 1963. Hann vakti þar
strax athygli, ekki aðeins vegna
myndarlegs líkamsvaxtar heldur
ekki síður vegna góðra náms-
hæfileika, ljúfrar framkomu og
gamansemi. Við vorum svo sam-
ferða um deildina í sjö ár og luk-
um prófum sama árið, 1970, báðir
með Íslandssögu sem aðalgrein.
Félag stúdenta í deildinni, Mímir,
var ekki mjög fjölmennt á þess-
um árum en hins vegar verulega
virkt. Við Ólafur vorum saman í
stjórn félagsins 1966-67 ásamt
Jóni Sigurðssyni, síðar skóla-
meistara á Bifröst, og var Ólafur
formaður. Þá var haldin 20 ára af-
mælishátíð félagsins og gefið út
hátíðarblað með sögu þess eftir
félaga okkar Aðalstein Davíðs-
son.
Við Ólafur urðum fljótt býsna
miklir mátar og brölluðum ýmis-
legt saman, þó að uppruni okkar
væri ólíkur, svo og ýmsar skoð-
anir og útlit jafnvel líka. Ég kom
alloft heim til hans í móðurgarð-
inn á Aragötu. Vorið 1968 var
tveimur íslenskum sagnfræði-
nemum boðið að taka þátt í nám-
skeiði fyrir norræna sagnfræði-
stúdenta í Hörsholm sem er
skammt norðan við Kaupmanna-
höfn. Við Ólafur völdumst til far-
arinnar. Þarna vorum við líklega í
rúmlega hálfan mánuð, og af hin-
um stúdentunum kynntumst við
Finnunum best og töldum okkur
ásamt þeim mynda hóp lýðveld-
issinna meðal þessara norrænu
námsmanna, hitt væru konungs-
sinnar. Nefna má að seinna, um
1972, bauð Ólafur mér í jeppaferð
með sér norður Sprengisand og
suður Kjöl, mjög vel heppnaða og
eftirminnilega. Saman fórum við í
fleiri ferðir innanlands.
Að námi loknu hóf Ólafur strax
íslenskukennslu við Menntaskól-
ann í Reykjavík og þar ílentist
hann. Hann var mjög náinn sam-
starfsmaður Guðna Guðmunds-
sonar rektors í mörg ár og að-
stoðaði hann á ýmsan hátt. Til
greina kom um 1994 að Ólafur
tæki við af honum, enda orðinn
nákunnugur stjórn skólans, en af
því varð ekki. Ólafur hefði valdið
starfinu vel sökum myndugleika
síns, sanngirni og glöggrar yfir-
sýnar, en vissulega kom fleira
hæft fólk til greina. Á þessum ár-
um fékkst ég líka við stjórnun á
framhaldsskólastigi og heimsótti
þá stundum Ólaf og fjölskyldu
hans í Reykjavík, en þar var
ávallt gestrisni í fyrirrúmi. Ég
leitaði til hans um góð ráð varð-
andi skólastarfið, sem voru veitt
af mikilli vinsemd. Mestan áhuga
fannst mér hann ætíð sýna ís-
lenskukennslunni, enda hans að-
alstarf. Einu sinni heimsótti Ólaf-
ur mig gagngert, kom þá einn
akandi til Ísafjarðar og stóð við
líklega í 2-3 nætur, þetta var sum-
arið 1990. Ég held að við höfum
jafnvel farið saman í berjamó
vestra.
Við Anna kona mín sendum
Halldóru Ingvadóttur og dætrun-
um innilegar samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Ólafs Odds-
sonar.
Björn Teitsson.
Kveðja frá Menntaskólanum
í Reykjavík.
Ólafur Oddsson hóf kennslu í
Menntaskólanum í Reykjavík ár-
ið 1970. Hann kenndi íslensku við
MR allan sinn starfsferil, sem
varð alllangur en Ólafur var í
rúma fjóra áratugi starfsmaður
skólans. Að ósk skólans veitti
hann allumfangsmikla aðstoð við
félagslíf nemenda, og er þar átt
við útgáfumál, ræðukeppni ýmiss
konar, bókmenntakynningar,
nemendaferðir á söguslóðir
Njálu, dansleiki og margt fleira. Í
rúma tvo áratugi aðstoðaði Ólafur
við stjórnun. Þetta fólst ma. í eft-
irliti í tveimur húsum skólans og
ráðgjöf í ýmsum erfiðum málum.
Í 14 ár sinnti hann prófstjórn í
skólanum og var deildarstjóri í ís-
lensku í mörg ár. Á haustmisseri
1996 gegndi hann starfi konrekt-
ors. Fjölmörgum aukastörfum
sinnti Ólafur utan skólans og flest
lutu þau að íslensku málfari.
Hann vann um hríð í skrifstofu
Alþingis, ýmis störf vann hann
fyrir bókaforlög og mörg handrit
las hann yfir frá fjölmörgum höf-
undum. Að ósk Íslenskrar mál-
nefndar vann Ólafur ýmis störf á
hennar vegum. Hann var t.a.m.
um skeið ráðunautur Orðanefnd-
ar rafmagnsverkfræðinga við
gerð íðorðasafna og nýyrðasmíð.
Auk þess vann hann sem ís-
lenskufræðingur fyrir Hið ís-
lenska bókmenntafélag, Reykja-
víkurborg, Landsvirkjun, nokkur
ráðuneyti o.fl. Hann flutti á annað
hundrað þætti í Ríkisútvarpinu,
einkum um málfarsleg efni. Allir
þættir Ólafs báru vitni um vand-
virkni hans og fékk hann lofsam-
lega dóma um þá. Hann gegndi
ýmsum trúnaðarstörfum, var ma.
formaður í stjórn Félags kennara
við Menntaskólann í Reykjavík
og sat um skeið í fulltrúaráði
HÍK.
Í kennarastarfi sínu beitti
Ólafur sér fyrir töluverðum
breytingum á námsefni í íslensku
í MR og reyndi þannig að stuðla
að farsælli þróun í þeim efnum.
Hann samdi allmikið efni sem
notað hefur verið í MR og víðar. Í
samstarfi við Braga Halldórsson
og Knút Hafsteinsson samdi
hann kennslubókina Orminn
langa. Síðasta ritið sem Ólafur
gaf út nefnist Gott mál en í því
eru ábendingar um algengar rit-
villur og leiðbeiningar um hvern-
ig setja skal fram efni með skýr-
um og vönduðum hætti. Þetta
uppflettirit er afar gagnlegt og
mikið notað.
Ólafur naut mikillar virðingar
nemenda og samstarfsmanna
sinna á löngum ferli. Öll verkefni
leysti hann af stakri nákvæmni og
umhyggjusemi. Ég naut ómetan-
legrar aðstoðar Ólafs við mörg
álitamál. Síðustu starfsár sín við
skólann tók hann að sér að lesa
yfir skólaskýrslur og undirbúa
þær til birtingar. Þar kom glögg-
lega í ljós þolinmæði hans og
vandvirkni. Ólafur var góður fé-
lagi í hópi samstarfsmanna sinna
og oft var glatt á hjalla á góðum
samverustundum.
Ólafur var góður vinur minn,
einstaklega hjartahlýr og það var
ávallt gott að leita ráða hjá hon-
um. Samstarf okkar hefur verið
afar farsælt. Ólafur var traustur
og mjög samviskusamur. Hans er
hér minnst með virðingu og þakk-
læti fyrir einkar vel unnin störf.
Fyrir hönd starfsfólks og nem-
enda Menntaskólans í Reykjavík
eru eiginkonu hans, dætrum og
öðrum vandamönnum færðar
innilegar samúðarkveðjur. Bless-
uð sé minning Ólafs Oddssonar.
Yngvi Pétursson.
Ég vissi deili á Óla strax og
menntaskólaárin gengu í garð.
Ég var nýkomin úr Kvennaskól-
anum þar sem Guðrún Pálína
móðir hans réð ríkjum, sú merka
kona sem hafði leitt okkur um
heim Gunnarshólma og annarra
undraheima ljóðlistarinnar. Þær
stundir voru mér ógleymanlegar.
Við Ólafur vorum bæði í mála-
deild, hann lengst af í B-bekkn-
um, ég í C-bekknum. Þessir tveir
bekkir voru eins og tvíeyki og
gerðu margt saman. Á áratuga
sameiginlegum kennsluferli okk-
ar í Menntaskólanum í Reykjavík
þreyttumst við aldrei á að rifja
upp gömlu góðu stundirnar okkar
þar. Allar voru þær minningar
ljúfar og skemmtilegar og báru
með sér áhyggjuleysi og bjart-
sýni ungs fólks á vori lífsins. Við
þrælfullorðnir kennararnir hlóg-
um að okkar fornu fræðurum og
sérvisku þeirra, við minntumst
yndislegra stunda í Selinu, með
ógleymanlegum kvöldvökum við
söng og dans. Þar sváfu stelpurn-
ar uppi, strákarnir niðri og kenn-
ararnir, Valdimar og Eiríkur, í
stiganum til þess að gæta alls vel-
sæmis. Uppáhaldsminningin okk-
ar var þó dramatíkin kringum
jólaprófin í 3. bekk sem voru allt í
einu komin í dreifingu niðri á
Skalla mörgum klukkustundum
áður en þau voru lögð fyrir. Já,
okkar eigin nemendur hefði sjálf-
sagt oft þegið að vera fluga á
vegg þegar við Óli fórum á kost-
um í nostalgíunni.
Samkennarinn Ólafur var ljúf-
ur maður. Alltaf lagði hann gott
til málanna, hafði skoðanir og
fylgdi þeim eftir ef það gat orðið
skólastarfinu til hagsbóta. Skól-
inn okkar var honum afar kær og
hann vildi veg hans sem mestan.
Ólafur hafði einstaklega góða
nærveru og var vel látinn bæði af
nemendum og samstarfsfólki. Ég
varð þeirrar ánægju aðnjótandi
að kenna dætrum hans sem voru
stolt hans og yndi og á seinni ár-
um ræddum við oft ættfræðina og
allt sem henni tengist.
Árið 2006 fékk ég hann til þess
að halda erindi hjá Ættfræði-
félaginu um afa sinn og ömmu,
Helga og Guðrúnu á Vífilsstöð-
um, og birtist það erindi síðar
sem grein í Fréttabréfi Ætt-
fræðifélagsins. Ólafur var þakk-
látur stundunum sem hann átti
með afa sínum og ömmu á Vífils-
stöðum og sagðist hafa búið að
því veganesti alla tíð.
Nöfn ættarinnar voru honum
afar kær og hann var stoltur af
því að yngri dóttir hans, Helga
Guðrún, bar nöfn afa hans og
ömmu en eldri dóttirin móður-
nafnið hans, Guðrún Pálína. Það
var honum líka einstakt ánægju-
efni að Júlía litla, dótturdóttir
hans, ber nafn Júlíu langömmu
hans og Júlíu frænku hans sem
hann sá á eftir ungri í gröfina.
Það var stoltur afi sem kom
með dæturnar þrjár og barna-
börnin á jólaskemmtanirnar í
menntaskólanum ár hvert. Ham-
ingjan skein úr hverjum drætti.
Síðustu ár voru Ólafi erfið.
Hann stóð þó meðan stætt var,
oft meira af vilja en mætti. En
skólinn var honum áfram hjarta
SJÁ SÍÐU 26