Helgafell - 01.03.1942, Side 50
36
HELGAFELL
eða félagslegar hreyfingar Danmerkur. Að vísu átti hann jafnan miklum vin-
sældum að fagna meðal verkalýðsins, en hann skildi aldrei frelsishreyfingu
hans. Hann hafði samúð menntamannsins og háskólaborgarans með hinum
snauða fjölda, en hann hafði enga trú á, að verkamenn hefðu sögulegt hlut-
verk að vinna eða gætu afrekað nokkuð af sjálfsdáðum. Persónulega stóð
hann um stund næst flokki Vinstri manna og var í allnáinni samvinnu við
Hörup, foringja þeirra, er djarfast barðist gegn Estrupstjórninni. En
Brandes varð aldrei vinstri maður. Hann aðhylltist engan stjórnmálaflokk.
Hann sagði einu sinni á kjósendafundi, að hann efaðist um, að hann væri
lýðræðissinni. Brandes studdist aldrei við flokk eða stétt. Hann var ósvik-
inn háskólaborgari — academicus — á 19. aldar vísu, haldinn ekki litlum
hroka gagnvart múginum- Þess vegna hékk frelsishreyfing hans í lausu lofti.
Hún átti sér ekki grundvöll í þjóðfélagslegum samtökum, og henni var ekki
ætlað að endurleysa fjöldann. Þegar öllu var á botninn hvolft, var frelsishug-
tak Brandesar nær eingöngu bundið einstaklingshyggju hans. Og því var það,
að hann leitaði til mikilmenna sögunnar, er hann týndi trúnni á múginn og
lýðræðið á síðustu áratugum 19. aldar. Frelsisdýrkun hans varð hetjudýrk-
un, sem hann hefur túlkað í fjölda rita um Holberg, Shakespeare, Voltaire,
Michael Angelo o. fl. Um hetjurit Brandesar má hafa þau orð, er Montaigne,
hinn mikli húmanisti Frakklands á 16. öld, sagði um bækur sín sjálfs: Je
suis moy mesme la matiére de mon livre. (Eg er sjálfur efni bókar minnar).
Brandes flúði flatneskju samtíðar sinnar og leitaði uppi hina hávöxnu Ein-
búa sögunnar, sem hann taldi sér skyldasta. 1 samfélagi þessara manna undi
hann sér bezt. Þangað sótti hann þrjózkuna og kraftinn til að bera hin löngu
elliár í þeim heimi, sem í flestum efnum gekk í berhögg við þær hugsjónir, er
hann hafði ungur játazt og aldrei brugðizt.
Sverrir Kristjánsson.
FRÁ RITSTJÓRNINNI
Grein Barða Guðmundssonar þjóðskjalavarðar í þessu hefti er hin
fyrsta af fjórum eða fleirum í greinaflokki, er birtast mun allur í
þessum árgangi Helgafells. Næsta grein kemur í apríl-heftinu. I því
hefti mun einnig birtast langt kvæði eftir Stefán frá Hvítadal, áður
óprentað, og telur ekkja hans það síðasta ljóð hans. I sama hefti
verður og mjög athyglisverð grein eftir Jóhann Sœmundsson lækni,
saga eftir Guðm. Gíslason Hagalín, auk margs annars.
Léttara hjal mun verða aukið þegar í því hefti, enda er það ætlun
Hclgafells, að færa nokkuð út kvíar þeirrar deildar sinnar, og viljum
við mælast til, að lesendur tímaritsins leggi þar orð í belg í stuttu
máli, lausu og bundnu. Bréf eða greinar, sem ætlaðar eru Léttara
hjali, mega þó ekki fara fram úr 200 orðum að jafnaði.