Morgunblaðið - 21.11.2012, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 21.11.2012, Blaðsíða 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. NÓVEMBER 2012 Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Svona er þörfin fyrir að tjá sig. Þetta var aldrei hugs- að sem bók en einhverjir stungu upp á því,“ segir Óli Ágústar þegar hann er spurður út í nýja bók sína, Litlatré. Í nokkur ár skráði Óli dagbókarfærslur á heimasíðu sína; ljóðrænar, íhugular og persónulegar hugleiðingar sem endurspegla líf og tilveru Óla og Ástu eiginkonu hans, í borginni en ekki síst í sumar- húsinu sem þau nefna Litlatré eftir persónu í bók sem þau hrífast af. Í færslunum lítur Óli stundum aftur í tímann en kynni af öðrum, bækur og lestur, trjárækt og margt annað kemur við sögu í þessum hugleið- ingum. Óli var á sínum tíma verkstjóri hjá Ístaki en gegndi síðan stöðu forstöðumanns Samhjálpar í meira en tvo áratugi. Hann settist í helgan stein fyrir átta árum og tók þá að skrifa. „Kona mér ókunnug sagði um bókina að hún bæri í sér sannleikann um gildi þess smáa. Það er ekki galið,“ segir Óli þegar hann er spurður út í verkið. „En þegar maður er settur af í vinnu þá lítur maður sér nær. Maður situr kannski úti í móa og fer þá að sjá móann í allt öðru ljósi en öll árin þegar tilveran var puð og tuð. Þannig var þetta. Ég hef þörf fyrir að tjá mig og fór að tala við móann, og að rifja upp eitthvað gamalt og setja í orð. Það er ekkert skrýtið ef maður hefur verið vinur orða gegnum lífið. Það hef ég verið alveg frá blautu …“ Lesandinn kynnist ekki síst lífi hjónanna í Borgar- firðinum. „Þetta með Borgarfjörðinn er þannig að árið 1951 – sjáðu hvað ég er orðinn gamall! – þá hittumst við þar á sveitabæ ég og konan mín. Þá vorum við börn en við erum ennþá saman. Borgarfjörður var ramminn utan um okkur þegar ástin kviknaði, og þú veist hvernig allt verður grænna á svoleiðis dögum, og himinninn blárri. Seinna fengum við tækifæri til að gera okkur pínulítinn kofa uppi í Borgarfirði og mikið af þessu hjali í pistl- unum er bundið við þann stað. Ég er mikil aðdáandi Kiljans. Eftir að hafa verið í trúboði í 22 ár gerði ég eins og Stone P. Stanford í Paradísarheimt Kiljans þegar hann sneri aftur heim; hann fór að raða steinum en ég fór að raða setningum í móana. Nú höfum við haft þetta hús, Litlatré, í Borgarfirði í tíu ár og höfum eytt þar mörgum yndislegum stundum, án þess að láta verðbólguna eyðileggja það mikið.“ Óli segist lengi hafa unnað orðum. Margir kafla bók- arinnar eru á einn eða annan hátt um bækur, höfunda og lestur. „Við hjónin lesum. Ásta gefur mér ekkert eftir í því. Við lesum og lesum, og sitjum og spjöllum um bækur og texta, og mun á textum. Þau tuttugu ár sem ég var í trúboðinu las ég reynd- ar nær ekkert nema texta um trúmál og tengd fræði og það sem að því snýr, en áður áttum við okkur eft- irlætis rithöfunda og ljóðskáld. Þegar við hættum að starfa við trúboð fann ég glóðina aftur í bókunum.“ Óli segist ekki geta neitað því að þetta verk sé óður til lífsins. „Þar sem þú verður ástfanginn þar kviknar ljós á hverju strái og þegar maður hugsar til baka til þess, þá kemst maður í nostalgíu. Grikkir sögðu orðið nost- algíu merkja heimþrá, hugsa til baka. Það er eðlilegt að maður hugsi aftur til þeirra tíma sem kannski voru þeir bestu í lífinu, þegar ástin greip mann heljartökum. Það er lítið varið í lífið án ástar, sýnist mér!“ Og það er lífsþorsti í þessari bók. „Kannski er hún einskonar ástarjátning.“ Lítið varið í líf án ástar  Í bókinni Litlatré birtast hugleiðingar Óla Ágústar um lífið Morgunblaðið/Kristinn Höfundurinn „Kona mér ókunnug sagði um bókina að hún bæri í sér sannleikann um gildi þess smáa,“ segir Óli. Sigurþór Jakobs- son myndlistar- maður heldur um þessar mundir upp á merkis- áfanga, hálfrar aldar starfs- afmæli með lista- gyðjunni. Í tilefni afmælisins hefur Sigurþór opnað sýningu á vinnu- stofu sinni og kallar hana „Veiði- daga“. Gestum og gangandi er boðið að líta inn á vinnustofu Sigurþórs, skoða verkin og ræða við lista- manninn. Vinnustofan er á Skóla- vörðustíg 1A, 3. hæð. Sigurþór Jakobsson Sigurþór opnar vinnustofuna Var Emily Dickinson víðáttu-fælin, sjúklega hrædd viðað fara að heiman? Fórhún í felur til að leyna því að hún væri haldin flogaveiki (sjúk- dómi sem mörgum samtímamönnum hennar þótti skömm að)? Var hún með asperger-heilkennið, eða ódæmigerða einhverfu? Var hún lesbía, ástfangin af mágkonu sinni? Þessum spurningum verður aldrei svarað. Það er ekki hægt að svara því í eitt skipti fyrir öll hvers vegna Dickinson giftist aldrei (ólíkt flestum samtímakonum hennar) og einangr- aðist nær algjörlega frá öðru fólki. Þegar öllu er á botninn hvolft var hún einstök kona, með einstaka skáldgáfu á merkilegu tímabili í sögu mannsandans. Ljóð hennar eru líka einstök og hún er nú talin eitt af al- bestu skáldum Bandaríkjanna á 19. öld. Emily Elizabeth Dickinson (1830- 1886) bjó nánast alla ævina í smá- bænum Amherst í Massachusetts. Hún orti nær 1.800 ljóð en „birti ekki eftir sig nema tíu ljóð svo vitað sé meðan hún var lífs“, eins og fram kemur í fróðlegum inngangi Hall- bergs Hallmundssonar að þýðingum hans á ljóðum eftir Dickinson. Þýð- ingarnar voru fyrst gefnar út 1994 en hafa nú verið endurútgefnar. Í ljóðum sínum og bréfum lagði Dickinson stundum áherslu á mikil- vægi vináttunnar. Samt girti hún sig af og einangraði sig æ meira frá öðru fólki þegar hún nálgaðist þrítugt. Þegar hún var á fertugsaldri var svo komið að hún umgekkst aðeins nán- ustu ættingja sína og samskipti hennar við örfáa útvalda vini fólust nánast eingöngu í bréfaskiptum. Hún vissi að góð girðing er granna sættir. Án þessarar góðu girðingar hefðu ljóð hennar að öllum líkindum aldrei orðið eins og þau eru. Ljóð hennar þóttu mjög nýstárleg þegar þau komu loks út og fóru fyrir brjóstið á sumum bókmenntapáfum sem fettu fingur út í málfræðivillur og brot hennar á rímreglum. Nýstárleiki Dickinson fólst m.a. í frumlegum bragarháttum, mikilli notkun á þankastrikum, auk nýstár- legs myndmáls. Í ljóðunum notaði hún rím og hálfrím en stundum sleppti hún alveg rími. Fyrstu útgef- endunum þótti reyndar nóg um og þeir breyttu mörgum ljóðanna til samræmis við viðteknar reglur. Löngu síðar voru ljóðin birt óbreytt. Hallberg Hallmundsson var af- burðagóður þýðandi, orðhagur ís- lenskumaður með mikla þekkingu á ensku og eftir hann liggja vandaðar þýðingar á ljóðum eftir mörg af bestu skáldum enskrar tungu, m.a. Walt Whitman og Edgar Lee Mast- ers. Þýðingar hans á ljóðum Dickin- son eru þó miklu síðri. Ástæðan er sú að þýðandinn ákvað að færa ljóð Dickinson í bundið mál, með stuðlum og höfuðstöfum. Þegar vel tekst til getur útkoman verið glæsileg en þegar á heildina er litið tapast of mikið af merkingu frum- textans í þýðingunni. Dickinson er of þröngur stakkur skorinn. Ljóð Dickinson geta verið óræð og torskilin en enn torveldara er að skilja sum kvæðin í þýðingunni vegna þeirrar óþörfu kvaðar að troða inn stuðlum og höfuðstöfum. Í þýðingunni eru stundum notuð sjaldgæf orð úr skáldamáli þegar Dickinson notar algeng orð. Til að mynda bregður þýðandinn á það ráð að nota orðið „stá“ (tökuorð sem rímnaskáld notuðu, d. stå) í staðinn fyrir „standa“ vegna þess að „stár“ rímar við „nár“. Þýðandinn notar einnig illskiljan- leg orð á borð við „votekin andlit“ í merkingunni „lömuð andlit“ og „geir- rikti“ (gerikti/gluggakarmur) þegar Dickinson notaði einfaldlega orðið „wall“. Í þýðingunni bregður einnig fyrir orðinu „Hrímkell“ þegar Dick- inson lét sér sér nægja orðið „frost“. Stundum er þýðingin ankannaleg og beinlínis röng: Það var ekki dauði – ég datt ei við eins og dauðir gera þrátt – Ætla mætti af þýðingunni að dauð- ir væru stöðugt að detta í ljóði Dick- inson, en svo er ekki því þeir liggja en ljóðmælandinn stendur upp: It was not death, for I stood up, And all the dead, lie down. Hallberg tekst betur upp í öðrum kvæðum, einkum þegar ljóð Dickin- son líkjast spakmælavísum og stuðla- setning getur hentað. Stundum er aðdáunarvert hvernig hann leysti vandamál sem komu upp við þýð- inguna og kostuðu augljóslega mikil heilabrot. Þegar allt er saman tekið er samt hægt að draga þann lærdóm af ljóðabókinni að ógjörningur er að troða Dickinson í þröngan stuðla- stakk – úr því að Hallberg tókst það ekki, þeim snjalla þýðanda. Dickinson í þröng- um stuðlastakk 100 kvæði bbbnn Ljóð eftir Emily Dickinson. Hallberg Hallmundsson íslenskaði. Brú, 1994/2012. Kilja, 142 bls. BOGI ÞÓR ARASON BÆKUR mbl.is alltaf - allstaðar Jólaskreytingar Við seljum og setjum upp jólaseríur 10% afsláttur af uppsetningu ef þú kaupir seríurnar af okkur. Sími 571 2000 | hreinirgardar.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.