Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.01.2013, Síða 47
27.1. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 47
Þ
egar Skarphéðinn Guðmundsson tók við stöðu
dagskrárstjóra RÚV í haust vissi hann vel að
hann var að takast á við stórt verkefni. Þegar
RÚV er annars vegar hefur öll þjóðin skoðun,
flestir telja sig til þess bæra að stýra dagskránni
og allir vilja hafa sitt að segja.
„Það eiga allir að hafa skoðun á RÚV. RÚV er fyrst kom-
ið í vandræði þegar fólki verður sama um hvað er boðið upp
á þar og hverjir vinna þar.“
Skarphéðinn er fertugur að aldri og hefur starfað við fjöl-
miðla frá því á háskólaárunum. Eftir að hafa útskrifast úr
Verzlunarskólanum lá leiðin í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Meðfram námi hóf hann störf á Morgunblaðinu og stýrði
umfjöllun blaðsins um dægurmenningu. Það merka ár 2007
var hann ráðinn dagskrárstjóri Stöðvar 2, en í kjölfar þess
jók sjónvarpsstöðin mjög framboð sitt á leiknu íslensku efni.
Nægir að nefna sem dæmi Vaktaseríurnar, Pressu, Ástríði
og fleiri þáttaraðir sem notið hafa mikilla vinsælda.
Skarphéðinn segir að þótt hann hafi nú tekið við sams
konar starfi á RÚV, starfi dagskrárstjóra, nálgist hann nýtt
starf á öðrum nótum en hjá Stöð 2. „RÚV er sameign þjóð-
arinnar og kröfurnar þar af leiðandi allt annars eðlis. Við
sem hérna störfum þurfum öll að vera meðvituð um þær
skyldur sem RÚV á að sinna.
Á Stöð 2 þurfti að selja áskriftir og sjá til þess að áhorfið
væri nógu mikið. Á RÚV eru miklu fleiri skilyrði sem þarf
að uppfylla. Það er ekki nóg að sjá til þess að áhorfið sé sem
mest heldur þarf RÚV að uppfylla sína menningarskyldu og
sjá til þess að fjölbreytnin í dagskránni sé sem mest. Við
þurfum að gæta að því að vekja athygli á því sem annars
væri ekki vakin athygli á í íslensku sjónvarpi. Sinna til dæm-
is því dagskrárefni sem einkamiðlarnir sjá sér ekki hag í að
sinna. Áhorfið skiptir máli, en það þarf að taka fleiri þætti
inn í þegar dagskráin er skipulögð,“ segir Skarphéðinn.
RÚV á að vera leiðandi í leiknu efni
Spurður að því hvort hann telji að RÚV hafi sinnt þessari
menningarskyldu vel segist hann telja það hafa verið mjög
sveiflukennt. „Ég tel að RÚV hafi verið á réttri leið í þeim
efnum. Ástandið í innlendri dagskrárgerð er betra nú en það
var fyrir 5-10 árum. En ég er þeirrar skoðunar að sjón-
varpsstöð í eigu almennings eigi að vera í fararbroddi í
leiknu efni. Þá meina ég ekki alltaf hvað varðar vinsældir.
Hún á að vera leiðandi í að fara inn á ný mið,“ segir Skarp-
héðinn.
Hann telur að RÚV hafi fram að þessu ekki staðið undir
því að vera leiðandi í innlendu leiknu efni, en þar ætti að
feta í fótspor BBC og DR. „Að vera leiðandi í dagskrárgerð
snýst ekki um að vera vinsælastur heldur að hafa hugrekki
og sjálfstraust til að feta nýjar slóðir. Grínþátturinn The Of-
fice hefur klárlega komið mönnum mjög spánskt fyrir sjónir
í fyrstu, meðan fólk var ekki alveg með á hreinu hvort þetta
væri heimildarmynd eða grín, hvort þessi maður væri virki-
lega til. Þarna var BBC að prófa nýja gerð af gríni. Svona
tilraunir sér maður líka hjá DR, þar er sífellt verið að prófa
nýjar nálganir í gerð sjónvarpsefnis. Þegar þeim fór að
ganga vel í krimmunum þá héldu þeir ekki bara áfram á
þeirri brautinni heldur prófuðu hvort hægt væri að gera
dramaþætti þar sem stjórnmálamaður væri aðalsöguhetjan.
Það var ekkert gefið að það myndi virka, en það sló í gegn,“
segir Skarphéðinn og vísar í hina vinsælu dönsku þætti
Borgen sem sýndir hafa verið á RÚV, en þess má geta að
sýningar á þriðju þáttaröðinni hefjast í febrúar. Þá fer þátta-
röðin Fólkið í kjallaranum, sem byggir á sögu Ólafs Hauks
Símonarsonar, í tökur í sumar og verður tekin til sýninga á
RÚV í haust. Grínþáttur undir stjórn Ara Eldjárn verður
ennfremur tekinn til sýninga í vor.
Kjánahrollurinn óþarfur
Hann segir að einmitt þetta hafi verið leitast við að gera á
Stöð 2, án þess að stöðinni bæri sérstök skylda til þess.
„Áhorfendur voru mjög spenntir að sjá hvort væri hægt að
gera sambærilegt leikið efni og það erlenda sem við erum að
horfa á. Við vorum alltaf að láta reyna á hlutina, eins og t.d.
með þætti eins og Ástríði. Þá vorum við í raun að prófa
hvort við gætum gert rómantíska gamanþætti eins og við
horfum svo mikið á. Með Pressu vorum við að prófa hvort
við gætum gert spennuþátt sem héldi frá upphafi til enda og
með Rétti var verið að prófa hvort hægt væri að gera ís-
lenskan lögfræðikrimma.“
Skarphéðinn kannast vel við umræðu um kjánahrollinn al-
ræmda sem gjarnan kemur upp þegar íslenskt leikið efni er
annars vegar. „Þær raddir eru þrálátar sem halda því fram
að við getum ekki búið til hina eða þessa tegund af sjón-
varpsefni, að við séum svo fá að útkoman hljóti að verða
kjánaleg í svona litlu samfélagi. En það er búið að sýna sig
að þetta er alveg hægt. Það er búið að byggja upp bransa
sem er kominn með talsvert mikla reynslu af því að gera
leikið íslenskt sjónvarpsefni. Hér er komin heil kynslóð sem
þekkir sjónvarpsþáttagerð og kann að skapa sannfærandi
sögusvið og trúverðuga framvindu sem jafnvel getur boðið
upp á framhald, eitthvað sem fólk vill sjá meira af.“
Skarphéðinn segir að margt eigi alveg eftir að prófa í ís-
lensku sjónvarpi. „Það á til dæmis alveg eftir að gera gott
fjölskyldudrama í íslensku sjónvarpi. Þáttaröð sem fjallar um
venjulegt fólk með hversdagsleg vandamál. Ég er alveg
sannfærður um að um leið og við náum að gera vel heppn-
aða slíka seríu þá verður það það allra vinsælasta. Og svo
eru margar tegundir af gríni sem er enn eftir að tækla. Okk-
ur hefur gengið vel á því sviðinu, sérstaklega með sketsa-
þætti og þegar farnar hafa verið ótroðnari slóðir eins og í
Vaktaseríunum, en þær auðvitað eru og verða alltaf sérkapí-
tuli út af fyrir sig og óráðlegt að ætla sér að reyna að leika
eftir. En það hefur lítið verið gert af grínseríum með hefð-
bundinni uppbyggingu. Fastir liðir eins og venjulega og
Undir sama þaki voru tilraunir til að gera slíka þætti en þar
var ekki farið lengra. Ástríður er sannarlega í áttina en aðrir
vinsælir grínþættir eins og Heilsubælið, Fóstbræður, Stelp-
urnar og Spaugstofan eru allt sketsaþættir. “
Fyrsta serían og hvað svo?
Skarphéðinn segist telja mikilvægt fyrir innlenda dag-
skrárgerð að hugsa lengra en eina seríu eða nokkra þætti.
Skapa þurfi forsendur til þess að vinna þáttaraðirnar áfram
yfir lengri tíma.
„Frumsköpun er alltaf mjög æskileg, en það er líka mjög
mikilvægt að leggja þannig grunn að það sé hægt að byggja
á honum og gera fleiri seríur. Það er mikill munur á því að
gera kvikmyndir og sjónvarpsefni. Framhaldsmyndir í kvik-
myndageiranum eru litnar hornauga, það þykir endurvinnsla
að gera mynd númer tvö og þrjú. Í sjónvarpi eru hins vegar
mjög fá dæmi um það að fyrsta serían í einhverri þáttaröð
sé sú besta. Það er eðli þess miðils að karakterarnir þurfa
að fá að vaxa og vinna sig inn í hug og hjörtu áhorfenda,“
segir Skarphéðinn.
RÚV situr reglulega undir gagnrýni frá kvikmyndagerðar-
fólki og öðrum framleiðendum sjónvarpsefnis fyrir stefnu
eða stefnuleysi í innlendri dagskrárgerð. Skarphéðinn telur
að gagnrýnin sé stundum óvægin en eigi rétt á sér upp að
vissu marki. „Það mun aldrei ríkja sátt um Ríkisútvarpið.
Fólk gerir ákveðnar kröfur og ég held að allar sjónvarps-
stöðvar í ríkiseigu verði umdeildar, í hvaða landi sem er. Það
verður aldrei full sátt um þá leið sem á að fara. Það sem er
mikilvægast er að stofnunin komi hreint fram við þennan
bransa. Sýni honum virðingu og sýni fram á það að stofn-
unin sé að sinna því hlutverki sem henni ber. Það er ekki
hægt að kaupa efni af öllum kvikmyndagerðarmönnum. Það
er mikil framleiðsla og gríðarleg gróska, það mun alltaf
þurfa að velja og hafna. Auðvitað þarf að setja gæðakröfur
og annað í ákveðið ferli, en þetta verður alltaf að einhverju
leyti háð gildishlöðnu mati þeirra sem stjórna hverju sinni.
Hjá því verður ekki komist,“ segir Skarphéðinn en telur
jafnframt að bæta megi samtalið við kvikmyndageirann.
„Ég held að það sé hægt með því að marka skýra stefnu
þannig að það liggi ljóst fyrir eftir hvaða stefnu RÚV ætlar
að starfa og hverjar þarfir hennar verða fyrir efni næstu ár-
in. Það hefur verið skortur á framtíðarsýn RÚV, en nú er
búið að leggja fram stefnu til ársins 2016 þar sem meðal
annars er sett það markmið að kynna tvær nýjar leiknar
seríur á ári til 2015. Það er mikilvægt að þessi framtíðarsýn
liggi fyrir og enginn þurfi að vera í vafa um á hvaða for-
sendum stofnunin ætlar að starfa og hver markmiðin eru.“
Áhorf segir ekki alla söguna
Þegar rafrænar áhorfsmælingar voru teknar upp í stað svo-
kallaðra dagbókarkannana fékkst mun nákvæmari mæling á
því hvað fólk horfir á í sjónvarpi í raun og veru, en ekki að-
eins mæling á því sem fólk segist horfa á. Skarphéðinn segir
þó varhugavert fyrir dagskrárstjóra að festa sig um of í slík-
um mælingum.
„Það er auðvitað mjög mikilvægt að efni sem sýnt er höfði
til fólks, en það þarf líka að vera svigrúm fyrir það sem við
getum kallað vanþakklátara efni. Efni sem enginn annar
byði upp á,“ segir Skarphéðinn og tekur sem dæmi
heimildarmyndir og náttúrulífsmyndir. „Það hefur sýnt sig
að aukið framboð á heimildarmyndum á RÚV undanfarið
hefur aukið áhorf á slíkar myndir. Einnig hefur áhorf á nátt-
úrulífsmyndir aukist jafnt og þétt. Þannig að það er líka til í
dæminu að fólk læri að horfa á tiltekna þætti í dagskrá ef
það getur gengið að þeim vísum í lengri tíma og þeim er
fundinn réttur staður í dagskrá.“
Gróskan í bransanum sameinist reynslu á
RÚV
Skarphéðinn er bjartsýnn á framtíð RÚV. „Það er margt
rosalega gott fólk sem starfar á RÚV, fólk með mikla
reynslu og hæfileika. Maður hefur það á tilfinningunni að að
einhverju leyti hafi þessi starfskraftur ekki verið nýttur til
fulls. Að þarna sé fólk sem á fullt inni ef tækifærin gefast.
Þetta snýst um ákveðið jafnvægi, því við viljum líka og
stofnuninni er ætlað að vera í góðu sambandi við sjálfstæða
framleiðendur. Þetta snýst um að finna út hvað hentar best
að framleiða innanhúss og hvað hentar best að sé aðkeypt.
Það eru engir ráðnir sérstaklega til að vinna handrit eða
þróa hugmyndir að þáttum. Ég er þeirrar skoðunar að þann-
ig starfsemi þrífist best utanhúss. Tæknivinna og sú fag-
mennska sem henni fylgir er hins vegar að miklu leyti til
staðar innanhúss.
Það er of mikið gert af því að framleiða annað hvort allt
innanhúss eða kaupa allt að utan og nýta í engu þá hæfileika
sem eru til staðar. Ég held að það felist ákveðin tækifæri í
því að nýta gróskuna í bransanum og sameina hana því
besta sem er innanhúss á RÚV,“ segir Skarphéðinn.
RÚV á að vera
í fararbroddi
SKARPHÉÐINN GUÐMUNDSSON TÓK VIÐ STARFI DAGSKRÁRSTJÓRA RÚV Í HAUST. HANN VILL AÐ RÚV TAKI BBC OG DR TIL
FYRIRMYNDAR OG LEITIST VIÐ AÐ VERÐA LEIÐANDI Í INNLENDU LEIKNU EFNI. RÚV EIGI AÐ RÆKJA VANDLEGA MENNING-
ARSKYLDUR SÍNAR OG SINNA EFNI SEM EINKAMIÐLARNIR MYNDU ANNARS EKKI GERA.
Eyrún Magnúsdóttir eyrun@mbl.is
* Þær raddir eru þrálátar sem halda því fram að við getumekki búið til hina eða þessa tegund af sjónvarpsefni, að viðséum svo fá að útkoman hljóti að verða kjánaleg í svona litlu
samfélagi. En það er búið að sýna sig að þetta er alveg hægt.