Morgunblaðið - Sunnudagur - 15.09.2013, Blaðsíða 13
15.9. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13
Humarhúsið
101 Reykjavík · humarhusid@humarhusid.is
Amtmannsstíg 1 sími: 561·3303
Þegar njóta á
kvöldsins...
Þvældist þessi tilfinning að þurfa að vera fullkomin
fyrir þér? „Já. Ég sagði til að mynda engum að ég væri
að fara í inntökupróf í leiklistarskólann því ég var svo
hrædd við að gera mistök. Ekki nema mömmu og
pabba því þau pössuðu Ísold á meðan á prufum stóð.
Ætli ég hefði ekki helst viljað bíða með að láta nokkurn
vita fyrr en ég útskrifaðist bara úr skólanum, jafnvel
ekki fyrr en ég hefði samning í höndunum. Þegar ég
sagði vinum mínum frá kom þessi ákvörðun flestum á
óvart, að minnsta kosti fyrst. Ég var og er fremur
hæglát og ekki á útopnu. Í náminu lærði ég að það er
gott að gera mistök. Og líka í lífinu almennt. Ég er
mun skárri hvað þetta varðar.“
Að hætta að drekka hafði meiri áhrif á líf Elmu Stef-
aníu en hún hafði haldið. „Við búum í samfélagi þar
sem drykkjumenning er sett á svolítið háan stall og
fólki þykir oft óþægilegt ef einhver gerir eitthvað öðru-
vísi en hinir. Það er oft ekki gert ráð fyrir að það sé
eitthvað á boðstólum fyrir þá sem drekka ekki. En það
er nú einu sinni þannig að það er vel hægt að skemmta
sér án áfengis. Fagna sigrum og fara út að dansa og
vakna daginn eftir án þess að vera með höfuðverk. Það
virkar allavega fyrir mig.“
BA-ritgerð Elmu úr Listaháskólanum fjallaði um
hugmyndina um bóheminn í listum sem drekkur ótæpi-
lega og hvernig sú hugmynd hefur þróast í aldanna rás.
Elma leitaðist við að afhjúpa þá mýtu. „Það er einhver
hugmynd tengd listinni að til að hún geti verið í eðli
sínu góð og sönn þurfi listamaðurinn að þjást. En það
má draga þá ályktun þegar farið er yfir söguna að
bestu verk listamanna, fyrr og nú, hafa yfirleitt verið
sköpuð á edrútímabilum þeirra. Ég man sjálf eftir
hugsuninni að ég myndi ekki geta skapað list ef mér
liði vel. Ég gerði þetta upp við mig og hugsaði með
mér að sama hvernig færi, þótt ég gæti ekki skapað,
ætlaði ég samt að taka óttann út úr mínu lífi. Við eig-
um það öll skilið að líða vel.“
Hræðsla Elmu Stefaníu við að standa ekki undir því
að vera listamaður reyndist óþörf. „Ég var hrædd við
að sleppa tökunum. Hvað myndi eiginlega gerast ef ég
myndi hætta að drekka? Það sem til dæmis gerðist var
að ég breyttist úr B manneskju í A manneskju. Við
Karítas systir vorum að hlæja að því um daginn að
einu sinni var ég stelpan sem stóð með kóka kóla undir
húsvegg og reykti sígarettur. Ég hélt að það væri
skemmtilegasta útgáfan af mér. Sem var auðvitað ekki
rétt og í dag skemmti ég mér alveg jafn vel þótt ég
fari oft í háttinn snemma og vilji vera með allt mitt á
hreinu. Við systir mín vorum að ræða þetta í framhaldi
af því að hún stakk upp á nammibíltúr og ég lýsti því
yfir að epli með hnetusmjöri væri eftirlætissælgætið
mitt.“
Grét í hlutverki Sigrúnar
Harmsaga er saga um par sem verður ástfangið, eign-
ast börn og lifir lífinu saman en týnir hamingjunni
smátt og smátt einhvers staðar á leiðinni sem endar
svo með skelfingu. Sambandið verður smám saman
meiðandi og harmurinn er þeirra og barnanna. Þetta er
saga sem margir eiga, áttu og þekkja. Þetta verk er
áleitið og trúlegt að það komi við kaunin. Elma Stef-
anía tekur ekki fyrir það að verkið geti orðið til þess að
fólk spyrji sig hvar í lífinu það sé statt og hvort það sé
í sambandi sem því líður vel í.
„En af því að við vorum að tala um vellíðan, vanlíðan
og listina er maður stundum að færa fórnir og ég geri
það eins og fyrir Sigrúnu í Harmsögu. Í síðustu viku
náði Sigrún mér alveg og það var rosalega erfitt, ég
hreinlega grét. Það er ekki alltaf hægt að skilja þarna
á milli þótt maður reyni, að fara ekki með vinnuna
heim heldur bara vörur úr matvörubúðinni og elda og
vera ekki áfram Sigrún heldur Elma. En það er allt í
lagi að færa fórnir sem þessar því þarna hugsaði ég til
dæmis að kannski yrði sýningin til þess að einhver sem
er að takast á við erfiðar aðstæður fyndi leiðina út.
Maður er tilbúinn að færa fórnir sem þessar.“
Elma er stundum í þeirri aðstöðu að hafa eiginmann-
inn úti í sal á rennsli á Harmsögu og það hlýtur að
vera skrýtin tilfinning. „Maður er auðvitað vanur að
eiga í stöðugu samtali en ég er yfirleitt ánægð með að
hafa hann þarna. Þetta er mitt fyrsta hlutverk í Þjóð-
leikhúsinu og það er notalegt að hann sé inni í þessu
ferli. Við þekkjum það vel að ræða allt fram og til baka
og nú er það um leikhúsið. Þar sem við djömmum lítið
höfum við meiri tíma fyrir ýmislegt, til dæmis fyrir
krakkana okkar og svo erum við dugleg að hafa ofan af
fyrir okkur og leita innblásturs héðan og þaðan, lesum
og horfum á heimildamyndir. Við erum nýbúin að horfa
á 30 for 30, heimildamynd um afreksfólk í íþróttum.
Þar sér maður fólk sem þekkir ekki hvað það er að
spila æfingarleik, það setur alltaf 110 prósent kraft í
allt sem það gerira. Ég hef sjálf alltaf tengt frekar við
það að leggja sig allan fram en að spara sig.“
Störf þeirra beggja eru fyrir opnum tjöldum. Útgefin
og sett á svið. Eru þau inni í vinnu hvort annars og
hvernig er það að manns daglega starf sé lagt á borð
almennings frá degi til dags eða viku fyrir viku? Skipta
þau sér af störfum hvort annars?
„Já, já, það gerum við. Þetta er svona tvíeggjað
sverð að hafa einhvern sterkan sér við hlið. Það getur
samt verið pirrandi þegar gagnrýnin hittir á við-
kvæman blett, eitthvað sem maður hefur verið að vinna
í og veit af – maður er til dæmis búinn að ræða það
sjálfur við leikstjórann. Þá getur þetta orðið svona:
„Æi, ég veit, ég veit.“ Og það sama er uppi á ten-
ingnum hjá honum. „Slakaðu á, ég er að vinna í þessu,
þetta gerist ekki á einni nóttu.“ En það getur verið
sterkt í manni að taka gagnrýni á störf sinna nánustu
meira inn á sig en gagnrýni á mann sjálfan og það á
líka við um mig.“
Þegar parið kynntist var Mikael í Háskólanum svo
að Elma Stefanía segir að breytingarnar á þeirra hög-
um hafi komið svolítið bratt, úr rólyndislífi námsmanna
í hasar fjölmiðlanna. „Þá kynntist ég um leið hliðum á
honum sem ég vissi ekki að væru til; ritstjóranum og
fjölmiðlamanninum. Þær hliðar komu skemmtilega á
óvart og ég fann strax að þarna var hann sérfræðingur
og ég ekki. Ég get lagt ýmislegt til málanna í því sem
snýr að hans skapandi skrifum því það er inni á minni
grein.“
Áleitnar spurningar
Ætli pör sem vilja geyma vandamálin ofan í skúffu og
helst ekki hrófla við þeim eigi nokkuð að vera að fara á
Harmsögu og liggja andvaka eftir með áleitnar spurn-
ingar í kollinum? Leikkonan hlær: „Ætli nokkur þori á
Harmsögu eftir þetta! En nei, það er ekkert að óttast
og þarna fá áhorfendur sýn inn í það hvað það er sem
liggur yfirleitt að baki þegar við lesum um íslensk
morð í fjölmiðlum. Hvað er búið að eiga sér stað áður?
Á sama tíma og hugmyndir okkar um lífshamingjuna
eru orðnar brenglaðar og yfirborðið er slétt og fellt er
það sem kraumar undir niðri í samböndum ekki alltaf
jafn fínt. Þarna eru spurningar skoðaðar á borð við
hvenær samskipti okkar eru orðin andlegt ofbeldi og
hversu vel það ásamt líkamlegu ofbeldi er falið. Hversu
lengi getur þú sagt við manneskju: „Ég hef aldrei lagt
á þig hendur, ég hef aldrei sagt þetta, ég hef aldrei
gert neitt.“ Jafnframt hversu miklu máli það skiptir að
bera ábyrgð á eigin tilfinningum – velta þeim ekki yfir
á einhverja aðra. En þetta er fín lína. Persónur Harm-
sögu áttu líf saman en í því varð til skrímsli sem
stækkaði og stækkaði. Allt verður leikur og leikur í
samböndum er algerlega banalt dæmi; að reyna að
stjórna hvort öðru. Pia Melody heitir kona sem skrifaði
mjög áhrifamikla bók um meðvirkni og andlegt ofbeldi
sem hún skilgreindi þannig að allt í samskiptum okkar
sem er of mikið eða of lítið af einhverju sé birting-
armynd misnotkunar. Að valta yfir börnin sín með of
mikilli ást getur verið ein þessara birtingarmynda og
fýlustjórnun er eitt þekktasta dæmið. Að stjórna með
eigin tilfinningum. En mikið sem þetta allt er fín lína.
Maður er sjálfur alltaf að læra hvernig þetta getur orð-
ið betra. Og maður þarf að vanda sig,“ segir Elma
Stefanía að lokum. Það er auðsjáanlegt að hún hlakkar
til þess sem framundan er í leikhúsinu – og lífinu.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Þarna eru spurningar skoðaðar á borð
við hvenær samskipti okkar eru orðin
andlegt ofbeldi og hversu vel það ásamt
líkamlegu ofbeldi er falið. Hversu lengi
getur þú sagt við manneskju: „Ég hef
aldrei lagt á þig hendur, ég hef aldrei sagt
þetta, ég hef aldrei gert neitt.“
* „Í dag finn ég ekki fyrir kvíða eða ótta en ef þessar tilfinningar komaupp er ég enga stund að átta mig.“