Morgunblaðið - 21.11.2013, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 21.11.2013, Blaðsíða 34
34 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. NÓVEMBER 2013 Karl Blöndal kbl@mbl.is Austurríski kvikmyndaleikstjórinn Ulrich Seidl fegrar ekki veruleikann. Í myndum hans fylgist kvikmynda- tökuvélin með af fullkomnu miskunn- arleysi. Myndirnar hans bjóða ekki upp á flótta frá veruleikanum, þar er tekist á við hann og fyrir vikið eru viðbrögðin oft harkaleg. Paradísar- þríleik hans hefur verið gert hátt undir höfði á helstu kvikmyndahátíð- um heims. Fyrsta myndin, Paradís: Ást, keppti um gullpálmann á kvik- myndahátíðinni í Cannes í fyrra, Paradís: Trú hlaut sérstök verðlaun dómnefndar á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í fyrra og á þessu ári var myndin Paradís: Von í aðalkeppninni á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Seidl og landi hans Michael Ha- neke eru iðulega nefndir í sömu and- ránni og sagðir bera uppgangi aust- urrískrar kvikmyndagerðar vitni. Þýski leikstjórinn Werner Herzog líkti Seidl eitt sinn við Rainer Wer- ner Fassbinder. Seidl segist bera mikla virðingu fyrir Fassbinder og hafa alist upp við myndir hans, Her- zogs, Herberts Achternbusch og Werners Schroeters. Leikstjórinn John Waters segir að það sé eins og að fá innsýn í víti að horfa á myndir Seidls. 90 tímar af efni Um helgina heimsækir leikstjór- inn Ísland í tilefni af því að loka- myndin í þríleiknum, Paradís: Von, verður tekin til sýninga í Bíó Para- dís. Upphaflega var reyndar ætlunin að gera eina mynd, en þegar upp var staðið var Seidl kominn með 90 klukkustundir af efni. Það var allt of mikið í eina mynd og úr urðu þrjár tengdar myndir. „Þetta eru þrjár myndir, sem fjalla um þrjár konur,“ segir Seidl í síma frá Vínarborg. „Hver þessara þriggja kvenna er í leit að fyllingu óuppfylltra þráa sinna; í leit að ást, öryggi, umhyggju, kynlífi. Það bind- ur þær saman. Að auki tengjast þær að því leyti að þær eru skyldar. Í fyrstu myndinni er aðalpersónan fimmtug kona, systir hennar er að- alpersónan í annarri myndinni og dóttir konunnar í fyrstu myndinni er aðalpersónan í þeirri þriðju.“ Seidl segir frá leit kvennanna af ákveðnu miskunnarleysi og reynir ekki að fegra þann veruleika, sem hann lýsir. „Ástin er náð“ „Það er auðvitað hægt að finna ást,“ segir hann, „en það er ekki hægt að þvinga hana fram. Ástin er náð. Við erum held ég öll í leit að ást- inni, stundum náum við henni og stundum glötum við henni aftur.“ Myndin Paradís: Trú fjallar um konu, Önnu Maríu, sem fer á milli íbúða í úthverfi Vínarborgar og boð- ar innflytjendum trú á Guð. Sjálf er hún gift egypskum múslíma, sem er farinn frá henni en snýr aftur þegar liðið er á myndina. Anna María virð- ist hafa flúið á náðir trúarinnar. „Það passar,“ segir Seidl. „Ástæð- an er ekki sú að hún óttist að horfast í augu við lífið. Fólk hefur einfaldlega ólík tækifæri í lífinu og getur ekki valið úr. Hún sá einfaldlega mögu- leika á að komast út úr vonbrigðum sínum, einveru og einmanaleika með því að flýja á náðir trúarinnar eins og margir aðrir hafa gert. Hún flýr hins vegar með öfgakenndum hætti og gerir Jesú í raun að elskhuga sínum.“ Seidl hefur iðulega notað áhuga- leikara í leiknum myndum sínum og sviðsett atriði í heimildamyndum. Hann segist hafa leikið sér með mörk skáldskapar og veruleika frá því hann byrjaði að gera myndir. „Ég byrjaði á að gera heim- ildamyndir, svonefndar heim- ildamyndir, segi ég reyndar, vegna þess að ég hef alltaf sviðsett, var allt- af með uppdiktaða þætti í heim- ildamyndum mínum,“ segir hann. „Nú geri ég aðallega leiknar myndir, sem hafa á sér sterkan blæ heim- ildamynda.“ Með þessu vill hann ná því fram að kvikmyndir sínar verði sem trúverð- ugastar. „Ég vil að persónurnar og and- rúmsloftið í myndunum mínum standi svo nærri áhorfandanum að hann finni sjálfan sig fyrir í þeim. Að maður sjái í þeim spegil lífs síns, samfélags og samtíma og geti ekki hlaupist brott frá því. Að maður segi við sjálfan sig: Ég er einnig hluti af þessu og ég ber líka ábyrgð á því, sem hér gerist.“ Leikið af fingrum fram Seidl fer ekki hefðbundnar leiðir þegar hann undirbýr og gerir mynd- ir sínar. „Ég skrifa handrit án samtala, þar er atriðum bara lýst,“ segir hann. „Atriðin eru síðan leikin af fingrum fram með leikurunum, samtölin eru spuni, sem verður til í höndum leik- ara, sem ýmist eru áhuga- eða at- vinnumenn. Þannig myndast spenna, sem kallar fram sérstaka hluti. Á tökustað er heldur ekki handrit – myndirnar mínar eru ferli og þær eru teknar á löngum tíma.“ Seidl sækir lítið til draumaverk- smiðjunnar í Hollywood. „Tilgangur mynda minna er ann- ar,“ segir hann. „Draumaverk- smiðjan – það er nóg af skemmti- myndum og jafnvel of margar. Heimurinn er í umsátri slíkra mynda að segja má og allt of fáar myndar eru gerðar í þeim anda, sem ég geri myndir. Þar á ég við að form kvik- myndarinnar sé notað til að setja fram spurningar og koma á framfæri efni, sem vekur fólk til umhugsunar eða knýr það til að taka afstöðu. Myndir mínar eru líka gefandi fyrir marga, annars virkuðu þær ekki og ég næði ekki árangri. Stundum getur það verið niðurdrepandi, en þetta snýst einnig um skuldbindingar okk- ar, það sem er erfitt viðfangs og við viljum ógjarnan horfast í augu við. Allir eiga einhvern tímann í erfið- leikum með að horfa á sjálfa sig í spegli, en þegar upp er staðið getur það einnig veitt hamingju að horfast í augu við þessa hluti.“ Kæfandi áhrif Hollywood Seidl telur að áherslan á stór- myndir og skemmtun sé sjálfstæðri kvikmyndagerð hættuleg. „Ég hef oft líkt Hollywood saman við stóra keðju matvöruverslana, sem þrengir að öllu öðru,“ segir hann. „Með völdum sínum og pen- ingum stjórnar Hollywood heiminum og annað fólk, sem vill bjóða eitthvað annað, kemst varla að. Peningarnir eru valdið og við höfum ekki pen- ingana. Við eigum í vandræðum með að komast að í fjölmiðlum og Holly- wood notar peningana hvort sem lýt- ur að fjölmiðlum eða sýningarstöðum þannig að maður kemst ekki að með sína vöru.“ Því hefur iðulega verið haldið framað Seidl reyni að ögra með myndum sínum. Hann lítur málið öðrum augum. „Ég leita sannleik- ans,“ segir hann. „Í þeirri leit gerist það oft eins og af sjálfu sér að ég tek fyrir bannhelgar. Þar eru erfiðu við- fangsefnin og þau vekja viðbrögð.“ Kallaður öllum nöfnum „Leikstjóri, handritshöfundur, framleiðandi, gluggagægir, mann- hatari, hundingi, félagsklámhundur, ófreskja, æsingamaður, bölsýnis- maður, mannvinur.“ Þessa upptaln- ingu er að finna á heimasíðu Seidls. Orðin hafa öll einhvern tímann verið notuð um Seidl og kemur það síðasta kannski mest á óvart. „Ég stilli þess- um lista upp til að sýna hvað ég hef verið dæmdur með mismunandi hætti í fjölmiðlum,“ segir hann. „Ég hef verið kallaður nánast öllum nöfn- um, en svo getur fólk gert sér sína eigin mynd af mér.“ Seidl kemur til Íslands á morgun og verður til sunnudags. Af því tilefni verða allar myndirnar úr Para- dísarþríleiknum sýndar í Bíó Paradís auk tveggja eldri mynda, Import/ Export og Fyrirsætur. Á laugardag situr hann fyrir svörum á sýningu myndarinnar Trú: Von og á sunnu- dag svarar hann spurningum eftir sýningu Import/Export. Leit Paradís: Von fjallar um táningsstúlku, sem fer í megrunarbúðir og verður ástfangin af mun eldri manni. Ástina má finna en ekki þvinga fram Austurríski leikstjórinn Ulrich Seidl leitar sannleikans í myndum sínum Ljósmynd/Sepp Dreissinger Umdeildur Ulrich Seidl segir að hann leiti sannleikans í myndum sínum. Í þeirri leit taki hann á bannhelgum, en markmiðið sé ekki að ögra. Nýlega kom út bókin Kamban – líf hans og starf, um rithöfundinn og leikskáldið Guðmund Kamban, eftir Svein Einarsson. Í kvöld verður haldið sérstakt Kamb- anskvöld í Hannesarholti við Grundarstíg í Reykjavík og hefst dagskráin kl. 20. Rithöfundasamband Íslands hélt slíkt kvöld í síðustu viku og var húsfyllir, áhuginn greinilega mikill fyrir lífi Kambans. Var því ákveðið að endurtaka leikinn. Í kvöld mun Sveinn segja frá bókinni og sýnd verður mynd þeirra Viðars Víkingssonar og Hallgríms H. Helgasonar, frænda skáldsins, um Kamban. Myndina gerðu þeir fyrir RÚV þegar 100 ára afmæli Kambans var minnst árið 1988. Annað Kambanskvöld Sveinn Einarsson 30% 70% 20%50% 60% 60% 40%Leikföng Mikið úrval af jólagjöfum Jólasveinar velkomnir Allt að 70% afsláttur 22. nóvember-1. desember Lagersala Gylfaflöt 7 112 Reykjavík 587 8700 Opnunartími: Virka daga 10:00-20:00, helgar 10:00-18:00 www.krumma.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.