Morgunblaðið - 20.02.2014, Blaðsíða 76
76 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2014
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Undirtitill greinarsafnsins er jafn-
rétti, menning og samfélag, en í bók-
inni er fléttað saman greinum úr hug-
og félagsvísindum sem fjalla um fem-
ínisma og jafnréttismál í víðum skiln-
ingi,“ segir Guðni Elísson, prófessor í
almennri bókmenntafræði við Há-
skóla Íslands og einn fjögurra rit-
stjóra greinasafnsins Fléttur III sem
RIKK (Rannsóknastofnun í jafnrétt-
ismálum við Háskóla Íslands áður
Rannsóknastofa í kvenna- og kynja-
fræðum) og Háskólaútgáfan gefa út.
Meðritstjórar Guðna eru Annadís G.
Rúdólfsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jó-
hannesson og Irma Erlingsdóttir.
Að sögn Guðna er bókin afsprengi
af málþingi sem RIKK stóð fyrir
haustið 2011 í tilefni af 20 ára starfs-
afmæli sínu. Segir hann viðfangsefni
bókarinnar vera birtingarmyndir
misréttis í samfélagi og menningu og
áhrif þess á aðstæður karla og
kvenna. Megi þar nefna átök fem-
ínista af ólíkum skólum á Íslandi, mis-
notkun valds og andóf í kristinni
trúarhefð og stöðu kvenna í bók-
menntum og kvikmyndum. „Í bókinni
er sjónum jafnframt beint að sam-
tvinnun ólíkra þátta mismununar,
skörun fötlunar og kyngervis, og ís-
lenskri friðargæslu í ljósi femínískra
öryggisfræða. Einnig er rætt um þær
afleiðingar sem ofríki karllægrar
hugmyndafræði hafði í fjár-
málakreppunni árið 2008 og í um-
ræðunni um loftslagsbreytingar,“
segir Guðni og tekur fram að bókin
endurspegli þannig þá miklu breidd
sem sé í jafnréttisfræðum bæði hér
heima og erlendis.
Spurður hverjum bókin sé ætluð
bendir Guðni á að um sé að ræða
fræðilegar og ritrýndar greinar. „En
við lögðum mikið upp úr því að höf-
undarnir skrifuðu texta sem allir
gætu lesið,“ segir Guðni.
Skvísusögur þaggaðar niður
Alda Björk Valdimarsdóttir, að-
junkt í almennri bókmenntafræði við
HÍ, rýnir í íslenska samtímamenn-
ingu í grein sem fjallar um Tobbu
Marinós og viðtökur við skrifum
hennar. „Skvísusögur eru vitn-
isburður um að kvenleg afþreying á
sér erfitt uppdráttar og nýtur ekki
sömu stöðu og afþreying sem karlar
hafa áhuga á,“ segir Alda Björk og
bendir á að í ritdómum og umfjöllun
um Tobbu Marinós sé gjarnan ein-
blínt á líkama hennar og útlit en sög-
urnar ekki greindar og ræddar á mál-
efnanlegum forsendum. „Ég
rannsakaði sérstaklega neikvæða
umfjöllun um Tobbu á netinu og velti
upp þeirri spurningu hvort afstaða
gagnrýnenda til verka hennar væri
hluti af tilraun til þöggunar á þessari
sérstöku bókmenntagrein kvenna.“
Alda Björk bendir á að Tobba Mar-
inós hafi verið áhrifamikill talsmaður
póstfemínisma í íslenskri menningu.
„Viðtökurnar á Tobbu varpa fram
ýmsum spurningum um viðhorf til út-
lits og kvenleika en menningin stillir
kvenleika og femínisma upp sem and-
stæðum. Einnig koma fram djúpstæð
átök milli þeirra sem aðhyllast póst-
femínisma og aðra bylgju fem-
ínisma,“ segir Alda Björk og bendir á
að ólík viðhorf þessara tveggja hópa
birtist m.a. í viðhorfi til neyslumenn-
ingar. „Þeir sem aðhyllast póstfem-
ínisma sjá engin vandamál í sambúð
lista og markaðar á meðan önnur
bylgjan og vinstri sinnaðir femínstar
líta neyslumenningu hornauga og eru
á móti útlit- og líkamsdýrkun sem
gjarnan einkennir póstfemínísk við-
horf,“ segir Alda Björk.
Björn Þór Vilhjálmsson, aðjunkt í
almennri bókmenntafræði við HÍ,
beinir í grein sinni sjónum að breska
rithöfundinum Ian McEwan með
áherslu á skáldsögurnar Friðþæging,
Brúðkaupsnóttin og Laugardagur.
„McEwan hefur haft á sér það orð-
spor að vera í bókum sínum myrkur,
gróteskur og ofbeldisfullur. Hann
hefur helst látið þessar myrku
hneigðir sínar beinast að konum sem
verða þá fórnarlömb ofbeldis karla,
sem oft birtist með mjög ofsafengn-
um hætti,“ segir Björn Þór og bendir
á að femínistar hafi sökum þessa haft
mikinn áhuga á höfundaverki McEw-
an og velt upp þeirri spurningu á
hvaða forsendum ofbeldið sé.
Ofbeldi karla í garð kvenna mið-
lægt í bókum Ians McEwan
„Skipta má höfundaferli McEwan í
tvennt. Bækur hans framan af ein-
kennast af óhugnaði og trufluðum
hugarheimi,“ segir Björn Þór og
bendir á að smám saman hafi McEw-
an fengið nokkurs konar stöðu þjóð-
skálds og farið að skrifa sig meðvitað
inn í breska bókmenntahefð. „Breyt-
ingin á sér stað hægt og rólega, en
kjarnast með Friðþægingu. McEwan
er hættur að skrifa þessar ágengu og
sálfræðilega truflandi sögur og verk-
in orðin fínni innan gæsalappa – og
honum fer þá reyndar líka að ganga
betur markaðslega,“ segir Björn Þór
og bendir á að þeir aðrir bókmennta-
fræðingar sem skoðað hafi þetta rof í
höfundaferli McEwan útskýri það
sem þroskaskref. „Þroski gefur til
kynna að hann verði betra skáld fyrir
vikið,“ segir Björn Þór og tekur fram
að hann hafni hins vegar slíkum lestri
á höfundarferli McEwan.
„Þrátt fyrir ofangreint rof er of-
beldi karla í garð kvenna enn mjög
miðlægt í bókum McEwan. Það hefur
bara breytt aðeins um ásýnd,“ segir
Björn Þór og bendir á að skýrasta
dæmið um þetta birtist í Laugardegi
þar sem ung ólétt dóttir aðalpersón-
unnar grípi til þess ráðs að fara með
ljóðið „Dover Beach“ eftir Matthew
Arnold til þess að bjarga sér frá
nauðgun. „McEwan lætur stúlkuna
fara með eitt miðlægasta ljóð karl-
lægrar bókmenntahefðar og lætur
það virka sem hlífðarskjöld sem
verndar hana,“ segir Björn Þór og
bendir á að með því noti McEwan æs-
andi sviðsetningu á ofbeldi gegn kon-
um til að koma að hugmyndafræði
sinni um mannbætandi áhrif lista í
samfélaginu. „McEwan er þannig að
nota ofbeldi gegn konum á mjög
kalkúleraðan hátt sem er ekki endi-
lega mjög smekklegur og að mörgu
leyti meira truflandi út frá kynjasjón-
arhorni, en ofbeldið sem birtist í eldri
verkum hans. Að mínu mati verður
höfundaverk McEwan því ófem-
ínískara með árunum.“
„Jafnrétti, menning og samfélag“
Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands sendir frá sér þriðju Fléttu-bókina
Fléttur III endurspegla þá miklu breidd sem er í jafnréttisfræðum bæði hér heima og erlendis
Morgunblaðið/Golli
Höfundar Guðni Elísson ritstjóri (fyrir miðju) ásamt Öldu Björk Valdimarsdóttur og Birni Þór Vilhjálmssyni.
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Nordisk 2014, samnorrænni tón-
leikaferð fjögurra hljómsveita, lýk-
ur með tónleikum í kvöld á Harlem
Bar og hefjast þeir kl. 21. Fjórar
hljómsveitir koma þar fram: Seku-
ioa frá Danmörku, Sea Change frá
Noregi, Byrta frá Færeyjum og
Good Moon Deer frá Íslandi og hafa
þær á undanförnum vikum haldið
tónleika í Danmörku og Færeyjum
og nú síðast hér á landi.
Good Moon Deer skipa Guð-
mundur Ingi Úlfarsson og trommu-
leikarinn Ívar Pétur Kjartansson
og kom tvíeykið m.a. fram á hátíð-
inni Sónar Reykjavík um síðustu
helgi. Áður en Good Moon Deer var
stofnuð kom Guðmundur fram einn
og undir eigin nafni en útlend-
ingum þótti heldur erfitt að bera
nafnið fram, að hans sögn. Því hafi
hann tekið upp listamannsnafnið
Good Moon Deer. „Ég byrjaði að
gera tónlist einn í tölvunni og eftir
listahátíðina LungA árið 2011, þar
sem ég spilaði einn á fatahönn-
unarsýningunni, bað ég Ívar að
vera með mér í þessu og við spil-
uðum í fyrsta skipti „off-venue“ á
Airwaves,“ segir Guðmundur.
Einhvers konar plata
– Þið spilið raftónlist með lifandi
trommuleik en hvernig mynduð þið
flokka hana nánar?
„Það er svolítið erfitt en við höf-
um fengið margar skemmtilegar
lýsingar í umsögnum. Djassskotin,
tilraunakennd raftónlist, það er
erfitt að skilgreina þetta.“
– Hvernig hófst þinn tónlistarfer-
ill?
„Ég er grafískur hönnuður og
listamaður, var að læra í Amst-
erdam og byrjaði þar að koma fram
sem DJ með tölvu með vini mínum.
Þannig byrjaði þetta, með fikti og
svo fannst mér skemmtilegra að
fara að gera eigið efni, dreymdi um
að spila mitt eigið efni,“ segir Guð-
mundur. Spurður að því hvaðan Go-
od Moon Deer sæki innblástur sinn
segir Guðmundur að hann hafi
hlustað mikið á ýmiss konar tónlist
og þá m.a. raftónlist. Líklega megi
greina áhrif frá tónlistarmönn-
unum Four Tet og Thom Yorke í
tónlist dúettsins. „Þetta er mikil
blanda, alls konar grautur,“ segir
Guðmundur og nefnir einnig Pro-
digy og tónlist tíunda áratugarins
sem áhrifavalda.
Good Moon Deer hefur sent
nokkur lög frá sér og þá eingöngu á
netinu (sjá goodmoondeer.com) og
segir Guðmundur að þeir Ívar
stefni að því að gefa út plötu á
árinu en í hvaða formi sé ekki ljóst
að svo stöddu. „Það kemur eitthvað
sem við getum kallað plötu, hvort
sem hún kemur út á vínyl, á netinu
eða hvort tveggja.“
Guðmundur varð Good Moon Deer
Samnorrænni tónleikaferð lýkur í kvöld á Harlem Bar
Íslenska tvíeykið Good Moon Deer meðal flytjenda
Good Moon Deer Guðmundur Ingi Úlfarsson og Ívar Pétur Kjartansson
hafa farið víða um Danmörku og Færeyjar á undanförnum vikum.
„Tíu af tólf greinum í Fléttum III eru frumsamdar, en í
bókinni er jafnframt að finna tvær þýðingar á grein-
um eftir heimsþekktar fræðikonur, þær Cynthiu Enloe
og Joni Seager,“ segir Guðni Elísson, einn ritstjóra.
Aðrir höfundar bókarinnar eru Alda Björk Valdimars-
dóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Benedikt Hjart-
arson, Björn Ægir Norðfjörð, Björn Þór Vilhjálmsson,
Dagný Kristjánsdóttir og Katrín María Víðisdóttir,
Daisy L. Neijmann, Kristín Björnsdóttir, Silja Bára
Ómarsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.
Fléttum III verður fagnað með útgáfuboði í Öskju
stofu 132 á morgun milli kl. 16 og 18. Þar taka til máls
ritstjórarnir Irma Erlingsdóttir og Guðni Elísson. Einnig flytja tveir grein-
arhöfundar erindi, þ.e. Cynthia Enloe rannsóknaprófessor við Clark há-
skóla, og Dagný Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum nútímabókmenntum
við HÍ. „Grein Enloe í fjallar um Dominique Strauss-Kahn hneykslið, þegar
þáverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var sakaður um að hafa
nauðgað hótelþernu á hóteli sem hann gisti á í New York í maí 2011, og þá
karllægu hugmyndafræði sem ríkti í fjármálageiranum og átti þátt í fjár-
málahruninu 2008,“ segir m.a. í formála að Fléttum III.
„Heimsþekktar fræðikonur“
ÚTGÁFUBOÐ Í ÖSKJU STOFU 132 Á MORGUN MILLI KL. 16 OG 18
Cynthia Enloe