Stígandi - 01.07.1945, Blaðsíða 38
VISUR UM EYJAFJORÐ
Eítir SIGURÐ SVEINBJÖRNSSON
Hún fögur er, vor feðrajörð,
hin frjálsa, tigna drottning.
En enga byggð sem Eyjafjörð
ég elska og veiti lotning,
því þó að okkar fósturfold
eins fagrar eigi sveitir,
þá er það, finnst mér, eyfirzk mold,
sem unað mestan veitir.
Og yndisfríð er eyfirzk strönd,
og eins hver dalajörðin.
Og það má sjá, að hagleikshönd
mun hafa skapað fjörðinn.
Hér streyma bjartar bergvatnsár
um breiða, fagra dali,
og margur lindarlækur smár
með ljúfu unaðshjali.
Og minningarnar mæla hér,
og mold og steinar kaldir.
En margt, sem löngu liðið er,
mun lifa þó um aldir.
Hér lifðu fyrrum frægðarmenn,
sem fögrum unnu dyggðum,
og sami lifir andinn enn
í Eyjafjarðarbyggðum.