Fréttablaðið - 27.02.2014, Qupperneq 24
27. febrúar 2014 FIMMTUDAGUR| SKOÐUN | 24
Skýrsla Hagfræðistofn-
unar er að mörgu leyti góð
– miðað við þann þrönga
stakk sem Gunnar Bragi
kaus að sníða henni í
erindis bréfi. Að því sögðu
tel ég að skýrslan sé af heil-
indum skrifuð, og prýðileg
að mörgu leyti.
Hver lítur silfrið sínum
augum. Gegnum mín er
skýrslan markverðust
fyrir að leggja til hvílu
margar helstu röksemdir
þeirra, sem vilja slíta viðræðum
við Evrópusambandið.
ESB er ekki sambandsríki
Fullyrt er: Ísland getur ekki gengið
í Evrópusambandið af því það er
sambandsríki, sem gleypir full-
veldið með húð og hári. Greinargerð
Stefáns Más Stefánssonar prófess-
ors hafnar því. Hann segir skýrt
að eðli Evrópusambandsins sé ekki
eðli sambandsríkis. Ég les ekkert úr
skýrslunni sem bendir til að sam-
bandið sé á þeirri leið. Fullveldis-
spurningunni er vel svarað – Ísland
tapar ekki fullveldi sínu við það að
verða aðili að Evrópusambandinu.
Sjálfur tel ég að með falli stjórn-
arskrár Evrópu fyrir nokkrum
árum hafi orðið kaflaskil. Þá var
þróun Evrópusambandsins í sam-
bandsríki hafnað. Þó einstakir leið-
togar, sumir valdamiklir, séu ann-
arrar skoðunar tel ég að í reynd sé
ekkert ríki á þeirri skoðun í dag, ef
frá er talin Belgía, vegna sérstakra
pólitískra aðstæðna í því landi.
Prófessor emeritus Stefán Már
segir líka skýrt, að Lissabon-sátt-
málinn sé ekki ígildi stjórnarskrár,
og leiðir fram að sáttmálinn hefur
aukið vægi þjóðþinganna, og styrkt
nálægðarregluna, sem flytur valdið
heim til héraða, og fólksins.
Auðlindirnar tryggar
Fullyrt er: Með inngöngu í sam-
bandið tapar Ísland forræði og
eignarhaldi á auðlindum sínum.
Ekkert slíkt kemur fram í skýrsl-
unni. Þvert á móti er skýrt, að regl-
an um hlutfallslegan stöðugleika er
í fullu gildi, og tryggir að ekkert
ríki getur gert kröfu um aflaheim-
ildir án sögulegrar veiðireynslu –
sem ekki er til! Íslendingar geta
því nýtt fiskistofna sína áfram eins
og fyrr. Aðild breytir heldur engu
um eignarhald og fullt forræði
Íslands á auðlindum í háhita eða
fallvötnum. Finnist olía á Dreka-
svæðinu getur ekkert ríki gert til-
kall til hennar þó Ísland verði aðili
að ESB – nema síður væri.
Sérlausn í sjávarútvegi
Í frægri Berlínarræðu kastaði Hall-
dór Ásgrímsson fyrst fram
hugmyndinni um að vanda-
mál sem varða sjávar-
útveg, einkum sér íslenskt
fiskveiðisvæði, yrðu leyst
með sérlausn. Þá aðferð notar ESB
til að klæðskerasníða lausnir sem
varða sérstök vandamál einstakra
umsóknarríkja. Þessi hugmynd
er reifuð í Evrópuskýrslu Björns
Bjarnasonar, sem líta má á sem eins
konar fræðilegan grundvöll fyrir
aðildarumsókninni.
Andstæðingar aðildar hafa klifað
á því að ekki sé völ á neinum sér-
lausnum gagnvart Evrópusamband-
inu. Þessi röksemd er endanlega
lögð til hvílu í lagalegri úttekt Stef-
áns Más prófessors – sem ekki verð-
ur talinn til æstra ESB-sinna. Hann
segir skýrt, að sérlausn er fær leið,
sem samrýmist reglum ESB.
„Það er ekkert um að semja“
Fullyrt er: Ísland verður að taka
upp reglur Evrópusambandsins
blóðhráar og það er ekkert um að
semja. Í skýrslunni kemur fram að
engir sjáanlegir annmarkar eru á
samningum við langflesta kaflana,
sem um þarf að semja. Andstæð-
ingar klifa á að ómögulegt verði að
semja um sjávarútveg og landbún-
að. Í skýrslunni koma fram merk-
ar upplýsingar eins höfundar eftir
samtöl við Brussel, þar sem fram
kemur að engin óleysanleg vanda-
mál eru sjáanleg í landbúnaði.
Þær eru að vísu faldar í viðauka.
Ein meginniðurstaða skýrslunn-
ar þegar hún er lesin í samhengi
er því að í reynd er það fyrst og
fremst sjávarútvegur, sem gæti
orðið vandamál í blálok samning-
anna. Eins og fyrr segir þá slær
Stefán Már prófessor í gadda að
sérlausn er möguleiki samkvæmt
reglum ESB. Stefan Fühle stækk-
unarstjóri hefur væntanlega haft
það í huga þegar hann gaf nýlega
út yfirlýsingu um að skammt væri
í að Evrópusambandið gæti lagt
fram tillögu um sjávarútveg sem
væri ásættanleg fyrir Ísland.
Í þessu ljósi er ekki hægt að
komast hjá þeirri niðurstöðu, að
skýrslan hefur svarað öllum helstu
röksemdum andstæðinga aðildar.
Hún er því ekkert tilefni til þess
að slíta viðræðum núna. Þvert á
móti bendir hún til að rökrétt sé
að ljúka þeim.
Hagfræðistofnun –
rök gegn aðild
lögð til hvílu
Íslendingar hafa mótað
eigin utanríkisstefnu í
tæp 100 ár eða allt frá full-
veldisdeginum 1. desem-
ber 1918. Utanríkisstefn-
unni má skipta niður í þrjú
tímabil. Þau eru mörkuð
af breytingum í alþjóða-
samfélaginu sem íslensk
stjórnvöld urðu að bregð-
ast við. Fróðlegt er að fara
yfir hvað vel tókst og hvað
miður í utanríkisstefnunni
í ljósi yfirstandandi deilna
um hvert stefna beri á
nýrri öld.
Fyrsta tímabilið náði til heims-
styrjaldarinnar síðari. Áherslur
stjórnvalda voru tvenns konar. Mest
kapp var lagt á að bæta markaðs-
aðgang fyrir sjávarafurðir á erlenda
markaði og lýst yfir ævarandi hlut-
leysi í vopnaskaki stórvelda. Erf-
iðlega gekk að tryggja aðgang að
mörkuðum í haftastefnu kreppu-
áranna. Bandaríkin höfðu engan
áhuga á að versla við landsmenn og
Evrópa var áfram helsti markaður
fyrir sjávarafurðir. Hlutleysisstefn-
an beið skipbrot í stríðinu.
Annað tímabilið var markað af
kaldastríðsárunum eftir umbreyt-
ingarskeið stríðsáranna. Utanríkis-
stefnan byggði á þremur stoðum:
stækkun landhelginnar, bættum
markaðsaðgangi fyrir sjávaraf-
urðir og þátttöku í varnarsamvinnu
lýðræðisríkja. Vel tókst til við
stækkun landhelginnar og varn-
ir landsins. Brösuglega gekk hins
vegar að semja um niðurfellingu
tolla og annarra viðskiptahindrana
fyrir sjávarútveginn. Það breytt-
ist ekki fyrr en Ísland gekk í EFTA
árið 1970 með það að markmiði
að taka þátt í gerð fríverslunar-
samnings EFTA við ESB. Það gekk
eftir og var samningurinn talinn
íslenskum sjávarútvegi mjög hag-
stæður. Mest af útflutningi sjáv-
arafurða fór til Vestur-Evrópu en
viðskipti við kommúnistaríkin og
Bandaríkin voru einnig umfangs-
mikil. Þau voru hins vegar mismikil
eftir tímabilum og þeim annmörk-
um háð að austurblokkin krafðist
vöruskipta og Bandaríkja-
markaður var óáreiðan-
legur.
Þriðja tímabilið mark-
aðist af fullkomnun innri
markaðar ESB, hruni
Sovétríkjanna og aukinni
alþjóðavæðingu frá byrjun
10. áratugar síðustu aldar.
Frá þeim tíma hefur
utanríkisstefna Íslands
byggst á EES-samningum,
áframhaldi varnarsam-
vinnunnar og tilraunum
til að auka samvinnu og
útflutning til fjarlægari ríkja.
Meginstoð stefnunnar
Aðildin að EES hefur verið megin-
stoð stefnunnar enda tryggir hún
Íslendingum aðgang að mörkuð-
um og menntastofnunum ESB-
ríkja. Útflutningur sjávarafurða
er að langmestu leyti tollfrjáls til
ESB. Þangað fara yfir 80 prósent
af útflutningi landsmanna, þaðan
koma langflestir ferðamenn og til
ESB-ríkja sækja flestir Íslending-
ar sem leita út fyrir landsteinana.
Það var ekki fyrr en að Ísland gerð-
ist þátttakandi í innri markaði ESB
að íslensk fyrirtæki gátu starfað
á jafnréttisgrundvelli við erlenda
samkeppnisaðila og Íslendingum
var frjálst að ferðast og vinna í
stærstum hluta Evrópu. Viðskipta-
samningar og sem nánast samneyti
við önnur Evrópuríki hefur ætíð
komið landsmönnum best.
Bandaríkin gáfu okkur aftur á
móti langt nef með brottför varnar-
liðsins og hafa augljóslega lítinn
áhuga á að verða bakhjarl lands-
manna í framtíðinni.
Tilraunir til að koma á nánu sam-
starfi og auka verulega útflutning
til fjarlægari heimshluta hafa að
mestu leyti mistekist þó ekki megi
gera lítið úr auknum viðskiptum
við þessa markaði. Liður í þessari
stefnu var umsóknin um aðild að
öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Hún var sneypuför.
Landsmenn standa nú enn og
aftur á tímamótun eftir efnahags-
hrunið. Íslenskt atvinnulíf stendur
höllum fæti í erlendri samkeppni,
Íslendingar hafa ein lægstu laun
sem fyrirfinnast í Vestur-Evrópu
og landið er í klakaböndum gjald-
eyrishafta. EES-aðildin er mikil-
væg og hagstæð en hefur ekki
skilað nægilegum efnahagslegum
ávinningi. Utanríkisstefna byggð
á ofangreindum þremur stoðum
þessa síðasta tímabils hefur í raun
beðið skipbrot.
Valkostirnir
Hvaða valkostir eru í stöðunni við
mótun nýrrar utanríkisstefnu?
Samstaða er um að halda áfram
varnarsamstarfinu og efla tengsl
við Norðurlöndin. Auk þessa er
okkur gefinn kostur á að velja milli
þriggja kosta: Norðurslóða, ESB
og nánari samvinnu við fjarlægari
heimshluta: Rússland, Kína og Ind-
land.
Ekkert er fast í hendi um mögu-
legan ávinning af opnun siglingar-
leiðarinnar á norðurskauti á næstu
áratugum. Viðskipti við risaríkin
þrjú hafa ekki vaxið eins og von-
ast var til og stjórnarhættir í þeim
eru skelfilegir. Enginn getur sagt
fyrir um þá þróun sem þar verður.
ESB er tilbúið til viðræðna um að
veita aðstoð við afnám gjaldeyris-
hafta, upptöku nýs gjaldmiðils og
veita landbyggðinni umfangsmikla
styrki til nýsköpunar.
Núverandi stjórnvöld hafa kostið
norðurheimsskautið og aukin tengsl
við fjarlæga heimshluta. Áfram
verður skakklappast með EES-
samninginn þó að stjórnvöld virðist
í raun hafa allt sem honum tengist
á hornum sér. Þetta er athyglisvert
í ljósi viðskiptahagsmuna, kjara
almennings og mennta- og menn-
ingarsamskipta. Getum við litið til
sögunnar og lært af henni?
Má læra af sögunni?
Fyrir Alþingi liggur nú
frumvarp innanríkis-
ráðherra til breytinga á
lögum um útlendinga. Þar
er meðal annars kveðið á
um sjálfstæða kærunefnd
sem mun fjalla um kæru-
mál á grundvelli útlend-
ingalaga, í stað innan-
ríkisráðuneytisins líkt
og nú er. Það er jákvætt
ef myndast getur þver-
pólitísk samstaða um að
koma slíkri kærunefnd
á laggirnar, enda hafa
íslensk stjórnvöld ítrekað sætt
gagnrýni fyrir núverandi fyrir-
komulag, einkum vegna máls-
meðferðar hælisumsókna. Hins
vegar vekur furðu hve ráðherrann
hefur útvatnað fyrri tillögur sem
lágu fyrir í innanríkisráðuneyt-
inu, bæði í skýrsluformi og frum-
varpsformi.
Gagnrýni frá
Flóttamannastofnun
Forsaga málsins er sú að Ögmund-
ur Jónasson, þá innanríkisráð-
herra, skipaði starfshóp árið 2011
sem var falið að gera tillögur að
breytingum á lögum er lúta að
aðgengi útlendinga utan EES að
landinu. Undirrituð fór fyrir þeim
starfshópi. Eitt af þeim verkefn-
um sem hópurinn tókst á við var
að meta að nýju hvort setja skyldi
á laggirnar sjálfstæða kærunefnd
í útlendingamálum, einkum hælis-
málum. Flóttamannastofnun Sam-
einuðu þjóðanna hefur ítrekað
komið þeirri gagnrýni á framfæri
við íslensk stjórnvöld að ráðuneyt-
ið geti ekki talist óháður úrskurð-
araðili þar sem undirstofnun þess
(það er Útlendingastofnun) tekur
hina kæranlegu ákvörðun.
Hér vegur þungt að
ákvörðun um veitingu
hælis er vandasöm og erf-
itt getur verið að leggja
heildarmat á aðstæð-
ur einstaklings. Þessi
ákvörðun hefur jafn-
framt úrslitaáhrif á líf
viðkomandi, sem hefur
ekki alltaf gögn til að
sanna mál sitt og getur
því þurft að sýna fram á
trúverðugleika sinn með
öðrum hætti.
Ítarleg útfærsla
Starfshópurinn kynnti sér ítarlega
fyrirkomulag kærumála á Norð-
urlöndunum, einkum í Noregi og
Danmörku þar sem lagaumhverfi
er svipað því íslenska. Var það
eindregin niðurstaða nefndarinn-
ar að setja ætti á laggirnar sjálf-
stæða kærunefnd, a.m.k. í mál-
efnum hælisleitenda. Sérstaklega
var tekið fram að hælisleitendur
ættu að eiga þess kost að koma
fyrir nefndina til að tala máli
sínu. Í frumvarpi sem unnið var á
grunni skýrslu nefndarinnar var
því kveðið á um slíka kærunefnd
og útfært með ítarlegum hætti
hvernig hún skyldi skipuð.
Þannig var gert ráð fyrir að
staða formanns væri auglýst í
samræmi við lög um réttindi og
skyldur starfsmanna ríkisins. Var
það gert að skilyrði að umsækj-
endur uppfylltu starfsgengisskil-
yrði héraðsdómara. Þriggja manna
nefnd mæti síðan hæfi umsækj-
enda og ráðherra væri óheimilt
að víkja frá því mati. Hinir nefnd-
armennirnir skyldu skipaðir eftir
tilnefningum Mannréttindastofn-
unar Háskóla Íslands og Mann-
réttindaskrifstofu Íslands. Annar
skyldi hafa sérþekkingu á flótta-
mannamálum og hælismálum og
hinn á útlendingamálum í breiðari
skilningi.
Raunveruleg réttarbót
Í frumvarpi því sem nú liggur
fyrir Alþingi er enga slíka
útfærslu að finna. Staða formanns
skal auglýst og nægir að hann hafi
lokið fullnaðarprófi í lögum. Hina
nefndarmennina skipar ráðherra
og hvergi kemur fram hvernig
þeirri skipun skuli háttað.
Það er jákvætt að núverandi
innanríkisráðherra haldi á lofti
þeim tillögum að breytingum á
útlendingalögum sem náðist víð-
tæk sátt um á síðasta kjörtímabili.
Forsenda þess að setja á laggirn-
ar sjálfstæða kærunefnd er hins
vegar að hún sé óháð ráðuneytinu.
Með þessu móti er því þveröfugt
farið. Tveir af þremur fulltrúum
verða skipaðir af ráðherra einum
og hafa þar af leiðandi úrslitaáhrif
í öllum málum sem nefndin fær til
meðferðar. Þetta fyrirkomulag
kemur ekki til móts við þá gagn-
rýni sem íslensk stjórnvöld hafa
sætt á alþjóðavettvangi. Hanna
Birna Kristjánsdóttir þarf því að
skýra hvers vegna þessi leið er
farin. Alþingi breytir frumvarpinu
vonandi til betri vegar þannig að
réttarbótin sem það kveður á um
verði raunveruleg.
Útvötnuð kærunefnd
EVRÓPUMÁL
Össur
Skarphéðinsson
alþingismaður
➜ Fullveldisspurn-
ingunni er vel svarað
– Ísland tapar ekki
fullveldi sínu við
það að verða aðili að
Evrópusambandinu.
UTANRÍKISMÁL
Baldur
Þórhallsson
prófessor í stjórn-
málafræði við
Háskóla Íslands
➜ Áfram verður skakklapp-
ast með EES-samninginn þó
að stjórnvöld virðist í raun
hafa allt sem honum tengist
á hornum sér.
ÚTLENDINGALÖG
Halla
Gunnarsdóttir
fyrrverandi aðstoðar-
maður innanríkis-
ráðherra
➜ Forsenda þess að setja á
laggirnar sjálfstæða kæru-
nefnd er hins vegar að hún
sé óháð ráðuneytinu. Með
þessu móti er því þveröfugt
farið.