Læknablaðið - 15.03.2012, Blaðsíða 37
Ú R PENNA STJÓRNARMANNA LÍ
Heilbrigðisþjónustan: rekstrarform og árangur
Þorbjörn
Jónsson
læknir og sérfræðingur
í ónæmisfræði,
formaður Læknafélags
Islands
thorbjor@landspitali.is
Undanfarnar vikur hefur verið mikil
umfjöllun um svikna brjóstapúða frá
franska framleiðandanum Poly Implants
Prothéses (PIP). Um bestu úrræðin fyrir
konurnar sem þá bera, ósk landlæknis um
að halda skrá yfir allar konur sem farið
hafa í brjóstastækkun á Islandi undan-
farin 10 ár, meint skattalagabrot lækna og
einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Alltof oft
hefur þessum óskyldu umfjöllunarefnum
verið hrært saman í einn graut, stundum
jafnvel farið rangt með staðreyndir og
útkoman hefur of oft orðið óskapnaður
sem ekki hefur verið hægt að henda reiður
á. Það er sérstaklega alvarlegt þegar aðilar
sem bera mikla ábyrgð í samfélaginu tala á
slíkum nótum. Þegar verið er að fjalla um
flókin mál og viðkvæm verður umræðan
að vera ábyrg.
Stundum virðist markmiðið vera að
koma höggi á einkarekna læknisþjónustu,
væntanlega í þeim tilgangi torvelda eða
minnka slíka starfsemi í framtíðinni.
Af þessu tilefni er rétt að drepa niður
penna og fara nokkrum orðum um heil-
Tafla. Samantekt á komum til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, til heilsugæslulækna og á
Landspítalann árið 2010.
Sérgreinalækningar
Komur til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna 455.000
Komur á einkareknar blóðrannsóknarstofur 66.000
Komur á einkareknar myndgreiningarstofur 50.000
Heilsugæslan
Komurtil heilsugæslulækna 632.000
Landspítalinn
Komur á göngudeildir 250.000
Komur á dagdeildir 89.000
Komur á bráðamóttökur 91.000
brigðiskerfi okkar sem er að mörgu leyti
ágætt, um góðan árangur undanfarin ár
og áratugi og hlut einkarekinnar læknis-
þjónustu. Meðfylgjandi tafla gefur nokkra
hugmynd um umsvif einkarekinnar
læknisþjónustu í samanburði við umsvif
heilsugæslunnar og Landspítalans. Komur
til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og á
einkareknar rannsókna- og myndgrein-
ingastofur voru árið 2010 meira en 550.000,
eða litlu færri en en til heilsugæslunnar.1-2
Þetta er mikill fjöldi og það gefur auga leið
að þessi þjónusta verður ekki flutt inn á
spítalana og heilsugæsluna án þess að það
kosti stórfé í aðstöðu og mannafla. Auk
þess er ólíklegt að þjónustan myndi batna
eða verða ódýrari. Það má hins vegar leiða
rök að því að fjölbreytni geti verið liður í
kostnaðaraðhaldi.
Síðastliðið haust kom út skýrsla sem
velferðarráðuneytið lét ráðgjafarfyrir-
tækið Boston Consulting Group vinna
um íslenska heilbrigðiskerfið. Það var mat
skýrsluhöfunda að árangur íslenska heil-
brigðiskerfisins væri mjög góður borið
saman við önnur Evrópulönd. Tiltekið
var að mjög góður árangur hefði náðst í
meðferð á bráðri kransæðastíflu, á brjósta-
krabbameini og meltingarfærakrabba-
meinum (qualitxj ranking=very high). Góður
árangur hefði náðst í meðferð á langvinnri
nýrnabilun, heilablóðfalli og liðskiptaað-
gerðum í hnjám (quality ranking=high).
Miðlungsgóður árangur í meðferð á vagli
í auga og í liðskiptaaðgerðum á mjöðmum
(quality ranking=medium). Aðeins einu
sinni taldist árangur vera slakur og var
það í meðhöndlun á sykursýki (quality
ranking=low). Sé horft á grófari mæli-
kvarða, svo sem meðalævilíkur og tíðni
ungbarnadauða, hafa íslendingar ávallt
komið vel út. Auðvitað eru ekki til góðir
eða áreiðanlegir árangurs- eða gæðamæli-
kvarðar fyrir allt, en dæmin sem að ofan
eru talin eru augljóslega merki um góðan
árangur. Skýrsla Boston Consulting Group
sýnir líka að útgjöld til heilbrigðiskerfisins
eru hófleg borið saman við mörg önnur
Evrópulönd. Þegar metin eru gæði annars
vegar og kostnaður hins vegar (árið 2007)
voru Islendingar á svipuðu róli og Svíar
og Norðmenn. Danir, hins vegar, sýndu
heldur lakari árangur fyrir hlutfallslega
meiri kostnað.
Það er skoðun mín að fjölbreytni innan
heilbrigðiskerfisins sé af hinu góða og
raunar nauðsynleg þar sem hægt er að
koma slíku við. Mismunandi rekstrarform
eru hluti af þessu og ólík rekstrarform geta
hentað sérgreinum og sjúklingum misvel.
Til dæmis getur ákveðnum sjúklingum
hentað best að sækja þjónustu fyrir sig
og sína á nærliggjandi heilsugæslustöð
í opinberum rekstri, en öðrum hentað
ágætlega að sækja til heimilislæknis sem
rekur sína eigin læknastofu. Sums staðar
verður fjölbreytni illa við komið, til dæmis
vegna þess að fáir sjúklingar eru með
ákveðna sjúkdóma eða að þjónustan er
mjög sérhæfð eða flókin.
Að lokum þetta: meginniðurstöður
Boston Consulting Group skýrslunnar eru
þær að undanfarin ár hafi heilbrigðiskerfið
skilað góðum árangri og rekstrarkostn-
aður hafi verið hóflegur. Kerfið er hins
vegar ekki gallalaust, til dæmis hefur
verið nefnt að læknar eigi erfitt með að
koma sjúklingum áfram til sérfræðilækna
í vissum sérgreinum. Ur því þarf að bæta.
En í stað þess að umbylta kerfinu og fækka
valkostum ættum við að reyna hið gagn-
stæða. Það ætti að vera hægt án þess að
gæði þjónustunnar skerðist eða hún verði
dýrari.
Heimildir
1. Boston Consulting Group. Health Care System reform
and short term savings opportunities. Iceland Health Care
System project. Skýrsla unnin fyrir velferðarráðuneytið,
Reykjavík 2011:1-47.
2. Sjúkratryggingar íslands. Útgjöld vegna sérgreina-
lækninga, fjöldi sérgreinalækna, komur og skipting á
kostnaði 2010. sjukra.is/um-okkur/fraedsla/stadtolur/
toflur-fyrir- arid-2010/ - febrúar 2012.
Stjórn LÍ
Þorbjörn Jónsson, formaður
ValgerðurÁ. Rúnarsdóttir, varaformaður
Magnús Baldvinsson, gjaldkeri
Anna K. Jóhannsdóttir, ritari
Árdís Björk Ármannsdóttir
Orri Þór Ormarsson
Salome Ásta Arnardóttir
Steinn Jónsson
Þórey Steinarsdóttir
I pistlunum Úrpenna stjórnarmanna LÍ birta
þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.
LÆKNAblaðið 2012/98 169