Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.07.2013, Page 7

Læknablaðið - 15.07.2013, Page 7
RITSTJÓRNARGREIN Hrafn Sveinbjarnarson, fyrsti íslenski læknirinn. Minning 800 árum síðar Ráðstefna á Hrafnseyri við Arnarfjörð, 24. ágúst 2013 Sigurður Guðmundsson læknir, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúk- dómum, lyflækningasviði Landspítala, prófessor, læknadeild Háskóla íslands. siggudm@landspitali.is „Atburðir margir, þeir er verða, falla mönn- um oft úr minni en sumir eru annan veg sagðir en verið hafa og trúa því margir er logið er en tortryggja það satt er".1 Þannig hefst Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hin sérstaka. Þarna lýsir höfundur réttmætum efasemdum sínum um langminni lýðsins. Það var hverfult á tímum söguritara rétt eins og nú. Ekki á það síst við þegar fjallað er um pólitík, þá eins og nú. Hrafns saga fjallar enda um pólítík. Hún er talin vera nokkurs konar pólitískt varnarrit að Hrafni látnum undir miklum áhrifum frá helgisögnum miðalda.2 Ut- dráttur Hrafns sögu sem birtist í Sturlungu er styttri, ekki síst hefur höfundur Sturl- ungu fellt úr þeim köflum sem mest gera úr helgiljóma Hrafns, en meira fjallað um deilur hans við banamann sinn Þorvald Vatnsfirðing.2 Sagan hin sérstaka minnir því e.t.v. á ævisögur samtímans, einkum þær sem skrifaðar eru af aðdáendum nýlát- inna mikilmenna. Því mikilmenni var Hrafn, fjölvís hæfi- leikamaður. Ef hann hefði fæðst nokkrum öldum síðar hefði hann vafalítið orðið okkar helsti endurreisnarmaður. Honum er svo lýst í sögunni að hafa orðið „snemm- endis mikill atgervismaður. Hann var völ- undur að hagleik bæði að tré og að járni og skáld", en höfundur sögunnar bætir þar við af sagnfræðilegu raunsæi og heiðarleik að „þó hann hafi fátt kveðið svo að vér vitum". Þessi viðbót hlýtur að auka trúverðugleik og heilindi söguritara. Hrafni er svo áfram lýst að hann var „hinn mesti læknir og vel lærður, ... , lögspakur maður og vel máli farinn og að öllu fróður". Honum er enn- fremur lýst sem miklum á velli og atgervis- manni, hann var „syndur vel og við allt fimur það er hann hafðist að, bogmaður mikill og skaut manna best handskoti".1 Þetta er maðurinn sem við íslensir læknar viljum að sé minnst sem fyrsta ís- lenska lærða læknisins, mannsins sem ætti að hafa læknanúmerið 0001. Auðvitað hafa ýmsir aðrir landar okkar sinnt sjúkum, læknað og líknað á þessum tímum, þar með talið löngu fyrir hans daga. Heim- ildir munu þó óvissar um skólun þeirra, þó snjallir væru þeir margir. Erfitt er að minnast ekki á hvernig Þorgerður Egils- dóttir læknaði föður sinn Skallagrímsson af hugsýki og sorg í sjálfsvígshugleiðingum eftir sonarmissi. Hún beitti þar brögðum og mannlegu innsæi, aðferðafræði sem enn er beitt í nútíma læknisfræði. Kannski var Þorgerður fyrsti íslenski geðlæknirinn eða geðhjúkrunarfræðingurinn. I Hrafni höfum við læknar samt ákveð- ið tákn, hann var okkar fyrstur, og þannig viljum við hugsa til hans. Hann er okkur nauðsynlegur sem upphaf, einhvers konar ármaður. Síðan hefur okkur fjölgað, að vísu hægt næstu aldirnar en hraðar síðar, og þekking okkar vaxið og dafnað. Næsti bautasteinn læknisfræðinnar hérlendis er svo auðvitað Bjarni Pálsson, um fimm og hálfri öld síðar, sem líka á að vera okkur tákn og fyrirmynd. Þeir Hrafn og Bjarni verðskulda háan sess í hugum okkar nú- tímalækna, og ég held að þann sess hafi þeir báðir. Um Hrafn, ævi hans sem höfðingja, píla- gríms og læknis verður fjallað á ráðstefnu sem haldin verður á Hrafnseyri þann 24. ágúst n.k. Hún er haldin til að minnast þess að 800 ár voru í mars síðastliðnum liðin frá því að Þorvaldur Vatnsfirðingur stóð að vígi Hrafns. A ráðstefnunni munu fimm fræðimenn fjalla um ævi hans, lækningar, kirkjuleg áhrif, skáldskapinn og pólitískar deilur. Fleiri munu einnig um hann fjalla í tali og tónum. Ágrip erinda eru birt í þessu tölublaði Læknablaðsins ásamt fjöl- breyttri dagskrá. Hrafni og ævi hans hafa áður verið gerð góð skil á síðum blaðsins af þeim Erni Bjarnasyni3'4 og Páli Ásmunds- syni.5 Hér leggja fleiri hönd á plóg, fólk með þekkingu á sagnfræði, trúarbrögðum, nor- rænum fræðum og lækningum tekur hönd- um saman og bregður skýrara ljósi á ævi og störf þessa merka manns, táknmyndar okkar lækna. Heimildir 1. Hrafns saga Sveinbjamarsonar hin sérstaka. Sturlunga saga II. Ritstj. Ömólfur Thorsson, Svart á hvítu 1988: 883- 931. 2. Sturlunga saga, skýringar og fræði. Inngangur. Ritstj. Ömólfur Thorssson, Svart á hvítu 1988:xxviii. 3. Öm Bjamason. Kristinn heimur miðalda og Hrafn Sveinbjamarson. Læknablaðið 2004; 90:167-70. 4. Öm Bjamason. Hrafn Sveinbjarnarson - líkn og lækningar. Læknablaðið 2004; 90: 253-7. 5. Páll Ásmundsson. 800 ár frá vígi Hrafns Sveinbjamarsonar. Læknablaðið 2013;99:164-5. The first lcelandic physician, Hrafn Sveinbjarnarson. In memoriam - 800 years later. Sigurður Guðmundsson Consultant in Internal Medicine and Infectious Diseses, Landspítali University Hospital, Professor, School of Medicine, University of lceland. LÆKNAblaðið 2013/99 327

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.