Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.07.2013, Page 40

Læknablaðið - 15.07.2013, Page 40
UMFJÖLLUN O G GREINAR Hrafn Sveinbjarnarson - höfðingi, pílagrímur og læknir Ráðstefna á Hrafnseyri við Arnarfjörð 24. ágúst 2013 Hrafn Sveinbjarnarson er talinn fyrstur lærðra íslenskra lækna. Hann fæddist að öllum líkindum 1166 og var af læknum kominn. Hann var miklum mannkostum búinn, bjó stórbúi á Eyri við Arnarfjörð og var þar goðorðsmaður. Af lækningum hans fór miklum sögum. Hann nam þær í fyrstu af föður sínum, en síðan fór hann suðurveg til St. Gilles eða Ilansborgar á Spáni þar sem Jóhannesarriddarar kenndir við Jóhannes skírara helguðu líf sitt aðhlynningu sjúkra og særðra. Þaðan fór Hrafn til Rómar og er líkum að því leitt að hann hafi numið við læknaskólann í Salerno skammt sunnan Rómar, en þar var líklega fyrsti læknaskóli heims, stofn- aður á 9. öld. Hrafn átti í deilum við Þorvald Vatnsfirðing Snorrason árum saman, og varð hann Hrafni að bana í mars 1213, fyrir réttum 800 árum. Synir Hrafns hefndu föðurmorðins 12 árum síðar með því að brenna inni Þorvald Vatnsfirðing. Ráðstefna um Hrafn verður haldin á Hrafnseyri 24. ágúst n.k. og eru hér að neðan ágrip erinda sem þar verða flutt. Annar leiðari þessa tölublaðs Læknablaðs- ins er jafnframt helgaður Hrafni. Lækningar og sáluhjálp. Um viðhorf til lækninga í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar Ásdís Egilsdóttir Ásamt jarteinum íslensku dýrlinganna er Hrafns saga Sveinbjarnarsonar mikilvægasta heimildin um sjúkdóma, lækningar og viðhorf til lækninga á miðöldum á Is- landi. í upphafi þeirrar gerðar Hrafns sögu sem varðveitt er sérstök segir frá því hvernig hæfileikinn til lækninga kom inn í ætt Hrafns. Það gerðist „af guðs miskunn" fyrir tilstilli Ólafs helga. Sá munur er einkum á frásögnum Hrafns sögu og jarteinum að Hrafn er læknir að störfum í lifanda lífi en ekki dýrlingur sem ákallaður er með bænum. f öllum tilvikum er þó ljóst að læknirinn eða dýrlingurinn vinnur verk sín ekki af eigin rammleik. Hinn eiginlegi læknir er Guð og veraldlegur læknir getur veitt mönnum líkn fyrir hans náð. Þetta kemur skýrt fram í lengstu lækningasögunni í Hrafns sögu þar sem Hrafn læknar mann af steinsótt. Áður en Hrafn gerir aðgerð á sjúklingnum leitar hann til presta og pater noster (faðir vor) er sungið fimm sinnum meðan sjálf aðgerðin er framkvæmd. Þannig er annar læknir að störfum ásamt Hrafni. Sá munur er einnig á jarteinum og Hrafns sögu að meiri áhersla er á hinum veraldlega lækni og hlutdeild hans í Hrafns sögu. í jarteinum beinist athyglin meira að þeim sem þurfa á hjálp að halda. Dýrlingurinn er þá oftast látinn og orðinn meðalgöngumaður milli Guðs og manna. Mikilvægustu jarteinir dýrlinga eru endurómur af Spádómsbók Jesaja 35, 5 - 6 og sögum af lækningum Krists í guðspjöllunum. Þannig er frá því greint í Jarteinabók Þorláks helga frá 1199 að blindur maður hafi fengið sýn og daufur heyrn fyrir meðalgöngu dýrlingsins. Athyglis- vert er að ekki er frá því greint að Hrafn hafi læknað blinda eða heyrnarlausa. Eina lækningin í Hrafns sögu sem gæti átt sér samsvörun í biblíulegum undirstöðujar- teinum er sagan um Þorgils nokkurn „er tók vitfirring". Lýsingin á Hrafni í Hrafns sögu minnir um margt á heilagra manna sögur en dýrlingur varð hann þó ekki. Ef svo hefði verið er líklegt að bætt hefði verið við biblíulegum jarteinum og lýsingar á lækningum Hrafns hefðu tekið á sig blæ jarteina. Jarteinir voru ekki einungis skráning á sjúkdómum og lækningum við þeim heldur voru þær vitnisburður um mátt Guðs og áttu að minna á upprisuna á dómsdegi. Þannig voru þær um leið sífelld áminning um mikilvægi sáluhjálpar. Höfundi Hrafns sögu er umhugað um sáluhjálp eins og títt er um miðaldahöfunda. Sagt er um Hrafn Sveinbjarnarson að hann hafi ekki metið lækningar sínar til fjár og að hann hafi alið önn fyrir fátækum sjúklingum þar til þeir höfðu náð heilsu. Sagan gefur þó til kynna að Hrafn hafi ekki verið launalaus. Laun hans voru í formi sáluhjálpar, því Kristur veitti honum „andliga lækning á dauðadegi hans". Honum er lýst sem örlátum og hjálpsömum manni sem gaf öllum þeim sem komu á heimili hans mat og húsaskjól. Þá er sagt að hann hafi látið flytja alla yfir Arnarfjörð sem á þurftu að halda, einnig átti hann skip á Barðaströnd og lét flytja menn á því yfir Breiðafjörð: „Ok af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvárum tveggjum firðinum fyrir hverjum er fara vildi". Brúarsmíði taldist til kristilegra dyggða á miðöldum. Fé- gjafir til brúarsmíði jafngiltu því að gefa fé til kirkju. Brúin kom ferðalöngum milli staða og yfir torfærur. í táknheimi mið- aldakristninnar vísaði brúin sálum hinna látnu á hinn rétta veg til Guðs. Hrafns saga dregur fram að hæfileikinn til að lækna sé þeginn af Guði og lækningarnar eru þannig liður í guðrækni Hrafns. Hann kemur sjúkum til hjálpar og getur vænst sáluhjálpar fyrir góðverk sín. 360 LÆKNAblaðið 2013/99

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.