Listin að lifa - 01.06.2005, Page 49

Listin að lifa - 01.06.2005, Page 49
Sambýliö í Gull- smáranum í stóru íbúðablokkunum í GuIIsmáranum leynist enn eitt sam- býlið sem Ólöf Halldórsdóttir veitir forstöðu. „Kópavogsbær keypti alla hæðina 1995 og útbjó sambýli úr fjórum íbúðum fyrir aldraða Kópavogsbúa sem gátu ekki lengur búið einir, en þurftu ekki hjúkrun. Hér búa tíu konur, allar í einbýlum,“ segir Ólöf. Þorbjörg að skola mjólkurfernurnar. Síðan brýtur hún þær saman og raðar niður í kassa fyrir endurvinnsluna. Sambýlið nýtur nálægðar við félagsþjónustuna í Gullsmára 13. Ólöf segir konurnar of fullorðnar og veikburða til að nýta sér þá þjónustu, en yfirbyggðu glergöngin á milli húsanna eru vinsæl til gönguferða. Ólöf talar um hve lítið sé af bekkjum til að setjast og hvíla sig, bæði innan dyra í Smáralind og utan dyra, en búðarferð sé heilmikið starf með veikburða einstaklinga. Ólöf segist skynja vel ólíkar aðstæður sem þessar konur ólust upp við. „Þetta er fólk sem er fjörutíu árum eldra en ég - þekkir t.d. ekki þá upplyftingu að fara út að borða. Ég hef reynt að fara með þær á kórakvöld hjá félagsþjónustunni, en hávaðinn fer misvel í þær.“ Allar á leið í Saltfisksetrið í Grindavík. Talið ffá vinstri: Þorbjörg, Guðrún, Júlíana, Áróra, Berglind matráður og Þóra, ásamt Ólöfú forstöðumanni. En Ólöf drífur þær með sér í vor-, sumar- og haustlitaferð. „Vor- ferðina köllum við kettlinga-, hvolpa- eða lambaferð þegar ung- viðið er að vakna til lífsins og gróðurinn að lifna við. Töðugjöldin eru í salnum hérna á efstu hæðinni. Þá fæ ég skemmtikrafta og býð sambýlinu á Skjólbrautinni til veislugleði. Prestarnir í Digra- nessókn koma hingað mánaðarlega. Ef söfnuðurinn kemst ekki i kirkju, þá verður kirkjan að koma til hans. Félagsstarfið felst í allri virkni og samveru, gönguferðum úti og inni - að vera með í hreyfingu og söng, samlestri og framhalds- sagan er alltaf í gangi. Bingó er vikulega, vinningurinn er að sitja saman og njóta samverunnar. Við syngjum mikið og lesum ljóð. Þær elska allar Einar Ben, Jónas og Davíð - kunna ljóðin utan að og stynja af ánægju að heyra þau lesin. Konurnar eiga stórt hlutverk í heimilisstarfinu, stundum erum við alveg að missa völdin, þær eru svo duglegar. Ein er póstmeistari, önnur ruslamálaráðherra sem er ekki lítið starf, en við höldum til haga öllum dagblöðum, bæklingum og mjólkurf- ernum sem síðan er skilað mánaðarlega út á endurvinnslustöð," segir Ólöf. Við göngum um sambýlið, hittum Þorbjörgu sem á fallega orgelið í forstofunni. Hún er öll í ljóðum, lögum og vísum, á fagra söngrödd og líður best þegar hún er að syngja. Hún er nýkomin úr gönguferð, gekk upp brunastigann á 9. hæð til að fá meiri þjálfun. Kristín er aldursforsetinn, 93ja ára, og nýkomin úr augn- steinaaðgerð, svo að hún getur nú aftur lesið á bók. Hún segir ellina fara illa með sig, að fætur, axlir og hendur séu undirlögð. Samt sprettur hún á fætur og nær í konfekt til að bjóða okkur. Fanney, 91 árs, var að flytja inn með gítarinn sinn. „Þegar heilsan er léleg og aldurinn hár, þá er ekki vit í að búa einn. Maður gat varla soðið sér mat lengur.“ Fanney segist mjög heppin að hafa fengið pláss hér og er afar ánægð með öryggið. Guðrún, 92ja ára, liggur fyrir. Hún er nýkomin úr aðgerð vegna sára á andliti sem vilja ekki gróa. „Ég er svoddan letibikkja," segir hún, en Ólöf hlær og segir hana sökkva sér ofan í ástar- og spennusögur eins og smástelpu. Guðrún er rík, á 2 börn, 3 barnabörn og 2 langömmubörn, en manninn sinn missti hún í bílslysi fyrir 35 árum. „Við vorum að keyra út úr Reykjavík. Þetta var fyrsta vetrardag, dimmt og rigning. Sonur okkar var við stýrið. Vörubíll hafði stoppað og gleymt að kveikja afturljósin. Við lentum undir pallinum. Sonur okkar nefbrotnaði, ég tognaði illa á hálsi og maðurinn minn dó skömmu síðar.“ Ég kveð Guðrúnu, leyfi henni að sökkva sér aftur ofan í Agöthu Christie. Kaffiborðið er dúkað og konurnar að setjast með kökur og kaffi. Góðar óskir fylgja þeim öllum. O.Sv.B ■ ■n 49

x

Listin að lifa

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Listin að lifa
https://timarit.is/publication/1106

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.