Ský - 01.02.2008, Blaðsíða 23
1. tbl. 2008 | ský 23
Bílaleiga Akureyrar er ein elsta og stærsta starfandi bílaleiga á Íslandi, með afgreiðslustaði á þrettán stöðum vítt og breitt um landið. Þar hefur allt frá stofnun fyrirtækisins
snemma á áttunda áratugnum allt kapp verið lagt á góða,
sveigjanlega og persónulega þjónustu. Gott orðspor fæst ekki
keypt og hefur fyrirtækið eignast stóran hóp ánægðra viðskiptavina
í gegnum tíðina sem koma aftur og aftur.
„Það er ekki síst því að þakka að fyrirtækið hefur ávallt haft á
að skipa frábæru og reynslumiklu starfsfólki sem leggur metnað
sinn í að veita viðskiptavinum okkar fyrsta flokks þjónustu,“ segir
Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Eins og fyrr segir eru afgreiðslustaðirnir fjölmargir og því
langur vegur frá því að Bílaleiga Akureyrar einskorði reksturinn
við höfuðstað Norðurlands, þar sem aðalskrifstofur fyrirtækisins
eru. Stærstu útleigustöðvarnar okkar eru í Skeifunni í Reykjavík
og Flugstöð Leifs Eiríkssonar, auk þess sem afgreiðsla er á
flugvöllum á öllum helstu áfangastöðum í innanlandsflugi.
„Þjónusta við fyrirtæki, félög og stofnanir er drjúgur þáttur
í rekstrinum og fyrir allmörgum árum fórum við hjá Bílaleigu
Akureyrar að beina sjónum okkar að því hvernig mætti sérsníða
þjónustuna enn betur að þessum aðilum,“ segir Steingrímur.
„Lagt var upp með að viðskiptavinir gætu gengið að öllum þáttum
þjónustunnar vísum og allt kapp lagt á að uppfylla þarfir þeirra
eftir bestu getu. Úr varð fyrirtækjasamningur en með því að gera
slíkan samning tryggja rekstraraðilar sér sömu hagstæðu kjörin allt
árið um kring hjá öllum þrettán útleigustöðvum bílaleigunnar,
óháð annatíma. Einfalt er að taka bíl á einum stað og skila
honum á öðrum og í boði eru ávallt nýir eða nýlegir og öruggir
bílar, allt frá litlum fólksbílum til 15 manna smárúta, sendibíla
og lúxusbíla af mörgum gerðum. Hvergi er í boði meira úrval
af fjórhjóladrifnum bílum en það hentar vel þeim aðilum sem
ferðast um landið, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Við leggjum gríðarlega mikla áherslu á að bifreiðafloti
fyrirtækisins henti viðskiptavinum. Síðasta sumar vorum við með
rétt um 1700 bíla í rekstri þegar mest var og á síðasta ári keyptum
við rúmlega 800 bíla við endurnýjun flotans en það lætur nærri
að vera um 5% af heildarfjölda skráðra bifreiða á landinu árið
2007. Það má því segja að við tökum í notkun rúmlega tvo nýja
bíla að meðaltali á dag og þau eru ansi mörg handtökin við alla
snúningana í kringum bifreiðaflota fyrirtækisins.
Umtalsverð aukning hefur verið hjá okkur að undanförnu í
bókunum á bílum erlendis fyrir viðskiptavini. Bílaleiga Akureyrar
er umboðsaðili National- og Alamo-bílaleigukeðjanna á Íslandi og
njóta þeir sem hafa fyrirtækjasamning sérkjara á bílaleigubílum í
yfir 80 löndum. Góð þjónusta hefur verið lykillinn að velgengi
fyrirtækisins. Kjörorð okkar eru „þínar þarfir - okkar þjónusta“ og
með þau að leiðarljósi horfum við björtum augum fram á veginn,“
segir Steingrímur að lokum. sky,
Bílaleiga Akureyrar:
Fyrirtækjasamningar
sífellt vinsælli
Steingrímur Birgisson,
framkvæmdastjóri
Bílaleigu Akureyrar
– einnar elstu og stærstu
bílaleigu landsins.
Bílaleiga Akureyrar er með afgreiðslustaði á þrettán stöðum
vítt og breitt um landið.