Ský - 01.02.2008, Blaðsíða 67
1. tbl. 2008 | ský 7
kílómetrar að lengd, en eru vatnsmiklar og geyma ógrynni
af bleikju. Svo mikið er af bleikju þarna að sums staðar er
botninn beinlínis þakinn.
Það er sjaldan sem veiðimenn fá þá tilfinningu að þeir séu
að veiða í ósnortnum ám en á Grænlandi varð sú tilfinning
allsráðandi. Tökugleði bleikjunnar er slík að auðvelt var
að fá fisk í nánast hverju kasti þegar réttu flugurnar voru
settar undir. Eftir að hafa veitt kannski fimm til tíu bleikjur
í hverjum hyl fann maður sig knúinn til að færa sig á nýjar
slóðir og prófa eitthvað nýtt.
Í einum hylnum, í ósi fjallavatns, vöktu mörg hundruð
bleikjur samtímis þegar lygndi og flugan fór að sýna sig.
Þar var svo krökkt af bleikju að ég trúði hreinlega ekki
eigin augum. Ég ákvað að gera tilraun, kastaði sömu bleiku
flugunni um 20 sinnum og í hvert sinn eltu tíu til tuttugu
stykki. Eltingarleikurinn endaði alltaf með því að ein þeirra
hremmdi fluguna með hvelli. Ég ákvað því að skipta um agn
og setti undir þurrflugu sem vakti álíka hrifningu. Takan
var hreinlega óstöðvandi og eftir að hafa landað um þrjátíu
fiskum á bilinu 1-3 pund ákvað ég að færa mig neðar í ána á
nýjar slóðir þar sem kannski leyndust stærri fiskar.
Veiðin á Grænlandi vakti með mér þvílíkar ástríður
því á fyrsta degi var ég svo heppinn að setja í og landa
ógleymanlegum fiski. Það var nýgengin, silfruð og spikfeit
sjóbleikja sem vó um 8-9 pund og jafnframt fyrsti fiskurinn
minn í veiðiferðinni. Þessari bleikju landaði ég eftir um 20
mínútna stórskemmtilega viðureign þar sem ég þurfti að
beita allri minni kunnáttu og útsjónarsemi enda tók hún
litla flugu. Svo kröftug var þessi bleikja að þegar hún tók
hélt ég að allt væri fast í botni hjá mér. Ég fann þó fljótt að
um stóran fisk var að ræða sem ætlaði alls ekki að gefa sig
án baráttu. Rokurnar sem þessi gullfallega bleikja tók voru
ekki af verri endanum. Þetta var á stórri breiðu með broti
fyrir neðan og ég mátti hafa mig allan við að halda henni í
hylnum þegar hún reif út þrjátíu til fjörutíu metra af línu
í einni sjóðandi vitleysu. Fluguhjólið mitt fyrir línu númer
fjögur beinlínis titraði og skalf og stöngin kengbognaði
niður í skaft. Eitt augnablik datt mér í hug að ég hefði sett
ÓGLEYMANLEGt VEIðIæVINtýRI
Greinarhöfundur við árós sem rennur úr undurfögru tærbláu fjallavatni. Þetta eru miklar hreindýraslóðir og sá
greinarhöfundur einstaka dýrum bregða fyrir. Ósinn var stútfullur af bleikju sem þakti botninn eins og teppi.