Morgunblaðið - 26.02.2015, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 26.02.2015, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. FEBRÚAR 2015 móðursystur minni og uppá- haldsfrænku. Þau hjónin eignuð- ust fimm fagrar dætur sem voru bæði skemmtilegar og hæfileika- ríkar. Ég man fyrst eftir mér með Palla frænda að bralla eitthvað skemmtilegt í Borgarnesi, þar sem þau hjón bjuggu fyrstu árin, síðan í gamla Mýró á Seltjarn- arnesi þar sem Palli var lengst af skólastjóri. Þau hjónin byggðu sér síðan hús að Unnarbraut 10 og hafa búið þar síðan. Það var oft kátt á Unnarbrautinni og vildi ég helst hvergi annars stað- ar vera. Frænkurnar mínar og Unnur og Palli voru bara svo skemmtileg. Palli var mikill gleðimaður og stutt í húmorinn, þó hann gæti líka verið alvarlegur þegar það átti við, enda skólastjóri. Palli hafði einstakt lag á að ná til barna og unglinga, það var eins og börn soguðust að honum þó hann segði ekki orð. Á milli okkar Palla myndaðist snemma sterk og góð vinátta sem hefur alltaf haldist. Eina sögu langar mig að segja sem lýsir húmornum hjá Palla. Þegar ég var fimmtán ára vorum við fjölskyldan að flytja og Palli að hjálpa til. Á þessum árum átti hann gulan skóda station og fór- um við tveir af stað á skódanum. Á miðri leið segir Palli við mig: „Snorri, á ég að láta bílinn fyrir aftan okkur hverfa?“ Ég segi auðvitað já við þessari fáránlegu uppástungu. Þá drap hann á skódanum á fullri ferð og start- aði svo aftur og viti menn, skód- inn var næstum sprunginn í loft upp þegar hann fór í gang, því- líkur hávaði og aftur úr stóð kol- svart reykský svo mikið að sást ekki í næstu bíla! Svona var hann Palli og hló mikið og við báðir. Gamlárskvöldin hjá Unni og Palla voru ógleymanleg, ekki síst vegna þess að Palli var mikill áhugamaður um rakettur og allt sem hægt var að sprengja, en það áttum við sameiginlegt. Stór partur af vináttu okkar Palla var að glíma, sem við iðkuðum fram á fullorðinsár mín og höfðum báðir gaman af. Palli var einstak- ur, manni leið ávallt vel í návist hans. Nú er komið að kveðjustund. Eitt er víst að lífið verður fátæk- legra án Palla. Blessuð sé minn- ing hans. Elsku Unnur frænka, dætur, tengdasynir, barnabörn og barnabarnabörn, ég votta ykkur alla mína samúð. Snorri Steindórsson. Kveðja frá Mýrarhúsaskóla Í dag kveðjum við Pál Guð- mundsson, samstarfsmann okkar til margra ára. Hann var skóla- maður í orðsins fyllstu merkingu, enda var starfsævi hans öll sam- ofin kennslu barna og unglinga og síðar skólastjórn, alls um 45 ár. Þar af var hann skólastjóri í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi frá 1959 til 1995 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Páll var á margan hátt frum- kvöðull í skólamálum. Meðal annars samdi hann námsefni og undir hans stjórn hófst kennsla sex ára barna í svokölluðum for- skóla árið 1967. Páll hafði einnig frumkvæði að einsetningu og skóladagvist nemenda í sama skóla 1992. Þetta og margt fleira ber vitni um stórhug og framsýni og síðar fylgdu aðrir fordæmi hans. Ekki er hægt að nefna Pál á nafn án þess að minnast á lífs- förunaut hans, Unni Ágústsdótt- ur, þá miklu öndvegiskonu. Hún er fyrrverandi kennari við Mýr- arhúsaskóla og kom meðal ann- ars að upphafi forskólans. Í seinni tíð sinnti hún kennslu þeirra barna sem höllum fæti stóðu í náminu. Við sem unnum undir stjórn Páls í lengri eða skemmri tíma eigum ánægjulegar minningar um þann tíma. Skólastjórinn sýndi okkur mikið traust og skólastarfið bar þess merki. Kennarahópurinn tók yfirleitt litlum breytingum á milli ára og segir það sína sögu um andrúms- loftið í skólanum. Samheldnin var mikil, oft var gert að gamni sínu á kennarastofunni og þar lét Páll til sín taka, enda allt í senn; húmoristi, grallari og góð- ur sögumaður. Hann var ávallt einn af hópnum, þó svo að hann væri yfirmaðurinn. Ekki verður skilið við minn- ingar tengdar Páli án þess að nefna vorferðirnar í lok skólans og spilakvöldin sem haldin voru á heimili þeirra hjóna síðasta kennsludag fyrir jól. Þessir við- burðir voru ómissandi hluti af skólastarfinu og þarna var svo sannarlega glatt á hjalla. Þau hjónin lögðu áherslu á að makar starfsfólks væru með á þessum stundum og því mynduðust góð vinatengsl sem ennþá halda eftir öll þessi ár. Um leið og við þökkum Páli Guðmundssyni fyrir samstarfið og áralöng kynni sendum við Unni, dætrum þeirra og öðrum ættingjum okkar dýpstu samúð- arkveðjur. Fyrir hönd fyrrverandi sam- starfsmanna, Ólína Elín Thoroddsen og Guðjón Ingi Eiríksson. Margs er að minnast nú þegar öðlingurinn Páll Guðmundsson skólastjóri er fallinn frá. Fyrstu kynni mín af Palla, eins og við vinir hans kölluðum hann ætíð, voru á Laugarvatni þegar hópur ungs fólks kom þar saman haustið 1948 til að hefja nám við íþróttakennaraskólann. Þessi hópur varð einstaklega sam- rýndur og hefur haldið góðum og traustum tengslum allt til þessa dags. Fyrir Palla varð þetta örlaga- ríkt og heilladrjúgt tímabil því í nemendahópnum var glæsileg stúlka, Unnur Ágústsdóttir, sem síðar varð lífsförunautur hans. Aðalævistarf Palla fólst í því að stýra Mýrarhúsaskóla á Sel- tjarnarnesi og þar starfaði ég náið með honum á annan áratug. Þessara ára minnist ég ávallt með miklu þakklæti og hlýju, því starfsandinn í skólanum var sér- lega góður og notalegur. Palli hafði líka einstakt lag á að leysa þau vandamál sem upp komu á þann hátt sem flestir gátu sætt sig við. En á þessum árum fór skólinn í gegnum margvíslegar breytingar vegna mikillar íbúa- fjölgunar á svæðinu. Þótt ég skipti um starfsvett- vang rofnaði ekki sambandið við Palla og Unni og við Elsa hittum þau reglulega, bæði hér heima og erlendis. Einkum eru eftirminnilegar þær ferðir sem við fórum árlega um langt skeið með vinahópi, fyrst til Grænlands og síðar víðs- vegar um landið okkar. Og ekki gleymast nýársfagnaðir vina- hópsins. Þegar við nú kveðjum Palla er efst í huga einlægt þakklæti fyrir þær fjölmörgu ánægjulegu og gefandi samverustundir sem við Elsa höfum átt með þeim hjón- um. Við vottum Unni og allri fjöl- skyldu hennar einlæga samúð okkar. Svavar Lárusson. Ævilöng félags- og vináttu- tengsl nást mjög oft hjá nem- endum í heimavistarskólum. Þessa lífshamingju og félagsleg- an fagnað náðum við skólasystk- inin á Íþróttakennaraskóla Ís- lands á Laugarvatni 1948-1949 að tileinka okkur, þróa og rækta í 66 ár. Nú er komin kveðjustund hjá þriðja félaga okkar. Páll var einn af traustu hlekkjunum í félags- og vináttukeðjunni okkar. Næst- um árlega gátum við gefið okkar tíma til að hittast og sérstaklega á eftirlaunatímaskeiðinu urðu samfundir okkar tíðari. Fyrsta árið gekk keðjufréttabréf á milli okkar allra, þar greindum við frá starfsreynslu okkar og byrjuna- rerfiðleikum í kennslunni. Síðar fóru fréttir að berast af fjöl- skylduaðstæðum og annarri at- vinnu. Páll varð strax mjög virkur í kennslunni sem kennari og kennslubókahöfundur og ekki síður við umfangsmikla skóla- stjórn. Þá lagði hann fram mikla vinnu í félagsmál kennara og skólastjóra í marga áratugi. Lífshamingja Páls var strax innsigluð í skólanum. Þar hófst heillaríkt lífshlaup hans og sam- fylgd með Unni skólasystur hans, sem staðið hefur fram til þessarar kveðjustundar og er þeirri hamingju best lýst í ávarpi til þeirra í afmælisfagnaði fyrir nokkrum árum. Að heilla Unni einn það kunni, að einum brunni stefnan tók. Ástar sunna á gæfu grunni geislum runnin fögnuð jók. Það ríkir söknuður meðal okk- ar. Innileg samúðarkveðja er flutt til fjölskyldunnar frá skóla- systkinum hans. Brostin vinaböndin, blessuð minning lifir. Hjörtur Þórarinsson. Okkar kæri vinur, Páll Guð- mundsson, fyrrum skólastjóri, er látinn. Mikill söknuður fyllir huga okkar, en jafnframt ynd- islegar minningar. Þær minning- ar verða alltaf tengdar þeim báð- um, Unni konu hans og honum á því rúmlega 60 ára tímabili sem við höfum verið nánir vinir. Sú vinátta hófst þegar þau bjuggu og störfuðu sem kennarar í Borgarnesi. Þar átti Páll farsæl- an feril sem kennari og starfaði einnig að íþrótta- og félags- málum víða í Borgarfirði á ár- unum 1950-1960. Þegar Páll tók við skólastjórn í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnar- nesi árið 1959 tengdust fjölskyld- ur okkar enn nánari böndum, þau komin með fjórar dætur en við með tvær, við að byggja okk- ar hús í Skerjafirði en þau að undirbúa húsbyggingu á Seltjarnarnesi. Við þessar bygg- ingar unnu þeir Páll og Ásgeir ómældar stundir saman, eins og algengt var á þeim tíma. Húsin komust upp og flutt var inn og dætrum fjölgaði. Þær hafa í gegnum tíðina ýmist leikið sér saman, dansað saman í Íslenska dansflokknum eða starfað sam- an, nú tvær sem kennarar í Val- húsaskóla. Fljótlega eftir að Palli og Unnur fluttu suður hófum við að stunda íþróttir saman, fyrst bad- minton í rúm 30 ár og blak í góðra vina hópi um jafn langt skeið. Síðar bættist við golf, heima og heiman, og brids spil- uðum við öll árin hvar sem hægt var að koma því við! Í öllu þessu var Palli mjög fær og kappsamur enda keppnismaður að upplagi. Ferðalög okkar saman voru ótal mörg, bæði innanlands og utan. Við sóttum ráðstefnur um skóla- og uppeldismál, fórum í skoðunarferðir víða um lönd, m.a. til Grænlands í 13 manna vinahópi. Í framhaldi þeirrar ferðar fór hinn svokallaði „Græn- landshópur“ í fjölmargar ferðir vítt og breitt um landið, m.a. til Vestfjarða þar sem Palli naut sín einkar vel sem fararstjóri, enda fæddur og uppalinn á Ísafirði. Önnur ógleymanleg ferð okkar fjórmenninga var þriggja vikna ökuferð um Þýskaland, Sviss, Austurríki og Ungverjaland sem enn var hálflokað ferðamönnum á þeim tíma. Starfsferill Páls í Mýrarhúsa- skóla var farsæll, hann var góður stjórnandi og hafði frumkvæði að ýmsum breytingum í starfsemi skólans, m.a. að kennslu sex ára barna, sem var nýjung í almenn- um skóla. Eftir starfslok gafst meiri tími til að sinna fjölskyld- unni og áhugamálum, m.a. sum- arbústað sem fjölskyldan hafði eignast í Bláskógabyggð. Þar naut fjölskyldan sín vel. Síðustu árin hafa verið erfið hjá fjölskyldunni vegna veikinda Palla, en á bak við hann stendur óvenju sterk og samheldin fjöl- skylda, með Unni í fararbroddi, og einkenni þeirra allra er vænt- umþykja og umhyggja. Palli var andlega hress fram í andlátið, hann fylgdist með frétt- um, las mikið og setti fram sínar skoðanir á málefnum samtímans. Síðustu stundir okkar saman yfir kaffibolla og meðlæti eru okkur mjög kærar þar sem við rifjuðum upp atburði liðinna áratuga. Við og fjölskyldur okkar send- um vinum okkar, Unni og fjöl- skyldum, okkar innilegustu saknaðar- og samúðarkveðjur. Ásgeir og Sigríður. HINSTA KVEÐJA Elsku afi minn, Í hvert einasta skipti sem ég kláraði próf þá spurðir þú hvernig hefði gengið. Ég sagði að mér hefði gengið ágætlega og alltaf svaraðir þú „ágætt er best“. Dyggari stuðnings- mann er vart að finna. Takk fyrir að kenna mér metnað og vilja. Takk fyrir að kenna mér þrautseigju, að gefast ekki upp þótt á móti blási. Þín verður sárt saknað af Unnarbrautinni en amma heldur uppi heiðri þínum og minningu eins og hennar er von og vísa. Hvíldu í friði. Þín, Unnur Helgadóttir Ég vil kveðja Pál skóla- stjóra. Hann var góður maður. Frá því ég var lítill strákur hef ég farið í heim- sókn til þeirra hjóna á Unn- arbraut. Svo kom ég líka oft á vespunni til þeirra. Þau áttu fallegt heimili og það var gott að koma til þeirra. Það var alltaf gott með kaffinu og við töluðum mik- ið um daginn og veginn. Ég sendi þér samúðarkveðjur, Unnur mín. Guð geymi Pál. Stefán Konráðsson, sendill. Okkar ástkæri bróðir og mágur, GUNNAR HALLDÓR LÓRENZSON, fyrrverandi verkstjóri ÚA, Víðilundi 20, Akureyri, lést þriðjudaginn 17. febrúar á FSA. Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju föstudaginn 27. febrúar kl. 13.30. . Magnús G. Lórenzson, Elín Eyjólfsdóttir, Gísli Kristinn Lórenzson, Ragnhildur Franzdóttir, Steinunn G. Lórenzdóttir, Þorgeir Gíslason, Ingibjörg H. Lórenzdóttir, Reynir Valtýsson, Skúli Viðar Lórenzson, Guðrún H. Þorkelsdóttir. Ástkær sambýlismaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, PÁLL HREINN PÁLSSON frá Þingeyri, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mánudaginn 16. febrúar. Útförin verður gerð frá Grindavíkurkirkju föstudaginn 27. febrúar kl. 14. . Soffía Stefánsdóttir, Margrét Pálsdóttir, Ársæll Másson, Páll Jóhann Pálsson, Guðmunda Kristjánsdóttir, Pétur Hafsteinn Pálsson, Ágústa Óskarsdóttir, Kristín Elísabet Pálsdóttir, Ágúst Þór Ingólfsson, Svanhvít Daðey Pálsdóttir, Albert Sigurjónsson, Sólný Ingibjörg Pálsdóttir, Sveinn Ari Guðjónsson, afabörn og langafabörn. Útfararþjónusta í 20 ár Hinrik Valsson Svanhildur Eiríksdóttir Gísli G.Guðmundsson Vistvænar íslenskar kistur, krossar og duftker Hinrik: Sími 892 0748 / Gísli: Sími 482 4300 www.fylgd.is • fylgd@fylgd.is Þjónusta allan sólarhringinn Elskulegur eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, ÓLAFUR B. ÓLAFSSON, fyrrv. framkvæmdastjóri, Deildartúni 8, Akranesi, lést sunnudaginn 22. febrúar. Útförin fer fram frá Akraneskirkju þriðjudaginn 3. mars kl. 14. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili. . Alda Jóhannesdóttir, Guðmunda Ólafsdóttir, Þröstur Stefánsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Tómas Guðni Eggertsson, Alda Þrastardóttir, Þröstur Elvar, Hildur Ása og Sigurbjörg Helga. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, EINARA SIGURBJÖRG EINARSDÓTTIR, fyrrverandi læknaritari, lést á líknardeild Landspítalans sunnudaginn 22. febrúar. Útförin fer fram frá Neskirkju þriðjudaginn 3. mars kl. 13. . Einar Arnarsson, Hrafnhildur Eiðsdóttir, Ómar Arnarsson, Björk Magnúsdóttir, Brynjar Arnarsson og fjölskylda. Okkar ástkæra, ANNA KRISTÍN BJÖRGMUNDSDÓTTIR frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, lést á Landspítalanum þriðjudaginn 24. febrúar. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju laugardaginn 28. febrúar kl. 13. . Markús Guðmundsson, Guðmundur Jón Markússon, Katrín Dröfn Markúsdóttir, Vignir Arnarson og barnabörn. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir og afi, GUÐMUNDUR SIGURBERGSSON flugvirki, lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi fimmtudaginn 19. febrúar. Jarðarförin fer fram frá Fossvogskirkju mánudaginn 2. mars kl. 13. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir. Þeim sem vilja minnast hans er bent á að styrkja mannúðarsamtökin Höndina. Bknr. 0101-26-777156, kt. 520106-0570. . Þóra Mjöll Guðmundsdóttir, Reynir Þór Guðmundsson, Greta Björg Egilsdóttir, Egill Örn Guðmundsson, Brigitta Matthíasdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.