Morgunblaðið - 26.02.2015, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 26.02.2015, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. FEBRÚAR 2015 ✝ Ófeigur Hjalte-sted fæddist í Reykjavík 3. maí 1949. Hann lést á Landspítalanum 15. febrúar 2015. Foreldrar hans voru hjónin Georg Pétur Lárusson Hjaltested, f. 11. apríl 1918, d. 26. september 1996, verslunarmaður og málarameistari, og Guðrún Ófeigsdóttir Hjaltested, f. 4. desember 1920, d. 8. nóvember 2004, verslunarmaður og hús- móðir. Pétur var sonur Lárusar Péturssonar Hjaltested, bónda á Öxnalæk og síðar á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og k.h., Sigríðar Guðnýjar Jónsdóttur Hjaltested húsfreyju. Guðrún var dóttir Ófeigs Jónssonar, bónda í Kolsholti í Flóa, síðar innheimtumanns í Reykjavík, og k.h.,Valgerðar Guðmundsdóttur húsfreyju. Systkini Ófeigs eru Valgerður, f. 8. maí 1943, meinatæknir; Lárus Hjaltested, f. 24. janúar 1945, d. 1. sept- ember 1991, verslunarmaður; og Pétur Hjaltested, f. 11. apríl 1956, tónlistarmaður. 9. maí 2005. 2. Sigríður Björk Marinósdóttir, f. 2. febrúar 1978, leikskólakennari og bóndi, eiginmaður hennar er Arnór Hans Þrándarson smiður og bóndi. Dætur þeirra eru Edda Guðrún, f. 8. júlí 2002, Ólöf María, f. 29. janúar 2007, og Sara Björk, f. 2. nóvember 2010. Ófeigur ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk stúd- entsprófi frá Verslunarskóla Ís- lands 1970, lauk námi í viðskiptafræði frá Háskóla Ís- lands 1974 og MBA-prófi frá University of Minnesota 1976. Ófeigur var skrifstofustjóri hjá iðnaðardeild SÍS 1976-77, fulltrúi framkvæmdastjóra þar 1977-78, markaðsstjóri þar 1978-81, framkvæmdastjóri Jarðefnaiðnaðar hf. 1981-82, framkvæmdastjóri Íslensks markaðar hf. 1982-86, hagfræð- ingur hjá Ríkisendurskoðun 1986-95, deildarstjóri hjá RÚV 1995-2001 og deildarstjóri hjá Landsvirkjun 2001-2013. Ófeig- ur var virkur í félagsmálum á sínum yngri árum og var m.a. formaður Málfundafélags Verslunarskóla Íslands 1967-68 og formaður Félags viðskiptafræðinema 1972-73. Útför Ófeigs fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 26. febrúar 2015, kl. 13. Fyrri eiginkona Ófeigs var Katrín Magnúsdóttir, f. 23. september 1948, stjórnarráðs- fulltrúi. Börn Ófeigs og Katrínar eru: 1. Erna, f. 10. október 1972, lög- fræðingur, eig- inmaður hennar er Sigfús Þór Sig- mundsson stjórn- sýslufræðingur. Dætur þeirra eru Katrín Inga, f. 18. mars 2010 og Anna Guðrún, f. 11. september 2013. 2. Stefán, f. 20. júní 1977, verkfræðingur. 3. Guðrún Hlín, f. 26. apríl 1984, viðskiptafræðingur. Ófeigur kvæntist seinni konu sinni, Eddu Ingibjörgu Tryggvadótt- ur, f. 13. september 1951, hús- næðisfulltrúa í Garðabæ, hinn 3. mars 1995. Stjúpbörn Ófeigs, börn Eddu Ingibjargar frá fyrra hjónabandi, eru: 1. Örn Steinar Marinósson, f. 5. október 1971, öryggisfulltrúi hjá Isavia, eig- inkona hans er Nína Rut Eiríks- dóttir aðstoðarkona tannlæknis. Dætur þeirra eru Margrét Edda, f. 7. júlí 1997, Diljá Hlín, f. 4. maí 2001, og Jóna Marín, f. Í dag kveð ég ljúfan og góðan mann, mann sem ól mig upp frá unga aldri. Í hjarta mínu á ég ótal margar fallegar minningar sem ég mun varðveita að eilífu. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og hvattir mig áfram í lífinu með ást og skynsemi. Þín verð- ur sárt saknað af okkur Arnóri og afastelpunum þínum, sem tóku sérstöku ástfóstri við þig. Umhyggju og ástúð þína okkur veittir hverja stund. Ætíð gastu öðrum gefið yl frá þinni hlýju lund. Gáfur prýddu fagurt hjarta, gleðin bjó í hreinni sál. Í orði og verki að vera sannur var þitt dýpsta hjartans mál. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Takk fyrir allt, elsku pabbi, megi Guð geyma þig. Þín Sigríður Björk (Sirrý). Stjúpfaðir minn, Ófeigur Hjaltested, var bráðkvaddur þann 15. febrúar síðastliðinn, á Landspítalanum eftir að hafa verið að glíma við erfið veikindi. Þegar maður gerir upp þann tíma sem við eyddum saman þá get ég sagt það frá hjarta mínu að hann var ekki bara stjúpfaðir minn, hann var líka vinur minn og hans verður sárt saknað. Offi var ekki fullkominn maður, ekki frekar en við hin, en hjartgóður var hann og var hann alltaf tilbúinn að hlusta og hjálpa til ef hann gat. En í gegnum árin hef ég lært að lífið tekur og lífið gefur og það minnir okkur rækilega á það að vera góð hvert við annað og að það eru góðu minning- arnar sem sitja eftir sem mikil verðmæti. Takk, Offi, fyrir mig, þú reyndist mér vel og ég er þakk- látur fyrir það að hafa getað kallað þig stjúpföður og vin og ég kveð þig með söknuði. Örn Steinar Marinósson. Þá er komið að kveðjustund. Elsku tengdapabbi, takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Lífið er hverfult. Ákveðið tómarúm ríkir á Haukanesinu án þín og minningarnar um þig rifjast upp. Ljúfur varstu og áhugasamur um okkur Garðpúkana þína, vildir ávallt fá nýjustu fréttir af Suðurnesjum. Fuglaáhugi þinn var greini- legur. Þegar þú varst veikur heima í janúar, þá sá ég fálka út um gluggann í eldhúsinu alveg við fjöruna, þú komst fljótt til mín, sást fuglinn og fylgdist með honum dágóða stund uns hann hvarf og sagðir „Já, þetta er fálki og þeir eru oft hér“. Ég sá ljómann skína og allar áhyggjur af þér fara á þessari stundu. Þú og tengdamamma voruð eins og ein heild. Ég veit að þú vakir yfir henni og hún finnur það. Þó sólin nú skíni á grænni grundu er hjarta mitt þungt sem blý, því burt varst þú kallaður á ör- skammri stundu í huganum hrannast upp sorgarský. Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða, svo fallegur, einlægur og hlýr, en örlög þín ráðin – mig setur hljóða, við hittumst ei aftur á ný. Megi algóður Guð þína sálu nú geyma, gæta að sorgmæddum, græða djúp sár, þó kominn sért yfir í aðra heima mun minning þín lifa um ókomin ár. (Höf. ókunnur). Þín tengdadóttir, Nína Rut Eiríksdóttir. Þar sem elskulegi afi minn, hann Ófeigur Hjaltested, lést þann 15. febrúar 2015 eftir erf- iðan sjúkdóm langar mig að minnast hans í nokkrum orðum. Hann Offi afi, eins og við barnabörnin hans kölluðum hann, var yndislegur maður sem öllum þótti vænt um. Hann elsk- aði tónlist mjög mikið. Hann var alltaf að hvetja mann áfram í því sem maður var að gera, hvort sem það var tónlistarnám, íþróttir eða skólinn enda fannst honum gaman þegar við stóðum okkur vel. Hann var mjög góður hlustandi og var gott að tala við hann. Ég man eftir því þegar ég var að byrja að læra á bíl og þá sagði afi mér þá sögu að hann hefði verið mjög ungur eða um 12 ára gamall þegar hann var að byrja keyra alls konar bíla, sem þótti nokkuð algengt í þá daga. En nú hefur hann elsku afi kvatt okkur í hinsta sinn og er hans sárt saknað. Ég vildi óska þess að hann væri ennþá hér, en við verðum bara að vera sterk og trúa því að hann sé á betri stað núna og búinn að hitta alla sína ættingja á himnum. Nú sefur þú í kyrrð og værð og hjá englunum þú nú ert. Umönnun og hlýju þú færð og veit ég að ánægður þú sért. Ég kvaddi þig í hinsta sinn. Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Blessun drottins munt þú fá og fá að standa honum nær. Annan stað þú ferð nú á sem ávallt verður þér kær. Ég kvaddi þig í hinsta sinn. Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Við munum hitta þig á ný áður en langt um líður. Sú stund verður ánægjuleg og hlý og eftir henni sérhvert okkar bíður. Við kveðjum þig í hinsta sinn. Við kvöddum þig í hinsta sinn. (Þursi, 1981) Margrét Edda Arnardóttir. Brávallagata 6, þar sem við systkinin ólumst upp, var mikið fjöskylduhús. Mamma og pabbi, amma og afi, Stebba (móður- systir okkar) og hennar maður Eiríkur. Betri umgjörð um börn er varla hægt að hugsa sér. Allir að gera allt fyrir alla og ekki hvað minnst fyrir okkur krakk- ana. Við vorum fjögur, Valgerður elst og svo strákarnir Lárus, Ófeigur og Pétur. Alltaf einhver heima til að sinna okkur, gefa að borða eða kakó að drekka, hjálpa okkur með lærdóminn eða bara spila við okkur. Gestur, maður Völu, talar stundum um það þegar hann fór að koma á Brávallagötuna hvað hann var hissa að sjá okkur systkinin koma við á hverri hæð til að athuga hvað væri í pott- unum og stundum hefðum við borðað aðalréttinn og eftirrétt- inn á sitt á hvorum staðnum eft- ir því hvað okkur leist best á. Annað athvarf áttum við systkinin hjá föðurfólki okkar uppi á Vatnsenda, foreldrar okkar byggðu sumarhús í Kríu- nesi, sem var sumardvalarstað- ur okkar til margra ára og var öll stórfjölskyldan þar í næsta nágrenni og þar eignuðumst við góða vini. Sveitin okkar systkinanna var Dalbær í Hrunamannahreppi. Þar vorum við hvert á eftir öðru í mörg sumur og var það okkur öllum sannkölluð sæluvist. Offi var fljótur að læra að lesa og man ég hann kornungan við að lesa Heimskringlu. Hon- um gekk flest vel á skólaárunum og eignaðist marga góða vini bæði af Brávallagötunni og í skólanum. Hann var einkar trygglyndur hvað vinina snerti og keypti hann hús með einum þeirra í Arnarnesinu, Magnúsi sem átti heima á nr. 10 á Brá- vallagötu og hafa þeir búið þar saman alla tíð síðan. Fyrir lítinn dreng var ekki ónýtt að eiga Offa sem stóra bróður, með öll módelin sín sem hann setti svo listilega saman og málaði. Við bræðurnir vorum miklir áhugamenn um seinni heimsstyrjöldina og var varla sú flugvélartegund eða það herskip frá þeim tíma, sem ekki var sett saman í módelsafninu. Það hef- ur örugglega reynt á þolinmæði Offa að hafa lítinn pjakk and- andi ofan í hálsmálið á sér, en alltaf var hann jafn yndislegur og deildum við saman herbergi í mörg ár. Öll uxum við úr grasi, eign- uðumst okkar fjölskyldur og börn sem eru í góðu sambandi, enda héldu foreldrar okkar vel utan um okkur og sáu til þess að samheldnin væri góð. Offi var mikill selskapsmaður og skemmtilegur. Það eru margar minningarnar sem sækja á okkur við þessi tíma- mót, eins og t.d. vikudvöl sem við áttum saman systkinin ásamt mökum úti í Flatey. Eins allar veiði- og sumarbústaða- ferðirnar og matarboðin sem Offi og Edda stóðu fyrir. Var þá ávallt höfðinglega veitt og glatt á hjalla. Lárus bróður okkar misstum við fyrir aldur fram 46 ára gaml- an og nú er það Ófeigur sem kveður okkur. Við trúum því að nú sé gleði á himnum hjá öllu okkar góða fólki og biðjum fyrir bestu kveðjur. Innilegar samúðarkveðjur til þín, elsku Edda, og ástvina allra. Blessuð sé minning kærs bróður. Valgerður (Vala) systir og Pétur bróðir. Andlát Ófeigs frænda, eða Offa eins og hann var kallaður bar brátt að. Hann hafði að vísu glímt við veikindi um talsvert langa hríð, en virtist þó ekki vera á förum. En sjúkdómurinn ágerðist skyndilega og dró hann til bana eftir stutta legu á Land- spítalanum. Það er lýsandi dæmi um skapgerð Offa heitins, hvernig hann brást við veikind- um sínum. Engan bilbug var á honum að finna hvað þau snerti, þegar við ræddum saman sím- leiðis í jólamánuðinum og hann var frekar bjartsýnn á fram- haldið. En þannig var Ófeigur að upplagi. Bjartsýnismaður, sem tókst á við hlutina og lagði mikið upp úr að skila góðu verki. Hvort heldur var um að ræða bernskuleikina, skóla- göngu og síðar starfsvettvang stóð Offi fyllilega fyrir sínu. Ég átti því láni að fagna að kynnast Brávallagötufólkinu, þ.e.a.s. for- eldrum hans og systkinum, bet- ur en flestir aðrir innan fjöl- skyldunnar. Málin höguðu því þannig til, að pabbi og mamma Offa, hjónin Pétur Hjaltested, móðurbróðir minn, og Guðrún Ófeigsdóttir tóku mig tvisvar sinnum í fóstur vegna óperu- söngnáms Sigurveigar Hjalte- sted, móður minnar, erlendis. Í fyrra skiptið, um rúmlega hálfs árs tímabil, deildum við Offi frændi herbergi. Hann var þá tíu ára en ég þrettán. Okkar samskipti voru þá sem endra- nær mjög góð og margt rædd- um við frændurnir fyrir svefn- inn er tengdi okkur sérstökum vinar- og trúnaðarböndum, sem héldu alla tíð. Það atvikaðist þannig seinni árin, að við Offi hittumst á hverju hausti í Skaft- holtsréttum. Fór ég oftsinnis með honum og Eddu seinni konu hans í Þrándarholt í kjöt- súpu og söng að afloknum rétt- um, en Sirrý dóttir Eddu er bú- sett þar. Samverustundirnar í Þrándarholti gáfu okkur mikið og ég tók eftir því, að frændi minn klikkaði ekki á söngtext- unum. Það var með þá eins og annað hjá honum. Allt pottþétt. Já, Offi frændi var vel af guði gerður og þó í honum sé mikil eftirsjá og nánasta fjölskylda eigi um sárt að binda koma á móti minningar um blíðlyndan og heiðarlegan mann, sem stóð lífsvaktina með sóma. Ég votta Eddu eiginkonu Ófeigs og börn- um hans, fósturbörnum, eftirlif- andi systkinum og þeirra af- komendum dýpstu samúð. Hvíl þú í friði, elsku frændi minn. Ólafur Beintinn Ólafsson. Í lok janúar frétti ég að Ófeigur vinur minn væri kominn á sjúkrahús, alvarlega veikur. Ég ákvað að líta til hans í lok vinnudags. Við náðum að eiga stutt spjall saman en Ófeigur taldi þá að hann ætti ekki langt eftir, nú væri komið að leiðar- lokum. Sú reyndist raunin. Kynni okkar Ófeigs hófust fyrir hálfri öld í Verzlunarskóla Íslands. Hann var fulltrúi ár- gangs okkar í stjórn Málfunda- félags Verzlunarskóla Íslands sem þá hélt utan um félagslífið í skólanum. Ófeigur var vel máli farinn, glæsilegur á velli og hvers manns hugljúfi. Hann var verðugur fulltrúi árgangsins og hefði vafalaust leitt næsta lista í stjórnarkjöri, ef ekki hefði verið ráðist í að breyta skipulagi fé- lagslífsins og stofna Nemenda- félag sem umgjörð um félagslíf- ið. Málfundafélagið varð eitt af undirfélögum þess. Hugur Ófeigs stóð til þess að leiða Málfundafélagið og bað hann mig um að bjóða mig fram til forseta. Studdum við hvor annan og fengum fleiri til liðs við okkur. Í félagslífinu mynd- uðust vinarbönd með okkur og fleirum, sem haldist hafa til þessa dags. Við lásum saman til stúdentsprófs og vorum her- bergisfélagar í stúdentaferðinni til Spánar sumarið 1970. Það var gott að koma til for- eldra Ófeigs, Guðrúnar og Pét- urs, á Brávallagötuna. Þar átt- um við frábærar stundir og þar var oft kátt á hjalla. Heimsókn- um á Brávallagötuna fækkaði ekki nema síður sé eftir að Ófeigur stofnaði eigið heimili og flutti á miðhæðina. Minna varð um samveru- stundir um tíma þegar Ófeigur hóf nám í Viðskiptadeild H.Í. en ég fór utan til náms við háskól- ann í Minnesota. Þegar ég kom heim hélt Ófeigur utan til MBA- náms við sama skóla. Eftir að þeir skólafélagarnir úr Verzló, sem fóru utan til náms, komu heim fórum við að hittast reglu- lega yfir vetrarmánuðina á heimilum hver annars; Helgi, Kjartan, Magnús, Ófeigur og ég. Í janúar var hins vegar svo komið að Ófeigur treysti sér ekki til þess að hitta okkur vegna heilsunnar. Við kölluðum félagsskapinn saumaklúbb. Aldrei var þó saumað heldur skiptust menn á fréttum af starfsvettvangi og ræddu þjóðmálin. Þá fengum við að fylgjast með börnum hver annars vaxa úr grasi og komast til manns. Í klúbbnum er það nú fastur dagskrárliður og skylda að félagarnir segi fréttir af börnum sínum og barnabörnum. Við Jóhanna sendum Eddu, börnunum og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Við kveðjum vin okkar og félaga með þakklæti fyrir að hafa mátt njóta vinfengis hans, hollra ráða og umfram allt ánægjulegrar samveru til margra ára. Minn- ingin lifir um góðan dreng. Árni Árnason. Ófeigur Hjaltested, vinur minn í áratugi, er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Ég man fyrst eftir Ófeigi í 6 ára bekk fyrir 60 árum. Hann var fljótur til og fyrstur okkar að verða læs, augasteinn kenn- arans – og allra stelpnana í bekknum. Upp frá því urðum við samferða gegnum skólakerf- ið í Melaskóla, Hagaskóla, Verslunarskólanum og þar til við útskrifuðumst samtímis úr viðskiptadeild Háskóla Íslands vorið 1974. Allt frá upphafi var Ófeigur vinsæll og vel liðinn. Hann var jafnan í miðjum hópi hvort held- ur var sem barn, unglingur eða fullorðinn. Hann var mann- blendinn og jákvæður þannig að fólk laðaðist að honum. Ófeigur var glaðsinna og skemmtilegur, hafði ánægju af glaðværð og mannamótum. Hann var gleði- maður. Hann naut hljómlistar og hafði fallega söngrödd eins og svo margir í ættinni. Ófeigur var sannur lífsins lystisemda- maður. Þannig naut hann sín vel á skólaárunum og hreif fólk með sér og hafði ávallt jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samferðar- menn. Enda var hann kallaður til forystu og þurfti ekki að sækjast eftir vegtyllum. Eftir kröftum hans var leitað og um hann var sátt. Ófeigur var m.a. formaður Málfundafélags Versl- unarskóla Íslands og formaður Félags viðskiptafræðinema. Fjörutíu ár eru liðin frá því námsferli okkar lauk. En allan tímann héldum við traustri vin- áttu og sambandi ásamt nokkr- um góðum félögum. Stórt skarð er nú höggvið í okkar raðir. En mestur er missir fjölskyldunnar, eiginkonu, barna og annarra ástvina. Þeim sendum við Arna okkar dýpstu samúðarkveðjur. Eftir 60 ára samleið þykir mér tilveran einkennileg eftir að þessi góði vinur hefur nú kvatt og haldið á annað tilverustig þar sem við munum öll safnast sam- an í fyllingu tímans og gera okk- ur glaðan dag. Blessuð sé minning Ófeigs Hjaltested. Helgi Magnússon. Eftir vináttu og samleið í hálfa öld, fyrst í Verzló, meðal annars félagslífinu í fyrstu stjórn NFVÍ, síðar í Háskóla Ís- lands og fjölda samverustunda þar sem við skemmtum okkur í góðra vina hópi, gleði ríkti og mikið var sungið, fjölda ógleym- anlegra veiðiferða til áratuga auk reglubundinna annarra góðra samskipta, verður mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa eignast vináttu Ófeigs og átt með honum allar samveru- stundirnar. Ófeigur var þægi- legur í öllum samskiptum og umgengni. Hann var gleðigjafi og rakst afskaplega vel í hópi. Hann hafði góða nærveru. Um leið og ég læt hugann reika og hugsa til Ófeigs og allra samverustundanna ætla ég að leyfa mér að raula í huga mér fáeinar af fallegu og hugljúfu ís- lensku dægurlagaperlunum, sem við á góðum stundum sung- um saman og nutum með öðr- um. Og um leið hugsa til góðrar nærveru hans og vináttu. Bið ég Guð almáttugan að taka vel á móti Ófeigi, styrkja Eddu, börn þeirra og fjölskyldur, systkin hans og fjölskyldur í sorg þeirra og blessa minningu hans. Magnús Hreggviðsson. Smálaxar er fámennur hópur góðra félaga sem komið hefur saman í 40 ár til að veiða og skemmta sér. Ófeigur Hjalte- sted var einn af Smálöxum. Með árunum hefur veiðiferð- um fækkað, en þess í stað, tvisv- ar á ári, hafa Smálaxar komið saman, leyst landsmálin og dægurmál líðandi stundar yfir ölkrús og rifjað upp fyrri afrek úr veiðiskap o.fl. Þar verður Ófeigs nú sárt saknað, en minn- ingin lifir um góðan dreng sem ævinlega kætti okkur félagana með orðum og athöfnum og gladdi með hlýlegri nærveru og hógværu brosi. Eddu, börnum Ófeigs og öðr- um aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð. F.h. Smálaxa, Benedikt Ólafsson, Júlíus Hafstein. Ófeigur Hjaltested

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.