Húnavaka - 01.05.1981, Page 13
Blönduósbryggja
eftir Magnús Konráðsson, verkfrœðing
með inngangi eftir Pe'tur Sœmundsen
PÉTUR SÆMUNDSEN:
Inngangur.
Fyrsta tillaga, sem mér er kunnugt um varðandi bryggjugjörð og
lendingarbætur við Blönduós, kemur fram í erindi frá skörungnum
Erlendi Pálmasyni í Tungunesi, sem lagt var fyrir sýslufund 17. apríl
1877. Telur Erlendur nauðsynlegt „að þar gæti komist endurbót á
lendingu, þegar eigi er fært að lenda í Blönduósi, sem oft kemur fyrir,
og virðist tiltækilegast, að gjörð sé lending fyrir norðan ósinn útundir
nefi því, er þar skagar fram í sjó, með því að ryðja þar vör, sprengja
burt stórgrýti og hlaða grjótbryggju fram í sjó úr höggnu grjóti, sem
fest væri með sementi svo brim eða sjórót gæti eigi grandað því.“
Nefnir hann, að auk hagræðis fyrir fastar verslanir, muni lausakaup-
menn fremur sækja til staðarins eftir slíkar framkvæmdir og einnig að
þá muni Blönduós geta orðið fastur viðkomustaður strandflutninga-
skipsins. Samþykkti sýslunefndin að veita 200 krónur til bryggju á
Blönduósi, ef það gæti stutt að strandsiglingaskipið sigldi þangað.
Aðdragandi að bryggjusmíði við Blönduós.
Ekki mun hafa orðið úr framkvæmdum því 11. febrúar 1882 ritar
Erlendur oddvita sýslunefndar Húnavatnssýslu bréf og leggur málið
enn fyrir. Vitnar hann þar í ákvæði í tilskipun um sveitarstjórn á
íslandi, þar sem segir, að sýslunefndir skuli gera ráðstafanir til þess að
nauðsynlegar lendingabætur séu framkvæmdar.
Drepur Erlendur á, að á Hólanesi og Skagaströnd hafi kaupmenn
kostað bryggjusmíði, „en á Blönduósi hafa kaupmenn vorir enn eigi
ráðist í að koma þar upp bryggju til lendinga.“ Á þessu sé þó brýn
þörf, þar sem miklum vörum sé upp- og útskipað á Blönduósi og hljóti
kostnaðurinn af þessu óbeint að koma niður á sýslubúum sjálfum.