Húnavaka - 01.05.1981, Page 15
HÚNAVAKA
13
til bryggjunnar. Á fundi í Búnaðarfélagi Torfalækjarhrepps 12.
desember 1892 var tekið til umræðu lendingar og bryggjumálið
utanvert við Blöndu og urðu góðar undirtektir, segir í fundargerðinni.
Hinn 20. júní 1893 var þingmálafundur Húnvetninga haldinn á
Blönduósi. Var þar skorað á Alþingi að i næstu gufuskipaáætlun verði
Blönduós og Borðeyri settir sem viðkomustaðir. Einnig var skorað á
Alþingi að veita kr. 5.000 til bryggjugjörðar og vegagjörðar við
Blönduós. Sama dag var einnig haldinn aukafundur sýslunefndar og
var tilefni hans bryggjumálið. Voru á fundinum framlagðar skýrslur
um, hvað gefist hefði í hverjum hreppi til lendingargjörðarinnar og
voru það 190 krónur úr 9 hreppum. Var samþykkt að kjósa þriggja
manna nefnd, „er hafa skyldi framkvæmd á því, að fyrir hina söfnuðu
fjárupphæð væri byrjað að sprengja grjót til undirbúnings undir
bryggjugjörðina og yfirhöfuð hafa umsjón með framkvæmdum fyrir-
tækis þessa.“ Kosningu hlutu Jóhann G. Möller, kaupmaður
Blönduósi, Árni Á. Þorkelsson, Geitaskarði og Jón Ólafsson, Sveins-
stöðum. Var það samhuga álit sýslunefndarinnar, að óumflýjanleg
nauðsyn væri að gjöra steinlímdan vegg um 200 faðma langan með-
fram sjónum og að á ýmsum stöðum í vörinni, þar sem bryggjan ætti
að standa, þyrfti að sprengja klappir, auk þess sem reyndin myndi
verða að lengja þyrfti bryggjuna um eina búkkalengd, er myndi verða
dýrastur allra. Taldi nefndin þvi að ekki myndi veita af 8.000 krónum
til verksins. Var þingmönnum sýslunnar falið að leita eftir 5.000 króna
styrk frá Alþingi. „Áskoranir þessar voru sendar Alþingi ásamt já-
kvæðri álitsgjörð Sigurðar Thoroddsens verkfræðings um málið.“ 4
Á aukafundi sýslunefndar í desember sama ár leggur sýslumaður
fram teikningu af bryggjunni, sem landshöfðingi hafði sent honum
ásamt kostnaðaráætlun. Sýslunefndin var einhuga á því, að panta þá
um veturinn allt efni til bryggjunnar og var það falið Jóhanni G.
Möller. Sýslunefnd taldi einnig nauðsynlegt að láta taka upp grjót um
veturinn og hefja nauðsynlegar sprengingar og var sýslumanni falið að
biðja um greiðslu á styrknum, sem Alþingi hafði samþykkt. f febrúar
1894 var kosin nefnd til þess að semja við Einar á Hraunum um
bryggjusmíðina og 28. júní sama ár skrifar sýslumaður öllum sýslu-
nefndarmönnum og biður þá að bregða skjótt við og sjá hver í sínum
hreppi um innheimtu á gjafafé til bryggjunnar. Allt efni sé komið og
menn byrjaðir að vinna.
Á sýslufundi 18. mars 1895 lagði bryggjunefndin fram skýrslu um