Húnavaka - 01.05.1981, Page 33
HÚNAVAKA
31
3 m suður fyrir eldri hluta bryggjunnar og myndaði þannig nokkurt
skjól innan við.
Jafnframt var gengið frá gamla hausnum, sem var grjótfyllt
timburkista sem fyrr segir. Var steypt 1 m þykk kápa utaná um 13 m á
lengd, frá enda fyrri steypu og að hinu nýja keri. Var pokasteypa undir
fjöruborði og skjólveggur á útbrún. Að innanverðu var einnig gengið
frá gamla hausnum. Var steyptur veggur utan á gamla vegginn frá
botni en dróst saman í 35 sm við fjöruborð og myndaði þannig skáa
1:4. Var hann járnbentur efst. Var grjótið síðan fjarlægt og suðurhlið
gamla kersins og veggurinn yfir steyptur í fulla hæð þannig, að hann
varð í beinu framhaldi af eldri vegg ofan fjöruborðs.
Verkið gekk vel og við uppgjör reyndist kostnaður um 62.000 kr. og
mun það hafa verið nálægt áætlun.
Hafði þá alls farið í þessa bryggjugerð frá byrjun nálægt 200 þús kr.,
þar í er að sjálfsögðu ekki meðtalinn kostnaður við bryggjugerð sunn-
an óss.
Var nú bryggjan orðin sem ný og var hún 100 m á lengd og náði út
á 2,5-3 m dýpi um fjöru.
Undirbúningur að nýrri framlengingu.
Varð nú hlé á framkvæmdum um hríð. Var þá komin nokkur
aðstaða á Skagaströnd til afgreiðslu milliferðaskipa.
Næstu ár var vörum til Blönduóss skipað upp á Skagaströnd og ekið
á bílum inneftir, en sú vegalengd er um 23 km. Var þetta allkostnað-
arsamt og óþægilegt fyrir Blönduósinga og vaknaði fljótt áhugi fyrir
að lengja bryggjuna, þannig að afgreiða mætti milliferðaskip við
hana.
Árið 1942 tók Steingrímur Davíðsson við oddvitastörfum fyrir
Blönduóshrepp og hélt þvi starfi unz hann flutti frá Blönduósi 1958.
Gerði hann strax ítrekaða tilraun til frekari lengingar bryggjunnar,
þannig að strandferðaskipin gætu lagst að henni í allgóðu veðri. Fékk
hann áskorun um þetta samþykkta í hreppsnefnd, en henni var í engu
sinnt af sýslunefnd í fyrstu, enda þótti mörgum fásinna að leggja út í
svo viðamikið fyrirtæki.
Reyndi hann þá að fá stuðning samvinnufélaganna fyrir málinu, en
Jón Baldurs, sem um þær mundir tók við stjórn Kaupfélags Hún-
vetninga, snerist í fyrstu öndverður gegn málinu. Taldi hann að