Húnavaka - 01.05.1981, Page 40
38
HÚNAVAKA
hækkað nokkuð, en sú áætlun var kr. 1.550.000 fyrir hvort ker sem fyrr
segir.
Snemma vors 1969 byrjuðu svo framkvæmdir á Blönduósi við að
búa undir kerin. Var byrjað á að steypa sæti undir fyrra kerið á
venjulegan hátt og kerið síðan flutt til Blönduóss og sett á sinn stað.
Tveir tengiveggir 2 m voru síðan steyptir frá bryggjuenda að keri. Var
síðan fyllt í ker og millibil og kerveggir hækkaðir í fulla hæð.
Jafnframt var sæti búið út fyrir síðara kerið og það sett niður þar á,
tengiveggir steyptir og gengið frá öllu sem fyrr. Loks var 30 sm þykk
járnbent þekja steypt yfir með öflugum kanti á innhlið. Ljósamastur
15 m hátt var sett nálægt enda bryggju á þar til gerða undirstöðu. Nýr
öflugur kantur var settur á eldri framhluta bryggjunnar sem var um
68 m á lengd. Til að varna sigi á bryggjuþekju, þó fylling sigi, voru
steyptir 12 stöplar eða súlur frá kerum og að bryggjuþekju, sem hvíldi
þannig á öruggri undirstöðu. Yfirleitt má segja, að vandað hafi verið
til verksins eftir föngum. Var verkið unnið eftir vinnuteikningum
Sveins Sveinssonar, sem þá var verkfræðingur á Vita- og hafnar-
málaskrifstofunni og hafði hann yfirumsjón með framkvæmdum fyrir
hönd stofnunarinnar. Daglega verkstjórn hafði Sölvi Friðriksson á
hendi. Köfun annaðist Guðmundur Jóhannesson sem fyrr. Kostnaður
við þessa framlengingu mun hafa numið um 7 millj. kr.
Bryggjulengd var nú orðin 190 m, þar af var framhlutinn, sem var
11-12 m á breidd, um 96 m. Dýpi 4-6 m var á 60 m lengd meðfram
innkanti bryggju, en 3-4 m á um 25 m ofar. Gátu nú flest venjuleg
milliferðaskip afgreitt sig við hana í sæmilegu veðri, enda mun svo til
öll skipaafgreiðsla á staðnum fara fram um bryggjuna.
Samkvæmt uppgjöri Vita- og hafnarmálastofnunarinnar varð
heildarkostnaður við bryggjugerðina á áratugnum 1961 -’70 kr.
7.800.000. Kostnaður fram að þeim tíma var sem áður segir 3.292.000,
eða um 11,1 millj. kr. samtals. Eitthvað getur þó vantað á, að allt sé
meðtalið.
Eins og áður var sagt, var byrjað á bryggjugerðinni 1893 og hafa því
liðið 76 ár frá því byrjað var á henni og þar til hún var fullgerð i
núverandi mynd.
Lokið í nóv. 1972.