Húnavaka - 01.05.1981, Blaðsíða 61
HÚNAVAKA
59
beið á meðan á mæninum á fjárhúsunum og elti mig svo heim. Það var
ekki gott að fylgjast með henni því hún flaug alltaf svo hátt að maður
varð ekki var við hana fyrr en hún stakk sér niður úr loftinu.
Ég bý á efri hæð og liggja tröppur upp í íbúðina og er steypt yfir þær
efst en gluggi í austur. Ég tók eina rúðuna úr glugganum og smíðaði
þar smápall sem dúfan gat setið á. Þarna hélt hún til nema á nóttunni,
þá kom hún alltaf inn í forstofuna og kúrði sig þar á hillu sem var yfir
fatahengi.
Ef hún var ekki við þegar húsinu var lokað á kvöldin var nóg að
kalla á hana, þá kom hún inn og settist á hilluna sína. Við skírðum
hana Kúru.
Það kom náttúrulega í hlut Önnu Aspar, konu minnar, að gefa
dúfunni, en það var alveg sama hvernig hún reyndi að hæna hana að
sér, hún elti hana aldrei. En um leið og hún sá mig byrjaði hún strax að
kurra og við töluðum mikið saman. Ég hef haft það fyrir sið að tala við
allar skepnur sem ég hef átt og umgengist og ég hélt þessum hætti við
dúfuna.
Þegar ég fór á sjóinn á morgnana fylgdi hún mér alltaf niður á
bryggju. Ég átti stutt að fara og beið því oft eftir hinum strákunum. Þá
sat ég vanalega á bryggjupolla og dúfan hjá mér og við spjölluðum
saman. Aldrei mátti ég eða neinn annar snerta hana, það var alveg
sama hvernig ég reyndi, ef ég ætlaði að taka hana þá varði hún sig með
þvi að gogga í hendina á mér. Þegar báturinn fór frá bryggjunni, elti
dúfan okkur vestur fyrir Höfða og sneri þá við heim.
Það þótti mér merkilegt, þegar ég fór að heiman, að þó ég sæi ekkert
til Kúru þá var eins og hún vissi alltaf hvar ég var, því það leið ekki
löng stund þar til hún var komin einhvers staðar i námunda við mig,
sat kannski á næsta húsþaki. Aldrei settist hún hjá mér nema þegar ég
var einn, og þá þurfti ég stundum ekki að kalla á hana. Ég hélt
stundum langar ræður yfir henni um það hvernig skynsamar dúfur
ættu að haga sér. Hún ætti til dæmis að setjast á öxlina á mér, því það
gerðu allar gáfaðar dúfur og það sæi maður oft á myndum í blöðum.
En það var alveg sama hvað ég sagði um svoleiðis hluti, hún bara
horfði á mig, velti vöngum og kurraði eins og hún var vön. Þó er ég viss
um það að hún vildi láta tala við sig. Ég meira að segja prófaði þetta,
ef ég þagði, þá kom hún nær og byrjaði að kurra og meira að segja ekki
alltaf með sama tón.
Kúra hafði mjög gaman af að stríða hröfnunum, en nóg er af þeim í