Húnavaka - 01.05.1981, Blaðsíða 71
HÚNAVAKA
69
þorpinu til að velja sér tóskaparull, hún þótt svo þelmikil og drjúg af
sauðunum.
Viðauki.
Lengi vel var mikil sauðaeign á Skaga. Til heimilis í Víkum voru á
haustin lagðir 10 sauðir sem forði til vetrarins, var kjöt þeirra ýmist
saltað eða reykt.
Flestir voru sauðir í Höfnum í tíð Árna Sigurðssonar bónda eða alls
200, er voru hafðir á Kaldrana í tveimur fjárhúsum er tóku 100 sauði
hvort.
Fimm jarðir höfðu mesta fjörubeit á Skaga, Hafnir, Víkur, Ásbúðir
og Mánavík í Húnavatnssýslu, en Hraun i Skagafjarðarsýslu.
Fjaran var talin að notagildi í vikum, er var eining fyrir hvað lengi
hana mætti nota til beitar. I Víkum var talin 8 vikna fjara, 12 í
Mánavík. Sú jörð er nú í eyði, nytjuð frá Víkum. í Ásbúðum 10 vikna
fjara.
Aðal sjávargróður er féð sótti i var kjarni og söl, er óx á fláttum er
kom upp um stórstraumsfjöru, einkum við Góustraum.
Eg var stundum látinn skera kjarnann á skerjunum og var hann
gefinn kúnum og þóttu þær græða sig við þessa fóðurbættu gjöf.
GALDRAKONA TIL fSLANDS
Anno 1634: Á þessu ári öndverðlega bar það til, að ein galdrakona úr Björgvin í
Noregi fór hingað til Islands upp á Snæfellsjökul (fyrir styrk og flutning djöfulsins).
Andskotinn hafði þann skilmála við hana, að hún skyldi ekkert gott orð tala, á meðan
hann flytti hana til og frá, en þó hún játaði þessu, þá leyfði guð henni ekki að fullenda
heitið, svo hún skyldi opinber verða og straffast, því nær djöfullinn var kominn með
hana í loftinu til Noregs aftur undir landið, svo hún sá borgina Björgvin, þá gladdist
hún mjög og talaði svoddan orð: „Guði sé lof“. Þau orð leið djöfullinn ekki og sleppti
þar í strax úr sínum klóm sinni þjónustuþernu og heitkonu, svo hún féll ofan i sjóinn.
En með þvi að í sama plássi voru norskir fiskimenn á sínum bátum og þeir þekktu
hana, þá gripu þeir hana samstundis og fluttu hana fyrir borgmeistara og ráðið. Varð
hún þá að uppsegja allan sannleik og var þar eftir á báli brennd sem verðugt var.
Sjávarborgarannáll.
L