Húnavaka - 01.05.1981, Page 95
BJÖRN BERGMANN:
Ljós og líf
Á æskuárum þeirra, sem nú eru aldraðir orðnir, var börnum kennt
að enginn mætti kvelja ljós. Þá var litið á ljós svipað og líf og það átti
að slökkva ljósið snöggt, annars var kvalið úr því lífið.
Fram að tíma rafljósanna nærðust öll ljós á ljósmeti og þau þurftu
loft eins og fólkið. Þá kom stundum fyrir á kvöldin, þegar þröngt var
setið inni í lágreistum híbýlum, eldur logaði í ofni og ljós á lampa, að
loftið varð þungt án þess að fólkið yrði þess vart. Þá dró niður í
lampanum og ljósið gaf til kynna að nú þyrfti að opna glugga, dyr eða
vindauga á gluggapósti og hleypa inn fersku lofti. Jafnskjótt og það
var gert færðist nýtt líf í ljósið og fólkið andaði léttar en áður.
Margir óttuðust að í myrkrinu dyldust meinlegar forynjur, sem
hvorki þyldu ljós né bjartan dag. Og myrkfælni þjáði margan mann,
en geigur af því tagi átti þó ekkert skylt við kjarkleysi á öðrum sviðum
mannlífsins eins og saga Grettis sýnir. Enginn gat eytt náttmyrkri með
öðru en ljósi, en langt var ekki hægt að komast í því efni, því að ljósfæri
voru fá og ófullkomin og ljósmeti af skornum skammti. Ljós voru þvi
ekki látin loga nema þar, sem fólk sat við vinnu eða hafðist eitthvað
ljósvant að.
Vinnudagur var langur allan ársins hring, en fátt var hægt að vinna
í rökkri. Þá var algengt og víða föst venja að fólkið fékk sér rökkur-
blund. Og ljós þurfti ekki að loga meðan fólkið svaf eða lúrði vakandi
og lét hugann reika um hvaðeina sem því sýndist.
Þegar kom fram á góu var víðast hvar hætt að kveikja ljós og farið að
hátta í björtu. Og síðsumars var ekki farið að kveikja fyrr en um réttir,
oft kveikt í fyrsta sinn kvöldið fyrir réttardaginn. Stundum var þó
brugðið upp ljósi fyrr, ef dagsbirtan nægði ekki til að ljúka nauðsyn-
legustu störfum, en hún var nýtt til hins ýtrasta og klukkunni ýmist
flýtt eða seinkað í samræmi við það.
Ljós og ljósfæri þurfti að annast líkt og þau væru lítil börn. Á