Húnavaka - 01.05.1981, Síða 137
HÚNAVAKA
135
gefur Smala,“ en svo hét hundur hans, frábær hundur, tók hvaða kind
sem var og hélt ef hann var beðinn. Sæmundur bjó sig í snatri. Móðir
hans rétti honum matartöskuna. „Mundir þú eftir fleygnum,
mamma?“ , Já, já,“ sagði Valborg. Sæmundur hafði alltaf með sér vín
í sínum leitarferðum, taldi það vafalaust hafa bjargað heilsu sinni. Svo
kveður hann móður sína og segir um leið: „Þú sérð um féð, ég fer á
bílnum fram að Seltúni og hef skíðin í honum, svo á ég skíðasleða
frammi í Bríkarskála.“ Seltún var fremsti bærinn.
Kári í Seltúni var ekki kominn á fætur svo Sæmundur stoppaði
ekkert þar, talaði aðeins við hann gegnum glugga. Sæmundur batt á
sig skíðin því skíðafæri var gott, honum skilaði vel fram heiðina.
Þegar hann kom fram að norðurenda Giljafells fór hann að hugsa
um draum móður sinnar. Eftir lýsingu hennar þá var það helst fram
með Giljafelli, þar voru gilskorur fjórar alls. Þegar hann var búinn að
leita þrjú gilin og hafði ekkert fundið fór hann að verða vonlítill. Hann
settist niður á stóran stein og fékk sér bita. Svo var haldið áfram og loks
kom hann á móts við fremsta gilið, gengur hann þá fram á kindaslóð
sem lá þvert frá gilinu og niður í flóa. Hann tók að kíkja um flóann og
varð einskis var. Þá hélt hann upp í gilið og bregður heldur þegar sér á
kindarhöfuð í smáskúta undir kletti. Þarna er þá lambhrútur stór og
föngulegur, stappar fótum og blæs og í sama mund stekkur hrússi í
fang Sæmundar og skellir honum aftur fyrir sig og á burt. Sæmundur
fékk vonda byltu, fann mikið til í baki og höfði og var stund að jafna
sig en þegar hann fór að litast um eftir hrússa þá sér hann að Smali
hafði tekið hann og skellt honum og lá ofan á honum. Sæmundur tók
kast mikið og tók við hrússa af Smala og var fljótur að binda hann
sauðabandi. Oft hafði Smali gert margt vel en aldrei eins og núna.
Nú vantaði illa skíðasleðann en hann var austur í Bríkarskála.
Sæmundur hafði alltaf með sér mjóan kaðal. Nú batt hann um horn á
hrússa og einnig utan um hann, svo var lagt af stað. En svo var hrússi
dýrvilltur að Sæmundur mátti hafa sig allan við að missa hann ekki.
Ferðin gekk skrykkjótt austur í skála en hafðist þó. Sæmundur var
orðinn dasaður er þangað kom, fann til bæði í höfði og baki eftir
byltuna. Hann hvíldi sig góða stund í skálanum. Síðan reis hann upp
og fékk sér smábita og sopa úr fleygnum, hrússi var settur á sleðann
bundinn sauðabandi og bundinn niður.
Sæmundur kannaðist alls ekki við markið á hrússa enda voru eyrun
skemmd. Það var aukaatriði hitt var aðalatriði að hafa fundið hann.