Húnavaka - 01.05.1981, Page 147
HÚNAVAKA
145
Nú var fokið í þetta skjól fyrir ungu stúlkunni, því nú var ekkjan á
Húnsstöðum ekki aflögufær lengur. En skólagangan varð Sigurlaugu
að gagni þó stutt yrði, því hún lærði að sauma, svo að hún varð vel
sjálfbjarga í þeirri iðn, og kom það sér vel á þeim tímum, þegar ekki
fengust tilbúin föt og peningar lágu heldur ekki á lausu.
Árið 1927 ræðst Sigurlaug ráðskona að Sólheimum í Svínavatns-
hreppi, til ungs og upprennandi bónda Þorleifs Ingvarssonar sem var
þá nýlega tekinn við þeirri ágætu jörð af eldri bróður sínum er flutti
þaðan vestur í Vatnsdal á föðurleifð konu sinnar. Þessir bræður höfðu
ungir misst móður sína og nokkrum árum síðar föður sinn, vel metinn
bónda og hreppstjóra, Ingvar Þorsteinsson. Þorleifur hafði ekki ætlað
sér búskap og var staddur úti í Noregi, þegar bróðir hans kvaddi hann
heim, því ekki vildu þeir láta óðalið ganga úr ættinni.
Það er gömul og ný saga að erfitt er að byrja búskap í sveit, þeim
sem ekki hafa komið sér upp bústofni smám saman gegnum árin.
Þorleifur átti hálflenduna, en allan búfénað og annað varð hann að
kaupa í skuld.
Þarna voru verkefni meiri en nóg. Bærinn var að vísu stór og
reisulegur, en þarna var tvíbýli og jörðin hafði verið í leiguábúð um
lengri tíma.
Eftir að Sigurlaug kom i Sólheima skildu þau ekki að skiptum
Þorleifur og hún. Þrátt fyrir mikla erfiðleika í byrjun, en „í baráttu er
blessun oss veitt“ — héldu þau hjón stöðugt mót batnandi hag og
voru gæfusöm, og er þá fyrst að nefna þeirra mikla barnalán.
Sigurlaug stóð svo sannarlega fyrir sinu, hún var vel verki farin,
fjölvirk, smekkvís og vildi hafa allt snyrtilegt innanhúss. Þorleifur lét
ekki sitt eftir liggja utanhúss sem að líkum lætur, eljumaður og
snyrtilegur í allri umgengni svo að eftirtekt vakti. Bæði voru þau hjón
sérstaklega gestrisin, enda var mikill gestagangur á heimili þeirra.
Á meðan börn þeirra voru á barnaskólaaldri var farskólinn í Sól-
heimum tvo eða þrjá mánuði á hverjum vetri. Þar voru líka oft ýmis
konar mannamót, veislufagnaðir og fundir. Heimili þeirra var eitt af
þeim sem þeir er til þekktu vildu helst ekki fara hjá, án þess að heilsa
upp á húsráðendur.
Þau Þorleifur og Sigurlaug hafa líklega hugsað líkt og segir i kvæði
Guðmundar Frímanns: „Ég vil byggja mitt hús við veginn og vera
vinur fólksins er gengur hjá“. Það var einstaklega viðkunnanlegt að
heimsækja þau.